Jón Baldvin Sveinsson fæddist 12. febrúar 1945. Hann lést 29. júlí 2023.

Útför hans fór fram í kyrrþey.

Klukkur tímans tifa

telja ævistundir

ætíð lengi lifa

ljúfir vinafundir.

Drottinn veg þér vísi

vel þig ætíð geymi

ljósið bjart þér lýsi

leið í nýjum heimi.

(Hákon Aðalsteinsson)

Elsku Nonni.

Í tilefni þess að í dag hefðir þú orðið 79 ára og fórst afar snöggt í sumarlandið hripa ég þér örfáar línur.

Það var oft fjör í Vatnagarði og gott að alast upp á Eyrarbakkanum, þú varst kominn í Vatnagarð þegar ég man fyrst eftir mér en Matti seinna.

Það koma fyrst í hugann minningar af ykkur „bræðrum“ mínum að prakkarast, þar voruð þið dálítið samtaka. Þið að stríða Pella, þótt mamma reyndi ávallt að hafa hemil á og siða ykkur til. Var stundum sposk á svip og leit undan, því hún hafði líka pínu gaman af sumum góðlátlegum uppátækjum ykkar. Orðatiltæki sem mamma gjarnan notaði við þig var „Jónki bóndi í hjáleigunni og kaupakonan hans“.

Já það var engin lognmolla þar sem þið Matti voruð annars vegar, en alltaf góðir við okkur Gógó og gaman fyrir okkur að alast upp með ykkur og Bússý systur, þar sem sex eldri systkini okkar voru flogin úr hreiðrinu og búin að stofna sínar eigin fjölskyldur.

Hvað ég man vel þegar þú varðst pabbi! Okkur systrum fannst nú heldur betur spennandi að fá Halldór litla í heimsókn og mikið montnar að mega aka honum í vagninum.

Árin liðu og þú hittir svo Önnu þína, þið giftust og eignuðust fljótlega fyrstu tvö börnin ykkar. Þið áttuð sannarlega miklu barnaláni að fagna og því nóg að gera á Sundlaugarveginum. Í dag er hópurinn ykkar orðinn stór og myndarlegur sem horfir nú á eftir ykkur báðum foreldrum sínum með sex mánaða millibili, blessuð sé minning Önnu sem kom til þín í Sumarlandið 7. janúar sl.

Ég veit að mamma, pabbi, Edda og þeir sem á undan eru gengnir hafa tekið vel á móti ykkur og þið saman vakið yfir öllum barnahópnum ykkar.

Kveð þig kæri bróðir með þessum línum úr Hulduljóðum Jónasar:

Hægur er dúr á daggarnótt,

dreymi þig ljósið, sofðu rótt.

Þín systir,

Ingibjörg Ævarr.