Enn dynja áföll á innviði Reykjanesskaga með tilheyrandi álagi á íbúa og atvinnulíf á svæðinu. Frá upphafi óvissutíma þann 10. nóvember sl. hafa teiknast upp margar mismunandi sviðsmyndir um framtíðarinnviði og ein sú versta varð að veruleika þann 8. febrúar þegar Njarðvíkuræð frá Svartsengi til Reykjanesbæjar fór undir hraun og eyðilagðist. Viðbragðsaðilar og fólk í framlínustörfum hefur enn og aftur sýnt ósérhlífni og vinnubrögð á heimsmælikvarða. Fyrir það verða þau að fá verðskuldaðar þakkir.
Það verður þó ekki horft framhjá því að sterkar vísbendingar hafa nú komið fram um að ekki hafi verið hugað tímanlega að varaleiðum, kæmi til þess að vatnsflæði myndi skerðast á svæðinu vegna jarðelda. Samkvæmt umfjöllun Heimildarinnar í gær, föstudag, liggja fyrir gögn þess efnis að stjórnvöld hafi ekki brugðist við ábendingu Orkustofnunar til ríkisstjórnarinnar og Almannavarna, sem meðal annarra unnin var í samstarfi við HS Orku og HS veitur, um búnaðarþörf og vararáðstafanir til heimila færi svo að Svartsengi yrði óstarfhæft að hluta eða öllu leyti.
Varaheitavatnslögn sem nú þjónar um 30.000 íbúum og atvinnustarfsemi á Reykjanesskaga hefur farið undir hraun en þykir að mestu nothæf, sem verður að teljast mikil mildi. Ekki er útlit fyrir annað en að talsverðar skemmdir á húsbyggingum verði ljósar á næstu dögum og reiða íbúar svæðisins sig nú á raf- og gaskyndingu, sem eykur verulega á eldhættu. Ekki er með öllu ljóst hvernig sinna á slökkviliðsstarfi þegar aðgengi að vatni er jafn takmarkað og raun ber vitni. Þannig varð að loka hluta starfsemi Keflavíkurflugvallar í gær, föstudag, þar sem lokun varð á köldu vatnsstreymi og fyrirséð er að mörg fyrirtæki geta orðið fyrir verulegu rekstrartjóni, svo sem gistiþjónusta og matvælafyrirtæki.
Ljóst er að eldgosavá á Reykjanesskaga verður viðvarandi komandi misseri, ef ekki næstu ár. Engan tíma má missa við gerð langtímaáætlana um orkuöflun og -dreifingu á svæðinu. Enn er raunhæf hætta á því að orkuver Svartsengis skemmist að miklu eða öllu leyti og áætlanir um varaafl eru enn óljósar. Ríkisstjórnin þarf að gera grein fyrir því hvers vegna ekki var brugðist tafarlaust af hennar hálfu við ábendingum Orkustofnunar í fyrrgreindu minnisblaði, til að mynda með útvegun kyndibúnaðar eða annarra varmagjafa í þágu almannaöryggis á Reykjanesskaga. Fumlaus viðbrögð starfsfólks í framlínu eru lofsverð en stjórnvöld verða samt sem áður að axla ábyrgð á þeim viðbúnaði sem á og verður að vera til staðar á meðan einhver alvarlegasta innviðaógn íslenskrar samtímasögu dynur yfir. Ríkisstjórnin þarf þar að ganga jafn rakleitt til verka og fólkið sem sinnir varnarleiknum á fremstu línu í okkar þágu.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.