Breiðfylking stærstu stéttarfélaga landsins hefur slitið kjaraviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins (SA). Tilkynning þess efnis barst í gærkvöldi. Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins segir vonbrigði að hafa þurft að slíta viðræðunum

Breiðfylking stærstu stéttarfélaga landsins hefur slitið kjaraviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins (SA). Tilkynning þess efnis barst í gærkvöldi. Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins segir vonbrigði að hafa þurft að slíta viðræðunum. Breiðfylkingin hafi hins vegar neyðst til þess.

Málið strandar að hans sögn á ákvæði sem SA vilji ekki hafa inni í samningunum. Kveður það á um að hægt verði að slíta samningum ef verðbólga mælist yfir 7% á samningstímanum og ef vextir lækka ekki um 2,5%.

Í tilkynningu frá SA sem send var út í gærkvöldi segir að SA telji mikilvægt að forsenduákvæði sem samið er um valdi því ekki að stöðugleikinn ríki einungis til skamms tíma.

„Samn­ings­mark­mið í þeim kjaraviðræðum sem Sam­tök at­vinnu­lífs­ins hafa átt við breiðfylk­ingu stétt­ar­fé­laga á al­menn­um vinnu­markaði að und­an­förnu hef­ur verið að gera lang­tíma­samn­inga sem skapi skil­yrði fyr­ir minni verðbólgu og lægri vexti,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Seg­ir í til­kynn­ing­unni að SA séu reiðubú­in sem fyrr að halda sam­tal­inu áfram. Mark­miðið sé áfram að stuðla að auk­inni sátt. » 2