Sáttir sitja þessir selir. Mun færri slíkir drápust í grásleppunetum árin 2020-2023 að mati Hafrannsóknastofnunar.
Sáttir sitja þessir selir. Mun færri slíkir drápust í grásleppunetum árin 2020-2023 að mati Hafrannsóknastofnunar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mat Hafrannsóknastofnunar á meðafla fugla og sjávarspendýra í grásleppuveiðum dregst verulega saman. Sérstaklega vekur athygli að uppreiknað meðaflamat áranna 2020-2023 gerir ráð fyrir að fjöldi sjávarspendýra sem árlega drepist vegna grásleppuveiða …

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Mat Hafrannsóknastofnunar á meðafla fugla og sjávarspendýra í grásleppuveiðum dregst verulega saman. Sérstaklega vekur athygli að uppreiknað meðaflamat áranna 2020-2023 gerir ráð fyrir að fjöldi sjávarspendýra sem árlega drepist vegna grásleppuveiða sé 768, sem er 76% færri en tímabilið 2014-2018 þegar talið var að fjöldinn væri 3.223.

Telja vísindamenn um 501 landsel farast vegna veiðanna og er það 63% minna en í meðaflamati tímabilsins 2014-2018. Þá fækkar útsel úr 989 í aðeins 159. Enginn vöðuselur, kampselur eða hringanóri er í meðaflamati vegna grásleppuveiðanna 2020-2023 en í fyrra mati voru þessar tegundir sem meðafli samanlagt metnar vera 317 dýr.

Er talið að 108 hnísur hafi drepist árlega í grásleppunetum árin 2020-2023 en þær voru 528 árin 2014-2018.

Um ástæður samdráttarins segir í tækniskýrslu Hafrannsóknastofnunar: „Niðurstöðurnar sýna minni meðafla á sjávarspendýrum á árunum 2020-2023 en árin á undan en ástæður þess geta verið nokkrar. Líklega hafa þær aðgerðir sem farið var í árið 2020, sem snérust aðallega að svæðalokunum á veiðisvæðum A, B, C og D, leitt til lækkunar á meðaflatíðni, þar sem mesta lækkunin í meðafla sela var á þessum sömu veiðisvæðum. Eins fór Fiskistofa að stunda eftirlit með drónum í kjölfar Covid-19 faraldursins og síðan var átak í sjóeftirliti árið 2023 sem gæti haft áhrif. Einnig gæti mikil umræða um meðafla á árunum 2018-2019 haft þau áhrif að skipstjórnendur forðist svæði þar sem meðafli er mikill.“

Samt yfir mörkum

Bent er á í tækniskýrslunni að landselur sé algengasta sjávarspendýrið sem fáist sem meðafli á grásleppuveiðum og þrátt fyrir fækkun þeirra sem meðafla drepist of margir í grásleppunetum að mati stofnunarinnar.

„Síðasta stofnmat á íslenska landselsstofninum frá árinu 2020 hljóðaði uppá 10.319 seli sem er örlítil hækkun frá mati frá 2019 en þá var stofninn metinn vera 9.434 selir. Stofninn er enn metinn undir stjórnunarmarkmiðum stjórnvalda sem er 12 þúsund dýr. Til er veiðiþolslíkan byggt á gögnum um stofnstærð, kynþroskaaldur, lifun kópa og fullorðinna dýra og útgefnum viðmiðum um kópaframleiðslugetu. […] Niðurstaða þessa líkans er að veiðar (beinar og óbeinar) skuli vera undir 4,9% af stærð stofnsins sem er 506 dýr miðað við nýjasta stofnmat. Metinn meðafli var 501 dýr, og er því ljóst að meðafli er líklega um eða yfir þessu marki.“

Fengust færri sjófuglar vegna minni sóknar?

Einnig hefur fylgt þessum veiðum dauði sjófugla og var á tímabilinu 2014-2018 mat vísindamanna að 8.339 fuglar færust í grásleppunetunum árlega en tímabilið 2020-2023 eru þeir sagðir vera 5.167.

Fækkar skörfum um tæp 65% milli tímabilanna í 333, langvíum um rúman helming í 890 og æðarfugli um þriðjung í 2.245. Stofnar langvíu og skarfategundir eru hins vegar stórir eða stækkandi stofnar.

„Ekki er mikill munur á meðaflatíðni sjófugla á tímabilinu 2020-2023 og árunum á undan og helgast munur á uppreiknuðum meðafla að mestu af minni sókn. Æðarfugl var eins og í fyrri skýrslum algengasta fuglategundin og meðaflamatið hljómar upp á rúmlega 2.200 fugla árlega. Stofn æðarfugla við Ísland er nokkuð stór, eða um 850 þúsund fuglar á veturna, og þessi meðafli því ólíklegur til að hafa mikil áhrif á stofnstærðina. Æðarfugl er þó flokkaður í nokkurri hættu á válista fugla sem kom út 2018 vegna hraðrar fækkunar í stofninum, sérstaklega fyrir norðan land, á Vestfjörðum og í Breiðafirði. Fylgjast þarf með meðaflatíðni ef þessi fækkun heldur áfram,“ segir í tækniskýrslunni.

Vakin er sérstaklega athygli á teistu vegna smæðar stofnsins, en uppreiknað meðaflamat gerir ráð fyrir að árlega hafi fengist um 1.485 slíkir fuglar sem meðafli 2020-2023 á móti 1.653 árin 2014-2018.

„Stofn teistu er lítill, eða um 20-30 þúsund pör og er talinn hafa minnkað að meðaltali um rúmlega 2% á ári síðan 1981. Tegundin er flokkuð í hættu á válista fugla sem kom út árið 2018. Ljóst er að þessi meðafli er líklegur til að hafa slæm áhrif á stofninn og því þarf að leita leiða til minnka hann,“ segir í skýrslunni.

Mikil óvissa

Tekið er fram að töluverð óvissa sé enn í mati á meðafla grásleppuveiða og er fullyrt að þessi óvissa muni halda áfram ef núverandi aðferðafræði verði beitt til að meta meðafla veiðanna.

„Hægt væri að fá mun meiri þekju fyrir minni kostnað með því að notast við myndavélakerfi, en mikil þróun hefur verið í þeim málum undanfarin ár, og eru myndavélar nú notaðar til mats á meðafla á netabátum t.d. í Danmörku og Svíþjóð. Eins væri hægt að líta til Noregs sem notast við svokallaðan rannsóknaflota (e. reference fleet) við reikninga á meðafla, en þar eru ákveðnir bátar valdir og borgað í aflaheimildum fyrir að skila inn nákvæmum skýrslum um afla og meðafla.“

Fagna niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda (LS), telur nýtt mat Hafrannsóknastofnunar sýna að þær aðgerðir sem sambandið lagði til á sínum tíma til að draga úr fjölda sjávarspendýra sem drápust í grásleppunetum hafi borið árangur.

Hafði á grundvelli skýrslna eftirlitsmanna Fiskistofu 2014-2016 verið m.a. lýst verulegum áhyggjum af fjölda landsela sem fengust sem meðafli grásleppuveiða. „Hafin var vinna við að korleggja miðin m.t.t. þess hvar einkum væri hætta á selur veiddist sem meðafli. Þáverandi formaður Þorlákur Halldórsson ræddi við fjölda grásleppusjómanna sem leiddi til að LS lagði til lokanir ákveðinna veiðisvæða. Það ásamt fleiri þáttum leiddi til þess að vottun MSC um sjálfbærar veiðar var endurheimt 17. nóvember 2020.“

Rifjar Örn upp að veiðarnar misstu MSC-vottun 2017. „Ákvörðunin var byggð á útreikningum Hafrannsóknastofnunar, upplýsingum úr afladagbókum og athugunum veiðieftirlistmanna. Samkvæmt því væri ljóst að meðafli við veiðarnar væri umfram viðmiðunarmörk í fjórum tegundum, landsel, útsel og teistu. Tölurnar jafnigltu að á vertíðinni 2017 hefði meðaflinn jafngilt 16% útselastofnsins, 10% af stofni landsels og 20% af þeim fjölda teista sem stofninn taldi. Að mati vottunarstofunnar myndu veiðarnar að óbreyttu ógna tilvist þeirra,“

Gagnrýndi LS skýrslu Hafrannsóknastofnunar og vakti m.a. sérstaklega athygli á teistuna máli sínu til stuðnings. „Alls hafði verið unnið úr 115 skýrslum veiðieftirlitsmanna Fiskistofu á árunum 2014-2016. Fjöldi fugla 307, þar af 71 teista. Útreikningar Hafrannsóknastofnunar gerðu ráð fyrir að sami fjöldi væri veiddur í þeim sjóferðum sem ekki hefði verið mælt úr, þrátt fyrir að úrtakið hefði aðeins verið um 1%. Þá væri alfarið horft fram hjá því að teista kæmi aðeins í net sem lögð eru grynnra en 15 metrar, en 80% grásleppuneta væru lögð dýpra og ættu því ekki að koma til greina við útreikninga,“ segir hann.

Við fyrsta lestur nýju skýrslu Hafrannsóknastofnunar virðist sem eitthvað hafi verið tekið tillit athugasemda LS, segir Örn.