„Skilaboðin okkar alls staðar eru að það sé hægt að gera miklu betur í þessari grein ef við bara sýnum henni áhuga,“ segir hugsjónamaðurinn Þór Sigfússon.
„Skilaboðin okkar alls staðar eru að það sé hægt að gera miklu betur í þessari grein ef við bara sýnum henni áhuga,“ segir hugsjónamaðurinn Þór Sigfússon. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aðferðir Íslendinga eru einstakar og fólk var auðvitað að vinna saman áður en Sjávarklasinn kom til, en með klasanum gátum við ýkt þessi áhrif. Skilaboðin okkar alls staðar eru að það sé hægt að gera miklu betur í þessari grein ef við bara sýnum…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Aðferðir Íslendinga eru einstakar og fólk var auðvitað að vinna saman áður en Sjávarklasinn kom til, en með klasanum gátum við ýkt þessi áhrif. Skilaboðin okkar alls staðar eru að það sé hægt að gera miklu betur í þessari grein ef við bara sýnum henni áhuga og drögum inn í hana nýtt fólk til að gera hluti á hátt sem ekki hefur verið gert áður,“ segir Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans.

Klasarnir urðu fyrir rúmri viku níu talsins og eru þeir í fjórum heimsálfum, en hvernig byrjaði þetta allt saman?

„Ég ákveð að ég vilji stofna klasa 2010 og hann er síðan stofnaður 2011. Hugmyndin er framhald af því sem ég hafði verið að stúdera í doktorsnámi og vildi tengja saman fólk úr ólíkum greinum.“

Hann boðaði kynningarfund og mættu um 40 frumkvöðlar með ólíkan bakgrunn. „Þarna var ég að segja þeim frá því að ég ætlaði að fara að byrja með svona „start-up“-klasa fyrir sjávarútveginn. Þeir horfðu allir á mig og það reyndist enginn í salnum tengjast sjávarútvegi.

Það var alls ekki þannig að fólk sæi tækifærin í þessari grein. Þá var ég búinn að gera ásamt Ragnari Árnasyni [prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands] úttekt á því hvað þetta væri hagfræðilega stór hluti af íslensku efnahagslífi þegar allt væri talið. Við sáum endalaus ónýtt tækifæri og ákváðum að prófa þetta.“

Settlegur bisness

Árið 2012 er komið á samstarfi við Faxaflóahafnir um að stofna Hús sjávarklasans á Granda í Reykjavík þar sem sprotafyrirtækjum yrði boðin aðstaða. „Þá var sagt að það væri enginn í þessum bransa þannig að við ættum ekki að þurfa mikið húsnæði. Það væru líka allir með sitt eigið húsnæði, þetta væri mjög settlegur bisness,“ rifjar Þór upp.

„Svo fór fólk bara að streyma inn. Við stækkuðum og stækkuðum aftur og höfum endalaust verið að taka inn fólk. Núna erum við með 150 manns í húsinu og einhver 60 til 70 sprotafyrirtæki.“

Aðeins tíu sprotafyrirtæki voru með aðsetur í Húsi sjávarklasans í fyrstu og voru þau flest einsmannsfyrirtæki þannig að aðeins voru um fimmtán manns í húsinu. „Núna eru þau fyrirtæki komin með á fimmta hundrað starfsmanna. Í gegnum okkar kerfi hafa farið um 200 sprotafyrirtæki og margir þeirra orðnir gríðarlega flottir.“

Byrjaði í Maine

Árangur klasans fór fljótt að fréttast og fóru að mæta erlendir gestir og segir Þór marga hverja hafa sannfærst um að klasastarfsemi af þessum toga væri eitthvað sem þá vantaði á sínum heimaslóðum.

„Þá vantaði betri tengingu milli rannsóknarstofnana, útgerða, nemenda og ekki síst þessa heims sprotafyrirtækja. Upp úr þessu ákváðum við að prófa hvort þetta væri eitthvað sem myndi ganga í öðrum löndum.

Um þetta leyti voru samskipti að byrja milli Eimskips og hafnaryfirvalda í Maine-ríki í Bandaríkjunum. Við fengum fólk í heimsókn til okkar og var þá rætt um að stofna sjávarklasa númer tvö þar í Nýja-Englandi. Maine er mjög öflugt svæði, sértaklega mikil skelfiskútgerð. Þessi klasi fór að blómstra mjög hratt og í kjölfarið koma Alaskaklasinn og svo New Bedford-klasinn.“

Þór bendir þó á að Íslenski sjávarklasinn hefur aðeins ráðgefandi hlutverk gagnvart öðrum klösum því þessir erlendu sjávarklasar eru allir sjálfstætt reknir óháð hinum íslenska. Útrás sjávarklasans er fyrst og fremst hugmyndafræðilegs eðlis.

Þáttaskil

„Bandaríkjamenn hafa sérstaklega sýnt þessu mikinn áhuga. Þetta er eitt stærsta landið í okkar samskiptaneti og þar finnst fólki það fyndið að einhverju leyti að þessi litla þjóð, Ísland, er svo miklu framar en þeir hvað viðkemur sjávarútvegi og öllu er varðar tækninýjungar í þessari grein.

Um leið finnum við mikinn áhuga hjá Evrópumönnum og alla leið frá Kyrrahafseyjum og Afríku, en við viljum taka skrefin hægt og rólega svo við ráðum við að koma þessum hugmyndum áleiðis eins og kostur er,“ útskýrir Þór.

Samhliða þessari klasa-útrás hefur Íslenski sjávarklasinn átt í samstarfi við MATÍS, Marel og fleiri aðila og hefur tekið að sér ráðgjafarverkefni erlendis. „Við erum meðal annars að fá frystan fisk frá þessum löndum til að komast að því hvað megi gera betur í samstarfi við tæknifyrirtækin. Það er rosaleg upplifurn fyrir þessa erlendu aðila að heyra að úr þessum fiski – sem þeir töldu verðlausan – er hægt að gera heilmikil verðmæti.

Kannski er gott roð til að breyta í kollagen eða gott kjöt ef maður notar betri vinnslutækni. Víða er enn verið að handvinna flökin og þegar Marel, Curio og fleiri hafa hjálpað okkur hafa orðið algjör þáttaskil fyrir þessa erlendu aðila,“ segir Þór sem kveðst binda miklar vonir við að nýju klasarnir skili árangri.

Nýjasti klasinn í Namibíu

Fyrir rúmri viku var stofnaður nýr sjávarklasi í Namibíu (Namibia Ocean Cluster) og eru stofnendur vottuðu lýsingsútgerðirnar Embwinda, Hangana, Merlus, Novanam, Pereira og Seawork, auk fiskistofu Namibíu, náttúrusjóðs Namibíu (Namibia Nature Foundation) og Háskólans í Namibíu.

Stofnaðilar nýstofnaðs klasa hafa skuldbundið sig til að lágmarka sóun og nýta til fulls félagslegan og hagfræðilegan ávinning af fiski sem veiddur er í Namibíu. Markmið klasans er að efla nýsköpun, rannsóknir og markaði fyrir aukaafurðir úr sjávarútvegi á sama tíma og félagslegur og efnahagslegur ávinningur eykst.

Þá er sjávarátak Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum's Ocean Action Agenda) bakhjarl sjávarklasans í Namibíu.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson