Halldór Halldórsson
Halldór Halldórsson
… alltaf svo mikið í húfi með þessar eftirlitsstofnanir því þær hefðu framtíð fyrirtækjanna í höndum sér og það borgaði sig ekki að tjá sig of mikið.

Halldór Halldórsson

Alltof oft heyrist sú umræða að nóg sé til af peningum á Íslandi, það þurfi bara að ná í þá til fyrirtækjanna. Sumir hafa ekki þekkingu eða skilning til að skilja heildarsamhengið, sem er einfaldlega það að engir peningar verða til ef starfsskilyrði fyrirtækja eru ekki í lagi. Þar að auki er umræðan oftast út frá stærstu fyrirtækjum landsins þegar langflest eru lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki. Verst er þegar manni verður ljóst að í hópi þeirra sem hafa ekki þessa þekkingu eða skilning eru líka kjörnir þingmenn. Þótt vitræn umræða um þetta sé eitthvað að aukast þessa dagana á Alþingi þarf að gera miklu betur og taka raunverulega á þeim málum sem draga úr lífsgæðum á Íslandi. En heilbrigt rekstrarumhverfi er undirstaða lífsgæða.

Skattamálin og erlend fjárfesting

Greinarhöfundur flutti erindi á skattadegi Deloitte um daginn og fór yfir hvernig skattyfirvöld hafa miskunnarlaust endurákvarðað svo þunga skatta á okkar fyrirtæki að það er að sligast og hefur neyðst til að fara með það mál fyrir dómstóla með tilheyrandi kostnaði. Umræða hefur verið mikil um það hvernig skatturinn hefur breyst úr því að vera þjónustumiðuð stofnun sem tryggir að réttir skattar séu greiddir skv. lögum og reglum í eitthvert allt annað fyrirbæri sem vinnur gegn markmiðum um réttlátt skattkerfi og fyrirtækjaumhverfi. Skatturinn misbeitir valdi sínu og veldur hræðslu og óstöðugleika. Það er ljóst að þrátt fyrir að Ísland þurfi á erlendri fjárfestingu að halda þá fælir þessi nýja stefna skattsins fjárfesta frá landinu og þekkir undirritaður það vel frá því fyrirtæki sem hann stýrir. Þar hafa öll áform um nýjar fjárfestingar á Íslandi verið sett á bið og þeim jafnvel stýrt frekar til annarra landa.

Opinbert leyfis- og eftirlitskerfi

Af því að greinarhöfundur hefur tjáð sig opinskátt um málefni síns fyrirtækis hafa fjölmargir haft samband og sagt sögur af sinni reynslu gagnvart opinberu leyfis- og eftirlitskerfi. Þar undir eru stofnanir sem eiga skv. lögum að sinna leyfisveitingum. Yfirleitt eru þær miklu lengur að afgreiða leyfisveitingar en ætla mætti miðað við reglur. Stundum mælist það í mánuðum en alltof oft í árum. Þá er einnig mikið um óþarfa verkefni og tví- og jafnvel þrítekningu þar sem verkefni stofnana skarast.

Það er væntanlega ekki við starfsfólk þessara stofnana að sakast að öllu leyti en það er auðvitað mannlegt og þarf að sýna fram á mikilvægi starfa sinna þótt stundum mætti leggja þau niður. Starfsfólkið framfylgir hinum rituðu reglum en þær þarf að yfirfara sem og verklag miklu oftar og vera með lifandi samtal við atvinnulífið til að tryggja að úrelt og óþörf verkefni eftirlitsaðila dagi ekki uppi með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið sem er þá með of marga starfsmenn að fást við óþarfa. Svo þurfa fyrirtækin að leggja í kostnað við að bregðast við þessum sama óþarfa. Það er án efa hægt að fækka verkefnum um allt að fjórðung með því að taka á þessu. Það er upplifun undirritaðs og kemur skýrt fram í samtölum við aðra í atvinnulífinu. En það þarf að þora að tala um þetta og fylgja því eftir. Á framleiðsluþingi Samtaka iðnaðarins um daginn kom fram að það væri alltaf svo mikið í húfi með þessar eftirlitsstofnanir því þær hefðu framtíð fyrirtækjanna í höndum sér og það borgaði sig ekki að tjá sig of mikið. Sem þýðir að stofnanir hefna sín og misbeita þar með valdi sínu.

Höfundur er atvinnurekandi.

Höf.: Halldór Halldórsson