Saga Lúðvík S. Georgsson með Reykjavíkurhornið, sem Ríkarður Jónsson skar út og kostaði 245 krónur 1915, um 140 til 150 þúsund að núvirði.
Saga Lúðvík S. Georgsson með Reykjavíkurhornið, sem Ríkarður Jónsson skar út og kostaði 245 krónur 1915, um 140 til 150 þúsund að núvirði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Knattspyrnufélag Reykjavíkur verður 125 ára nk. föstudag, 16. febrúar, og verður haldið upp á tímamótin með ýmsum hætti á árinu. Á afmælisdaginn verður opið hús kl. 16.00-18.00 í KR-heimilinu við Frostaskjól og þá verða meðal annars um 160 KR-ingar heiðraðir fyrir vel unnin störf í þágu félagsins

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Knattspyrnufélag Reykjavíkur verður 125 ára nk. föstudag, 16. febrúar, og verður haldið upp á tímamótin með ýmsum hætti á árinu. Á afmælisdaginn verður opið hús kl. 16.00-18.00 í KR-heimilinu við Frostaskjól og þá verða meðal annars um 160 KR-ingar heiðraðir fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Laugardaginn 7. september verður haldin vegleg árshátíð og gefið verður út sérstakt afmælisrit.

KR er fjölgreinafélag en var stofnað í kringum fótboltann. Stofndagurinn var lengi á reiki, en í tilefni 25 ára afmælis KR skrifaði Kristján L. Gestsson, formaður KR 1923-1932, grein sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 16. febrúar 1924 og tekur fram í fyrstu setningu að félagið hafi verið stofnað þennan dag 1899. KR var bent á þessa heimild skömmu fyrir 100 ára afmælið og síðan hefur 16. febrúar verið haldinn hátíðlegur. „Eins og í byrjun greinarinnar er getið, er K.R. nú 25 ára gamalt, og mun því vera elsta núlifandi íþróttafjelag hjer,“ áréttar hann síðar í greininni. „Ekki hefur fundist eldri heimild en þetta um stofndaginn,“ segir Lúðvík S. Georgsson formaður afmælisnefndar.

Skráning á lokametrunum

Lúðvík hefur kynnt sér sögu félagsins manna best og er langt kominn með að skrá tölulegar upplýsingar um alla leikmenn meistaraflokks karla í knattspyrnu. Fljótlega eftir að hann kom inn í stjórn knattspyrnudeildar 1981 tók hann að sér að halda utan um tölfræði leikmanna meistaraflokks karla. „Þá vaknaði hjá mér áhugi á að skoða þessi mál aftur í tímann,“ rifjar hann upp. KR hafi átt ótrúlega góðar heimildir um leikmenn á fyrri hluta liðinnar aldar, þar sem Erlendur Ó. Pétursson, ritari 1915-1932 og formaður 1932-1933 og 1935-1958, hafi haldið vel utan um þessi mál. „Ég lauk að mestu við skráninguna fyrir 100 ára afmæli félagsins, er núna nánast tilbúinn með lið KR frá upphafi og vonandi get ég birt þessar upplýsingar á netinu áður en langt um líður.“

Við samantektina hefur Lúðvík farið yfir mikið magn skrifaðra heimilda um KR. Þar á meðal eru upplýsingar um ákvörðun KR um að hefja eigið mót, Reykjavíkurmótið, 1915, þar sem keppt yrði um Reykjavíkurhornið, sem KR vann síðar til eignar. „Ég hef fundið bækur sem ég hélt að væru týndar, eins og til dæmis fundargerðabók þar sem er fundargerð frá vakningarfundi KR árið 1910, og nú eru þessar heimildir aðgengilegar í KR-heimilinu.“ Lúðvík leggur áherslu á að þótt skipst hafi á skin og skúrir eigi félagið sér glæsta sögu að baki. „Ætli merkasti viðburðurinn sé ekki þegar deildaskiptingin var tekin upp 1948.“ Þá hafi talsvert fleiri komið að starfinu en áður, ekki aðeins aðalstjórn og nefndir innan hennar heldur hafi deildirnar fengið mun meira sjálfstæði. „Félagið blómstraði á næstu áratugum eftir þetta.“ Á 100 ára afmælisárinu hafi KR orðið Íslands- og bikarmeistari karla og kvenna í fótbolta og það sé einstakt afrek. „Ég á erfitt með að sjá annað félag jafna það.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson