Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Nokkur kurr er í atvinnurekendum í Grindavík vegna þeirra ströngu takmarkana um aðgang að bænum sem í gildi eru og einnig vegna þess að að lítt sé horft til fyrirtækjanna hvað varðar stuðning í þeirri erfiðu stöðu sem uppi er.
„Ég hef ekki heyrt um neitt sem gera á, annað en þessa launatryggingu sem starfsfólkið hefur fengið. En gagnvart fyrirtækjunum sjálfum hefur lítið verið gert og við erum ósáttir við það hvað aðgangurinn að bænum hefur verið heftur mikið og það á við um íbúana líka,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf., við Morgunblaðið.
Gunnar segir að veita eigi fyrirtækjunum rýmri aðgangi að bænum en verið hefur svo að unnt verði að bjarga verðmætum, þ.e.a.s. þegar allt er í lagi. Eftir því hafi verið óskað en engin viðbrögð komið við því erindi.
„Við erum ekki að biðja um að fá að vera í Grindavík þegar neyðin er mest, en þegar slökknar á gosinu eins og nú finnst okkur að það mætti slaka á gagnvart okkur. En það eru almannavarnir og ráðherrann sem ráða ferðinni,“ segir hann.
Gunnar segir að fyrirtækin hafi fengið að senda fólk inn í bæinn frá kl. 9 á morgnana til kl. 3 á daginn, en sá tími nýtist ekki sem skyldi vegna þess að það taki klukkustund að komast inn í bæinn og byrjað sé að reka fólk út kl. 2.
„Þannig að það er óskaplega lítill tími til að standa í björgunaraðgerðum. Við erum að pakka afurðum okkar og reyna að koma þeim á markað. Við gætum gert miklu meira ef við fengjum rýmri tíma og fengjum að taka fleira fólk með inn, þegar allt er í lagi,“ segir Gunnar Tómasson. » 6