Á bestu árum útgerðar Hraunvíkur náði aflinn upp undir 500 tonn á ári en mikill samdráttur hefur orðið síðan.
Á bestu árum útgerðar Hraunvíkur náði aflinn upp undir 500 tonn á ári en mikill samdráttur hefur orðið síðan. — Ljósmynd/Vigfús Markússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við höfum helst viljað róa frá Grindavík en þegar við höfum verið í viðskiptum í Keflavík er landað þar. Við tókum tvo-þrjá róðra frá Hafnarfirði í desember og það gekk bara mjög vel. Þetta eru að meðaltali um fimm tonn í róðri, sem er bara mjög fínt,“ segir Viktor

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Við höfum helst viljað róa frá Grindavík en þegar við höfum verið í viðskiptum í Keflavík er landað þar. Við tókum tvo-þrjá róðra frá Hafnarfirði í desember og það gekk bara mjög vel. Þetta eru að meðaltali um fimm tonn í róðri, sem er bara mjög fínt,“ segir Viktor.

„Við byrjuðum með hendur tómar og keyptum bát 2004 og fram til 2007 keyptum við talsverðar aflaheimildir, sem við höfum nánast aldrei veitt því það hafa verið svo miklar skerðingar,“ svarar hann spaugilegur og flissar er hann er spurður um upphaf útgerðarinnar. Þann 15. október er tveggja áratuga afmæli útgerðar þeirra félaga.

„Við höfum landað á fiskmarkað og verið í föstum viðskiptum. Við höfum haldið sjó en þetta er mikil vinna. Við höfum verið að stunda sjóinn talsvert en höfum verið að draga aðeins úr þessu síðustu tvö ár því við höfum byggt þetta svolítið á leigukvóta.

Svo þegar þessar hamfarir koma núna hefur þetta verið ansi ódrjúgt. Maður er alltaf að bíða eftir einhverju kraftaverki. Veiðarfærahúsið okkar er líklega eitt af þeim húsum sem hafa orðið verst úti. Það er eiginlega hrunið. Það stendur bara uppi vegna netakara inni í húsinu. Við höfum ekkert fengið að vitja þess eða skoða aðstæður í rúman mánuð. Við eigum talsvert af veiðarfærum þarna inni,“ útskýrir Viktor.

Síðustu móhíkanarnir

Töluverðar sveiflur hafa verið í útgerð Hraunsvíkur og á bestu árunum náðu félagarnir upp undir 500 tonna afla á ársgrundvelli, en verst gekk 2012 þegar aflinn var aðeins 72 tonn. „Við höfum veitt einhver 100 tonn á ári síðustu tvö ár, þannig að þetta er alveg að verða búið. Þessi einyrkjastarfsemi er að fjara út,“ segir Viktor.

Hann er kominn í annað starf sem stýrimaður á Sóleyju Sigurjóns GK og er útgerð Hraunsvíkur orðin viðbót við það.

Er gott að róa frá Grindavík?

„Já, það er mjög gott að róa frá Grindavík. Það er svo stutt á miðin, það þarf bara að fara rétt út fyrir innsiglingu. Við höfum farið út um fimm-sex-leytið að morgni og lagt netin, svo fengið okkur kaffisopa og svo höfum við bara byrjað að draga. Við höfum alltaf byrjað í janúar og það er alltaf gríðarlega mikið af fiski þarna og erum eiginlega einir að þessu. Við erum síðustu móhíkanarnir á þorskanetum, þessi veiðimennska er að hverfa.

Innsiglingin og allt þetta í Grindavík í dag eftir breytingarnar er bara frábært. Höfnin er alveg stórkostleg og Grindavík ber af í samanburði við hafnir í Sandgerði, Keflavík eða Þorlákshöfn. Annars er Þorlákshöfn að verða ágæt.“

Viktor segir einnig hafa verið gert út á skötusel á sumrin. „Okkur hefur fundist verð aðeins of lágt, þar sem skötuselsveiði er talsvert dýr. Við eigum reyndar allt í eitt úthald í veiðarfærahúsinu okkar, tilbúið að leggja í sjó.“

Óvissan ráðandi

Spurður um framhaldið svarar hann: „Við viljum auðvitað róa frá Grindavík en ég sé ekki fyrir mér að það verði. Það þarf að koma heitt og kalt vatn niður á höfn og rafmagn, það er forsenda reksturs. Við getum svo sem landað hvar sem er, það er minnsta vandamálið. Þetta er bara spurning hvort Grindavíkurhöfn verði starfrækt, maður veit það ekkert.

Við vorum með fullan hug við að reyna að landa bara á markaðinn og klára okkar kvóta í Grindavík en eins og staðan er orðin erum við bara með bátinn í Hafnarfjarðarhöfn og bíðum átekta. Þetta er nú ekki að þróast vel með það sem er að gerast núna. Nú er hugur minn bara hjá Suðurnesjabúum sem hafa áhyggjur af vatni og hita. Mér fannst það nú alveg nóg að eitt byggðarlag lenti í þessu en ekki öll byggðarlögin á Suðurnesjum, þetta finnst mér einum of mikið.“

Viktor veltir fyrir sér hvort og hvernig hægt verði að snúa aftur til Grindavíkur. „Manni finnst það einhvern veginn óhugsandi að heil byggð geti bara verið þurrkuð út, en það getur gerst. Ég var alltaf að hugsa til þess að fara heim og maður var farinn að halda að það gæti gerst í vor, en nú er ég farinn að telja mér trú um að það verði eitt og hálft ár. Svo eftir því sem styttist í sextugt verður kannski erfiðara að pakka ef maður er búinn að koma sér fyrir.“