Brostu! Martin Ødegaard smellir af.
Brostu! Martin Ødegaard smellir af. — AFP/Ian Kington
Þegar menn vinna við það allan daginn, alla daga (og jafnvel á nóttunni líka) að hafa skoðun á ensku knattspyrnunni er viðbúið að á endanum hrökkvi eitthvert bull upp úr þeim. Jamie Carragher, sparkskýrandi Sky Sports-sjónvarpsstöðvarinnar, sem alla …

Orri Páll Ormarsson

Þegar menn vinna við það allan daginn, alla daga (og jafnvel á nóttunni líka) að hafa skoðun á ensku knattspyrnunni er viðbúið að á endanum hrökkvi eitthvert bull upp úr þeim.

Jamie Carragher, sparkskýrandi Sky Sports-sjónvarpsstöðvarinnar, sem alla jafna veit helling í sinn haus, lenti í þessu um liðna helgi. Hann snöggreiddist þá og skammaði Martin Ødegaard fyrirliða Arsenal fyrir að fagna um of eftir sigur á Liverpool og sagði honum að hunskast frekar niður göngin og í steypibað. Það vantaði bara að Norðmaðurinn ætti að drífa sig beina leið heim, undir sæng og lesa Beckett eða Joyce.

Gary Neville, kollega hans á Sky, fannst þetta of langt gengið en viðraði samt efasemdir þess efnis að Arsenal væri nógu gott lið til að fagna svona hressilega. Hversu góður þarf maður að vera til að mega fagna með því að slá sér á lær og góla stundarhátt upp í vindinn, Gary?

Eftir því var tekið að Ødegaard hefði gripið myndavél hirðljósmyndara klúbbsins og byrjað að smella af í gríð og erg. Er einhver vanvirðing fólgin í því? Vefsíðustjóri Arsenal var hið minnsta fljótur að tína til á þriðja tug ljósmynda af alls konar gömlum kempum með myndavél og bros á vör – allt aftur á fjórða áratug síðustu aldar. Það var krúttleg málsvörn og alltaf ­gaman að svona gömlum myndum.

Höf.: Orri Páll Ormarsson