Skólinn í Aþenu á fresku Rafaels í Postulahöllinni í Vatikaninu, frá upphafi 16. aldar. Fyrir miðju standa helstu fyrirmyndir vestrænnar menningar um hvernig eigi að halda uppi vitsmunalegum samræðum: Platón og Aristóteles. Sókrates, lærimeistari Platóns, var dæmdur til dauða árið 399 f.Kr. fyrir að vanvirða þeirra tíðar guði og spilla æskunni með rökræðum.
Skólinn í Aþenu á fresku Rafaels í Postulahöllinni í Vatikaninu, frá upphafi 16. aldar. Fyrir miðju standa helstu fyrirmyndir vestrænnar menningar um hvernig eigi að halda uppi vitsmunalegum samræðum: Platón og Aristóteles. Sókrates, lærimeistari Platóns, var dæmdur til dauða árið 399 f.Kr. fyrir að vanvirða þeirra tíðar guði og spilla æskunni með rökræðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hinn 26. september 2015 birtist grein á vísi.is eftir Jón Gnarr þar sem hann bjó til hugtakið freki kallinn um þau sem fara sínu fram, hlusta hvorki á rök annarra né færa rök fyrir skoðunum sínum – en gera bara það sem þeim sýnist

Tungutak

Gísli Sigurðsson

gislisi@hi.is

Hinn 26. september 2015 birtist grein á vísi.is eftir Jón Gnarr þar sem hann bjó til hugtakið freki kallinn um þau sem fara sínu fram, hlusta hvorki á rök annarra né færa rök fyrir skoðunum sínum – en gera bara það sem þeim sýnist. Og komast oft upp með það, t.d. náði erkitýpa freka kallsins kjöri til forseta Bandaríkjanna tveimur árum eftir að greinin birtist.

Freki kallinn er ekki bundinn við stjórnmálaflokk, kyn eða trúarhóp; hann getur alls staðar stigið fram og haft rétt fyrir sér um leið og hann beinir ókvæðisorðum að þeim sem eru ósammála honum. Þau freku, sem hafa aðstöðu til, beita að auki auði og áhrifum/völdum til að grafa undan þeim sem reyna að halda uppi málefnalegri gagnrýni á frekjuna; hrekja þau úr starfi eða burt úr bæjarins bestu byggð.

Freka kallinum hentar að beina athygli almennings á aðrar brautir en að afhjúpa frekjuna í sjálfum honum; láta þjóðfélagsumræðuna t.d. nærast á því að etja launþegum saman innbyrðis, þannig að fólk með milljón á mánuði verði að höfuðstéttaóvini þeirra sem eru með hálfa milljón, láta meintan orkuskort í landinu vera hleðslubatteríum í eigu almennings að kenna, gera menntaletingjana í Reykjavík að fjendum þeirra sem skapi landsauðinn utan höfuðborgarsvæðisins; útlendinga að sérstökum óvinum sannra Íslendinga – eða sanna Íslendinga að óvinum útlendinga, eftir því hvorum megin freki kallinn stendur í þessum sérstaka hernaði með það sem hann kallar sín prinsipp – eða ströngu og sjálfskipuðu siðaboð. Almennt eru prinsipp mjög ofmetin, nema ef vera skyldi kærleiksboðorðið. Þau sem reyna að lifa við of ströng siðaboð lenda iðulega í sömu ógöngum og Bjartur í Sumarhúsum.

Nú er talað um það í heimspressunni að nokkrir frekir kallar fari sínu fram á samfélagsmiðlum í krafti auðs og valda. Skilaboðin verði æ styttri en þeim mun áhrifameiri eftir því hvað mælandinn er ríkur; auðmagnið sé þannig nýtt beint til áhrifa á almenning fremur en með því að veita því til ólíkra málefna – eða frambjóðenda. Og frekir kallar með minna fé á milli handanna íhuga orð Hallgríms Péturssonar: „hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það“ – og láta vaða með sömu frekjunni á þau fáu sem reyna að halda uppi einhverju sem gæti minnt á málefnalega umræðu um umdeild og viðkvæm ágreiningsefni í þjóðfélaginu.

Þannig hafa freku kallarnir komist til áhrifa með því sem stundum er kallað skautun í umræðunni; fólk hrópar ýmist til hægri eða vinstri, á borgina eða landsbyggðina, á Íslendinga eða útlendinga – uns allt fer upp í loft. Freki kallinn er ekki sá eða sú sem er ósammála okkur heldur sá/sú sem hirðir ekkert um málefnalega umræðu, færir hvorki rök fyrir máli sínu né vegur og metur rök annarra. Það er mikilvægt í þessu sem öðru að merking mikilvægra hugtaka í tungumálinu sé skýr og menn misbeiti þeim ekki.