Hér er enginn opinber greiningaraðili sem hefur þá skyldu að semja skýrslu og gefa stjórnvöldum og almenningi viðvaranir varðandi hernaðarlegt öryggi.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Að loknum ríkisoddvitafundi NATO í Vilnius á liðnu sumri mátti heyra samtal á Bylgjunni þar sem stjórnandinn og viðmælandi hans voru sammála um að í raun hefði ekkert markvert gerst á fundinum.

Þetta samtal einkenndist af þeim takmarkaða áhuga eða litlu þekkingu sem er hér á hernaðarlegum málefnum. Engu er líkara en ýmsir telji unnt að ræða eða greina þróun alþjóðamála án þess að huga að þessum þætti þeirra.

Þetta er mikill misskilningur. Í raun er það eðli varnar- og öryggismála að þau ýta flestu öðru til hliðar þegar þau komast á dagskrá í þeim löndum sem leggja rækt við eigin varnir.

Í vikunni birti greiningardeild ríkislögreglustjóra (GDR) skýrslu um hryðjuverkaógn á Íslandi 2024. GDR metur ógnina á þriðja stigi, um aukna ógn sé að ræða og fyrir hendi ásetningur og/eða geta og hugsanleg skipulagning hryðjuverka. Það er sem sagt ekki útilokað að hér undirbúi einhver hryðjuverk.

GDR býr yfir upplýsingum um einstaklinga sem aðhyllast ofbeldis- og öfgafulla hugmyndafræði. Þeir kunni að þróa með sér getu og ásetning til að fremja hryðjuverk. GRD berast á hverju ári tugir tilkynninga um alvarlegar hótanir gegn ráðamönnum og stofnunum. Þá fær GRD einnig upplýsingar frá erlendum samstarfsaðilum um einstaklinga sem tengjast alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum og hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Í janúar var átta manna fjölskyldu á Akureyri vísað úr landi til Grikklands af því að lögregla hafði verið upplýst um að fjölskyldufaðirinn væri félagi í hryðjuverkasamtökunum ISIS, Ríki íslams. Lokamarkmið múslímsku öfgamannanna í ISIS er að koma á fót kalífaríki, íslamskri ríkisstjórn fyrir múslímska heiminn, undir stjórn kalífa, veraldlegs valdsmanns sem talinn er þiggja vald sitt frá Allah.

Eftir að Hamas-hryðjuverkamenn réðust inn í Ísrael 7. október 2023 og drápu konur og börn er oft talað um Hamas og Ríki íslams í sömu andrá. Sérfræðingar í málefnum múslíma leggja hins vegar áherslu á að um tvenn ólík samtök sé að ræða vegna ólíkrar hugmyndafræði þeirra.

Hamas berst fyrir því að uppræta Ísraelsríki og hrekja Ísraela á brott eða drepa þá. Markmið Hamas eru staðbundin „frelsun allrar Palestínu“ úr höndum þeirra sem samtökin kalla „zíóníska óvininn“. ISIS vill sameina alla múslíma í einu ríki.

Um það sem gerist fyrir botni Miðjarðarhafs er rætt í spjallþáttum og jafnvel af fréttamönnum sjónvarpsstöðvanna af tilfinningahita og svipuðu virðingarleysi fyrir staðreyndum og gert var um ríkisoddvitafund NATO í Vilnius í fyrrnefndum útvarpsþætti.

Á fundinum í Vilnius voru nýjar svæðisbundnar varnaráætlanir NATO samþykktar. Um þessar mundir, næstu vikur og mánuði reynir á þær við æfingar. Ný NATO-herstjórn í Norfolk í Bandaríkjunum hefur forræði á æfingunni í norðri. Herir norrænu ríkjanna allra og Ísland falla undir þessa NATO-herstjórn.

Heildaræfingin heitir Steadfast Defender 2024 og hófst hún í Norður-Ameríku 22. janúar og lýkur í Evrópu í júní. Fyrsta stig hennar er að liðsstyrkur er fluttur frá Norður-Ameríku til Evrópu.

Síðan hefst æfingin Joint Warrior 24. febrúar frá Bretlandi og miðast sá þáttur við að tryggja samgönguleiðir á Norðaustur-Atlantshafi og landgöngu á strönd Noregs.

Þriðja stigið er Nordic Response, sem stendur yfir frá 3. til 15. mars. Þar beinast kraftarnir að því að taka á móti liðsauka af hafi á sama tíma og gerð er innrás á landi í Finnmörk í Norður-Noregi. Meira en 20.000 hermenn frá 13 ríkjum verða við æfingar í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

Í æfingunni er sett á svið atvik sem verður til þess að 5. grein Atlantshafssáttmálans, um að árás á einn sé árás á alla, er virkjuð vegna árásar öflugs nágrannaríkis á eitt bandalagslandanna.

Þetta er viðamesta heræfing NATO í okkar heimshluta í tæp 40 ár og hún endurspeglar gjörbreytt viðhorf í öryggismálum.

Það sama á við um hermál og hryðjuverkamál að vegna skorts á áhuga eða þekkingu er gjarnan rætt um þessi mál hér af ákveðinni lausung og ábyrgðarleysi.

Vegna þess hve veikt innra og ytra öryggiskerfið er hér höfum við síst af öllu efni á að taka því af léttúð þegar bent er á vaxandi ógn, hvort sem hún er hernaðarleg eða tengist hryðjuverkum.

GRD bendir á skýra og vaxandi hryðjuverkaógn. Heræfingarnar sem hér eru nefndar eru viðbúnaður vegna vaxandi hernaðarlegrar ógnar.

Hér er enginn opinber greiningaraðili sem hefur þá skyldu að semja skýrslu og gefa stjórnvöldum og almenningi viðvaranir varðandi hernaðarlegt öryggi.

Hvarvetna í nágrannalöndunum er unnið að því að efla viðbúnað bæði vegna innra og ytra öryggis. Þar er rætt um þessi mál af alvöru og þekkingu.

Gauragangurinn hér á landi vegna stríðsins sem Hamas-liðar hófu á Gaza 7. október, óraunsæið, frekjan og virðingarleysið fyrir stjórnvöldum og skyldum þeirra til að virða lög og rétt sýnir trú á að leysa megi átakamál með tilfinningum og fúkyrðum. Útlendingastefna sem er öðrum þræði reist á þessum grunni kostar okkur um 20 milljarða á ári. Við höfum þó ekki efni á að efla landamæravörslu, löggæslu eða aðild að eigin vörnum. Þekkingar- og ábyrgðarleysið kostar líka sitt.

Jarðeldarnir á Reykjanesi minna okkur rækilega á hve brýnt er að vera við öllu búin. Í 800 ár héldu eldarnir sig í iðrum jarðar. Enginn veit hverjum goðin reiddust nú og létu hraunið renna. Stríðseldar loga af völdum einræðisherra í hjarta Evrópu og hryðjuverkamanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Erum við búin undir verstu sviðsmyndina?