Baksvið
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Þegar halla tók að aldamótum var að ryðja sér til rúms sú nýja tækni hér á Morgunblaðinu sem var kölluð alnetið. Vissulega hafði áður í talsverðan tíma verið hægt að senda gögn og upplýsingar frá A til B í gegnum símalínur, það er með flóknum og dýrum búnaði sem helst fyrirtæki höfðu yfir að ráða. Upp úr 1990 fór tölvutæknin hins vegar að verða meðfærilegri og þróun varð hröð. Vefmiðillinn mbl.is var settur í loftið snemma árs 1998, en tilkoma hans og fleiri fréttaveita leiddi af sér ýmsar samfélagsbreytingar. Miðlun upplýsinga varð örari en áður. Nýjar fréttir urðu gamlar lummur áður en við var litið. Allir þurftu að hlaupa hraðar.
Svo fór í fyllingu tímans að bankaviðskipti færðust að mestu yfir á netið, verslun að einhverju leyti, samskipti almennings við stjórnsýsluna og svo framvegis. Í heimsfaraldri á árunum 2020-2021 hélt þessi tækni í öllum sínum fjölbreytileika samfélaginu gangandi. Nú er raunar svo komið að snjallsímar sem eru í flestra hendi eru lykill fólks að veröldinni. Slíkt sást aldrei fyrir, kannski ekki einu sinni í Nýjustu tækni og vísindum; sjónvarpsþáttunum sem áratugum saman voru á dagskrá RÚV. Þar kynntu þeir Örlygur Thorlacius og Sigurður Richter stefnur, strauma og hvernig uppfinningamenn væru að skapa nýjan heim.
Víðnet tengir vinnustaði
Sögusviðið er Stöðvarfjörður 13. ágúst 1999; fánar dregnir að húni og stemning í lofti. Fyrirtækið Íslensk miðlun var þarna að hefja starfsemi sína í byggðarlaginu. Þarna skyldi starfrækt tölvuver, þar sem svarað var í símann og erindum sinnt fyrir Íslandssíma, sem á þessum tíma var spennandi sproti í atvinnulífinu. Því var svo lýst í Morgunblaðinu að starfsemi þessi byggðist á svokallaðri víðnetslausn sem sérfræðingar Tæknivals hf. hefðu hannað. Í Morgunblaðinu var því tækni þessari lýst svo að „ … unnt er að tengja saman tvo eða fleiri vinnustaði og láta þá starfa saman óháð fjarlægðum.“
Hjá Íslenskri miðlun á Stöðvarfirði störfuðu þrettán manns þegar best lét; fólk sem svaraði í síma, afgreiddi erindi yfir netið og svo framvegis. Sinna átti tölvuskráningu ýmiss konar, ekki síst fyrir opinbera aðila, og símaþjónustu svo sem úthringingum í fjáröflunarstarfi og fyrir PricewaterhouseCoopers í ýmsum könnunum.
„Með tilkomu þessa nýja fyrirtækis er í raun verið að breyta atvinnuháttum sveitarfélagsins, áður voru hér aðeins fiskurinn og kaupfélagið,“ sagði Jósef Auðunn Friðriksson, sveitarstjóri á Stöðvarfirði.
Og þarna var myndsímatal afhjúpað sem tækniundur. Í Reykjavík var Árni Sigfússon forstjóri Tæknivals; sá stóð við apparat sem endurvarpaði mynd af honum og máli austur á firði. Þar stóð Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og þingmaður Austurlandskjördæmis. Ráðherrann og forstjórinn töluðu saman um víðóma nettækninnar að viðstöddum fjölda fólks á báðum stöðum. Allt þótti þetta mikið nýmæli á þessum tíma; tækni sem er algeng í dag.
Nýtum nýja tækni
„Það skiptir meginmáli að við nýtum auðlindir okkar sem og nýja tækni. Og ég held að það sé einmitt svo margt sem tengist henni sem skapa mun landsbyggðinni ný sóknarfæri. Byggð í landinu verður best tryggð með frumkvæði fólksins sjálfs, en ekki opinberum aðgerðum þó ríkið geti haft áhrif til góðs,“ sagði Halldór Ásgrímsson við þetta tilefni. Forsvarsmenn Íslenskrar miðlunar lýstu sömuleiðis að svona starfsemi væri vel fyrir komið út á landi, sbr. að þar væri lítil starfsmannavelta og þar með stöðugleiki.
Íslensk miðlun setti upp fjarvinnslustöðvar á Stöðvarfirði, Suðureyri við Súgandafjörð og á Raufarhöfn. Starfsemin náði þó ekki því flugi sem vænst var og í ágúst 2001 var fyrirtækið lýst gjaldþrota. Fyrirætlanir og viðskiptaáætlanir gengu ekki upp. Enni einhverra var vafalítið sárt eftir þá brotlendingu en eftir varð mikilvæg reynsla. Störf án staðsetningar eru alsiða í dag á vinnumarkaði sem er í mikilli þróun. Margir sinna vinnu sinni að heiman að einhverju eða jafnvel öllu leyti. Sú þróun er alþjóðleg.
Í sumarlok 1999, þegar fjarvinnslustöðin á Stöðvarfirði var opnuð, þótti tölvutækni heimsins vera komin á viðsjárverðan stað. Við öllu var búist þegar ný þúsöld gengi í garð með árinu 2000; það er þegar 9 yrði 0. Tölvunarfræðingar víða um veröld útbjuggu forrit og lausnir sem halda áttu heiminum í heilu lagi. Sviðsmyndirnar voru annars þær að tölvukerfi viðskipta og fjármála myndu hrynja, túrbínur virkjana og flutningakerfi raforkunnar slá út, gervitungl hrökkva af sporbaug og svo mætti áfram telja.
Vandi sem ekki varð
„Við búumst við að þetta gangi vel, en þessi viðbúnaður er hafður vegna þess að við getum alltaf átt von á truflunum,“ sagði Haukur Ingibergsson, sem var formaður nefndar á vegum stjórnvalda sem hafði 2000-vandann og viðbrögð við honum sem verkefni. Á Íslandi var á gamlársdag sérstaklega fylgst með því hvort tölvukerfi hryndu í þeim löndum sem eru austan við okkur og þar með á undan í tímabeltinu. Svo varð ekki, engu nýju þurfti að bregðast við og í sjónvarpsútsendingu á nýársnótt greindi Haukur frá því að 2000-vandinn hefði enginn orðið, svo vel hefði verið vandað til allra tæknilausna. Og þar með var klappað og því innilega fagnað að ný þúsöld væri gengin í garð – tími tæknilausna og tækifæra sem hafa reynst flestu í fortíðinni ólík.