Björg Árnadóttir er fædd 10. febrúar 1964 í Reykjavík og ólst upp í Smáíbúðahverfinu.
„Þar var radíusinn ekki stór, ég fluttist úr Bakkagerði í Dalaland og þaðan í Espigerði. Ég var mikið borgarbarn en alin upp við mikla ást á Íslandi. Pabbi er landafræðingur, Imma amma þeyttist með mig um allar koppagrundir til að kenna mér öll örnefni á landinu og Maggi afi þekkti hverja einustu Íslendingasögu. Engin spurning að þetta lagði grunninn að ást minni á landinu og starfsvali eftir að ég lærði að fylgja hjartanu.“
Björg var í Hvassaleitisskóla, fór þaðan í Menntaskólann við Hamrahlíð og lauk námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands. „Ég ætlaði að velja mér hjúkrun að ævistarfi en það varð þó frekar skammvinnt, þar sem ég fékk alltaf innilokunarkennd við að sjá vængjahurðina lokast á eftir mér þegar ég gekk inn á deild að morgni.“
Síðan fór Björg í MBA í HÍ og útskrifaðist þaðan 2006, þaðan í Leiðsögumannaskólann í MK, svo beint í þjálfunarprógram hjá Björgunarsveitinni Ársæli og þaðan í jógakennaranám á Indlandi. „Þessi samsetning, hjúkrun, leiðsögn, fjármál, björgunarsveit og jóga, eru frábær grunnur fyrir það starf sem ég er í í dag.“
Björg hóf starfsferilinn sem fljótasti pylsuafgreiðslumaðurinn í Reykjavík í pylsuvagninum í Laugardal. Hún var síðan meðal annars framkvæmdastjóri Heilsuverndar og markaðsstjóri hjá Vistor áður en hún tók við framkvæmdastjórastöðu hjá Midgard Adventure.
„Ég nýt þeirra forréttinda að vera í frábærri vinnu. Árið 2013, þegar ég hafði verið hjá Vistor í næstum 10 ár, söðlaði ég um og mætti á Hvolsvöll eins og Soffía frænka í Kardimommubænum. Tók mér framkvæmdastjóratitil hjá Midgard Adventure og sit þar sem fastast og þaðan hefur engum enn tekist að skila mér. Það er gaman að blanda þar saman leiðsögn og rekstrarþekkingu. Við Markús maðurinn minn rákum tvö heimili í nokkur ár og bjuggum í fjarbúð. Hann elti mig loksins austur og í dag rekum við bara heimili á Hvolsvelli þótt hann vinni enn í bænum.
Í vinnunni veit maður aldrei hvað dagurinn ber í skauti sér. Okkur hefur þó tekist að laða að dásamlega gesti, meðeigendur og starfsfólk. Vinnan hefur sannarlega kennt mér að laga mig að hinu óvænta og að það sé regla en ekki undantekning. Hjá Midgard hafa flestir fjölskyldumeðlimir verið í vinnu til lengri eða skemmri tíma við alls konar störf.“
Björg sat í fyrstu stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og var síðar formaður stjórnar Markaðsstofu Suðurlands. „Ég skil annars ekki mikið eftir mig í nefndarstörfum og slíku. Líklega hef ég alltaf átt aðeins erfitt með að hemja mig til slíkra starfa.“
Í haust hóf Björg nám í Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu. „Ég er því komin í hring. Þar er ég, ásamt samnemendum mínum á aldrinum frá 20-60 ára, að efla mig enn frekar í útivist og tryggja að ekki verði lát á. Algjört snilldarnám sem ég mæli heils hugar með fyrir útivistaráhugafólk á mínum aldri sem á sér draum um að breyta um starfsvettvang. Ég svaf 10 nætur í tjaldi í haust, klettaklifraði í viku, ísklifraði í aðra viku á flestum skriðjöklum á Suðurlandi og gekk um Víknaslóðir. Missti af fjallaskíðaferð núna í byrjun febrúar vegna aðgerðar á hné en verð orðin góð fyrir næstu ferð, fjögurra daga gönguskíðaferð með púlku, í byrjun mars.
Líf mitt hefur, sérstaklega í seinni tíð, einkennst af útiveru og leik. Við Markús byrjuðum saman ung, í menntaskóla þar sem ég var nú svolítil skvísa, með stífblásið hár sem Markús mátti nú helst ekki setja hendurnar í gegnum. Það breyttist nú fljótt og frá 30 ára aldri hef ég elskað að vera úti og að leika mér, hlaupa, skíða, hjóla eða klifra eða hvað sem er.“
Uppistaðan var lengst af hlaup og náði Björg því að verða tvöfaldur Íslandsmeistari í maraþoni og hafði meira að segja tekjur af á góðærisárunum 2006-2008 þegar bankarnir veittu peningaverðlaun. „Núna hleyp ég að hámarki fimm sinnum á ári en fjallahjólið hefur tekið við. Ég elska að horfa upp fjall og velta fyrir mér og oft framkvæma það að koma niður af fjallinu á hjólinu.
Ég get vel hugsað mér að vera á úthringilista fólks yfir þá sem hægt er að hringja í og fá með í skemmtilegar áskoranir, jafnvel með stuttum fyrirvara. Markmið mitt er þá að vera í þannig formi að ég geti alltaf sagt já takk. Ég tók í sumar þátt í einni slíkri áskorun eftir slíkt símtal. Fimm daga fjallahjólakeppni í Sviss, 80 km og 2.000 metra hækkun á dag. Safnaði á mig bjúg vegna hæðar og áreynslu, lafmóð að koma hjólinu upp á hæstu toppa í tæknilegum brautum en elskaði hverja mínútu. Nú sækir 10 ára barnabarnið mig út á fjallahjólaæfingar með vinum sínum. Það eru forréttindi.
Ég lifði alltaf í þeirri trú að ég dæi ung. Það hefur nú heldur betur ekki gengið eftir og ég hef sett mér nýtt markmið um að verða 100 ára íþróttakona. Ég sé mig fyrir mér umvafða lífsglöðu fólki, einhvers staðar í heiminum, í djúpum samtölum um lífið og tilveruna og hvernig við ætlum að njóta lífsins til fulls.“
Í tilefni afmælisins er Björg stödd erlendis ásamt Markúsi og stórfjölskyldunni. „Við gefum aldrei gjafir en ferðumst saman annað hvert ár. Nú til Madeira, þar sem við ætlum meðal annars að fjallahjóla í einni mestu fjallahjólaparadís Evrópu.“
Fjölskylda
Eiginmaður Bjargar er Markús H. Guðmundsson, f. 8.8. 1963, tómstunda- og félagsmálafræðingur og forstöðumaður í Hinu húsinu. Foreldrar hans eru hjónin Sigurbjörg M. Stefánsdóttir, f. 3.11. 1938, hárgreiðslukona, og Guðmundur M. Sigurðsson, f. 26.6. 1936, bifvélavirki. Þau eru búsett í Reykjavík.
Börn Bjargar og Markúsar eru 1) Arnar Gauti Markússon, f. 4.3. 1987, eigandi Midgard, hljóðmaður og leiðsögumaður, búsettur í Fljótshlíð. Maki: Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir, f. 16.5. 1987, eigandi Midgard og MSc í umhverfis- og auðlindafræði. Börn: Kristján Eyberg, f. 13.9. 2013, og Markús Eyberg, f. 28.3. 2017; 2) Guðmundur Fannar Markússon, f. 1.2. 1992, leiðsögumaður, stofnandi Iceland Bike Farm og nú starfsmaður Útivistar sem staðarhaldari í Básum, búsettur á Hvolsvelli. Börn: Heiða Guðbjörg, f. 14.8. 2015 og Steinn Kaldbak, f. 17.3. 2017.
Systkini Bjargar eru Anna Rut Hilmarsdóttir, f. 26.11. 1984, ferðaskipuleggjandi, búsett í Reykjavík, og Magnús Árnason, f. 23.2. 1973, framkvæmdastjóri skíðasvæðisins í Bláfjöllum, búsettur í Reykjavík. Stjúpsystir Bjargar er Erla S. Grétarsdóttir, f. 18.6. 1972, sálfræðingur í Reykjavík.
Foreldrar Bjargar eru Hrafnhildur Skúladóttir, f. 23.4. 1944, kennari, búsett í Reykjavík, og Árni Magnússon, f. 14.5. 1942, fv. skólastjóri, búsettur í Garðabæ. Þau skildu. Núverandi maki Árna er Sigfríður Þórisdóttir, f. 28.12. 1951, fv. þjónustufulltrúi hjá VÍS.