Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Stjórnsýsla borgarinnar er orðin svo flókin og seinvirk að almenningur getur illa fylgst með hvað er að gerast hverju sinni á þeim bæ.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Auðvelt er að gera sér grein fyrir því að stjórnmálaumræðan hér á landi er ekki beinlínis áhugaverð. Ekki síst á þetta við um umræðuna á Alþingi og að hluta til einnig í borgarstjórn. Fyrir almenning er oft erfitt að gera sér grein fyrir því hvað snýr upp og hvað niður í umræðunni milli kjörinna fulltrúa.

Ekki boðlegt

Að sjálfsögðu var umræðan á vettvangi Alþingis og borgarstjórnar áður fyrr ekki laus við slíkan málflutning, en ekkert í líkingu við það sem nú gerist. Fyrir þá sem fylgjast með umræðunni, sem eru enn nokkuð margir, er þessi staða oft og tíðum ekki boðleg. Orðaskipti síðustu daga á milli þingmanna um mál sem snerta þjóðina alla eru einnig með þeim hætti að almenningi er farið að blöskra.

Eitt í dag og annað á morgun

Stjórnsýsla borgarinnar nú orðið er orðin svo flókin og seinvirk að almenningur getur illa fylgst með hvað er að gerast hverju sinni á þeim bæ. Þessi staða ætti að vera áhyggjuefni fyrir borgarfulltrúa en teikn eru á lofti um að þeir hafi litlar áhyggjur af þessari stöðu. Því minna sem heyrist af ýmsum áætlunum meirihlutans því betra fyrir hann. Minnihlutinn lætur í sér heyra öðru hverju en ábendingar hans og gagnrýni á störf meirihlutans virðast ekki hafa mikið að segja.

Hógværð

Nýr borgarstjóri hefur tekið við í Reykjavík eftir 10 ára valdatímabil fráfarandi borgarstjóra. Nýi borgarstjórinn má eiga það að á fyrstu dögum sínum í embætti hefur hann sýnt hógværð og dagfarsprúða framkomu gagnvart almenningi, starfsmönnum borgarinnar og fjölmiðlum. Margir kjörnir fulltrúar gætu tekið sér það til fyrirmyndar.

Forgangsraða upp á nýtt

„Ég er tilbúinn að veita pólitíska forystu fyrir mjög mikilvægum breytingum í borginni, af því að það er svo sannarlega kominn tími til að breyta í Reykjavík,“ sagði núverandi borgarstjóri í fjölmiðlum í maí 2022. Hann talaði líka um að það byggju tvær þjóðir í Reykjavík; annars vegar vestan Elliðaáa og svo hins vegar í úthverfum. Nú þyrfti að forgangsraða upp á nýtt hjá borginni. Það hefur vantað forystu í kerfinu í einstaka málaflokkum sagði oddviti Framsóknarflokksins í aðdraganda kosninganna 2022. Þetta má til sanns vegar færa. Nú hefur hann tækifæri til að breyta, hann er kominn í oddvitastöðu í borgarstjórn Reykjavíkur, sestur í sjálfan borgarstjórastólinn.

Vonandi tekst nýjum borgarstjóra ætlunarverk sitt, að breyta í Reykjavík. Megi honum farnast vel í sínum störfum fyrir okkur borgarbúa. Af nægu er að taka af verkefnum sem þarfnast breytinga. Nægir þar að nefna leikskólamál, fjármál, lóðamál og mikilvæg samgöngu- og skipulagsmál.

Á hinn bóginn á hann ekki að eyða tíma sínum í þá þráhyggju núverandi meirihluta að koma innanlandsfluginu í Hvassahraun, eins og fráfarandi borgarstjóri hafði ofarlega á vinnulista sínum og hefur enn. Sú hugmynd var slæm á sínum tíma en er í dag orðin fjarstæðukennd.

Áhugavert verður að fylgjast með því hvort gamli meirihlutinn, sem féll í síðustu kosningum og Framsóknarflokkurinn veitti framhaldslíf, sé til í breytingar með nýjum borgarstjóra. Það kemur fljótlega í ljós.

Höfundur er fv. borgarstjóri.