Fjölskyldan Hrafnkell og Jóhanna með börnum sínum, frá vinstri: Alexander, Kristjana, Hrafnhildur, Dagbjört og Ríkharður.
Fjölskyldan Hrafnkell og Jóhanna með börnum sínum, frá vinstri: Alexander, Kristjana, Hrafnhildur, Dagbjört og Ríkharður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hrafnkell Alexandersson fæddist 12. febrúar 1934 á Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi, þriðji í röðinni af níu systkinum. Foreldrar Hrafnkels, Alexander Guðbjartsson og Kristjana Bjarnadóttir, byggðu nýbýlið Hvamm úr ættaróðalinu Hjarðarfelli

Hrafnkell Alexandersson fæddist 12. febrúar 1934 á Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi, þriðji í röðinni af níu systkinum. Foreldrar Hrafnkels, Alexander Guðbjartsson og Kristjana Bjarnadóttir, byggðu nýbýlið Hvamm úr ættaróðalinu Hjarðarfelli. Afi, amma og hluti stórfjölskyldunnar voru því aldrei langt undan fyrstu 10 æviárin, en þá keyptu foreldrar hans Stakkhamar í sömu sveit og fluttust þangað búferlum.

Skólaganga Hrafnkels fyrstu árin var í farskóla, þar sem meðal annarra bæja var kennt á Stakkhamri. Líf og fjör hefur þá verið á heimilinu, faðir hans sá um kennsluna en móðir hans um að fæða og hlúa að börnunum. „Eitt það dýrmætasta sem ég lærði í farskólanum var þegar frænka mín, Kristín Þórðardóttir frá Miðhrauni, kom í viku tíma að Stakkhamri og kenndi börnunum nótnalestur og þar með var opnuð leið að heimi tónlistarinnar sem ég hef æ síðan sótt til,“ segir Hrafnkell.

Þegar Hrafnkell var 15 ára kom föðurbróðir hans, Þorkell Guðbrandsson húsasmíðameistari, í heimsókn að Stakkhamri og bauð honum að koma í læri til sín. „Hugur minn stóð ekki til sveitastarfa og þótti mér þetta gullið tækifæri til þess að afla mér menntunar. Ég fór því með Þorkeli aftur að Hjarðarfelli, en þar var hann búsettur.“

Þorkell tók að sér verkefni víðs vegar um landið og fór Hrafnkell með honum í mörg þeirra. Til Reykjavíkur lá leiðin, þar sem Iðnskólinn beið. Hrafnkell tók fjóra bekki á tveimur árum, en það var ekki óalgengt á þessum tíma og sameinuðust nemendur oft um að kaupa sér aukatíma til þess að flýta fyrir sér. Hrafnkell hafði sterkt bakland, en hann fékk inni hjá móðursystkinum sínum meðan hann var við nám í Reykjavík. Fyrri veturinn bjó hann hjá Ívu Bjarnadóttur en seinni veturinn hjá Guðna Bjarnasyni. Sveinsprófi lauk hann síðan 1954. Meistaraprófi í húsasmíði lauk Hrafnkell árið 1958.

Fyrstu árin eftir nám vann Hrafnkell við húsasmíðar og bjó hann í Borgarnesi og Rifi á Snæfellsnesi. Í Stykkishólm flutti hann síðan 1962 og starfaði hjá Kaupfélagi Stykkishólms sem vörubílstjóri í nokkur ár en fór aftur í smíðavinnu allt til ársins 1979. Þá var komið að því að skipta um starfsvettvang og gerðist hann verslunarstjóri hjá húsgagnaverslun Jóns Loftssonar í Stykkishólmi. Eftir fjögur ár keypti Hrafnkell verslunina og rak hann hana undir nafninu Húsið í 10 ár allt þar til hann gerðist húsvörður við Sjúkrahús St. Franziskussystra. Árið 1996 stofnaði Hrafnkell vaktfyrirtækið Vökustaur og starfaði við það þar til hann fór á eftirlaun.

Ungur að árum fór Hrafnkell að leika sér við að spila á hljóðfæri. Orgel var til á heimilinu, gítar og harmonikka bættust síðan við. Hann stofnaði hljómsveitina Dalbræður með sveitungum sínum þar sem hann, Keli pop, spilaði á gítar og léku þeir fyrir dansi á Snæfellsnesi og upp í Borgarfjörð. „Harmonikkan hefur verið góður félagi gegnum tíðina og spila ég á hana enn þann dag í dag.“

Starfsorka Hrafnkels nýttist einnig til félagsmála, en þau hafa ætið verið stór hluti af lífi hans. Í mörg ár söng hann með kirkjukór Stykkishólmskirkju, var einn af stofnendum leikfélagsins Grímnis og var þar lengi vel virkur bæði á sviði og við stjórnunarstörf. Hrafnkell gekk í Lionsklúbb Stykkishólms haustið 1973 og var mjög virkur félagi í nærri fimmtíu ár. Hann var heiðraður sem Melvin Jones félagi í Lionshreyfingunni fyrir nokkrum árum. Árið 2010 veitti Stykkishólmsbær honum heiðursviðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag til menningar- og félagsmála í Stykkishólmi.

Fjölskylda

Eiginkona Hrafnkels er Jóhanna Jónasdóttir, f. 6.6. 1937, húsfreyja og fv. verslunar- og verkakona. Þau bjuggu lengst af að Höfðagötu 15 í Stykkishólmi í húsinu sem þau byggðu sér. Foreldrar Jóhönnu voru Jónas Pálsson frá Höskuldsey, f. 24.9. 1904, d. 13.9. 1988, sjómaður og vitavörður, og Dagbjört Hannesína Níelsdóttir frá Sellátri, f. 6.2. 1906, d. 14.5. 2002, húsfreyja og verkakona. Þau bjuggu framan af í Elliðaey á Breiðafirði og síðan á Staðarfelli í Stykkishólmi.

Börn Hrafnkels og Jóhönnu eru: 1) Ríkharður Hrafnkelsson, f. 30.4. 1957, býr í Stykkishólmi, kvæntur Karínu Hertu Hafsteinsdóttur. Dætur þeirra eru Margrét Hildur, f. 20.5. 1979 og Jóhanna María, f. 22.10. 1982. Barnabörnin eru 6; 2) Dagbjört Hrafnkelsdóttir, f. 7.7. 1958, býr í Stykkishólmi, gift Haraldi Thorlacius. Börn þeirra eru Jón Einar, f. 1974, Þórey, f. 1977, og Hrafnkell, f. 1982. Barnabörnin eru átta og eitt barnabarnabarn; 3) Kristjana Hrafnkelsdóttir, f. 20.10. 1960, býr í Reykjavík, gift Birni Indriðasyni. Dætur þeirra eru Jóhanna Eir, f. 1992, og Hafrún Birna, f. 2000. Eitt barnabarn; 4) Hrafnhildur Hrafnkelsdóttir, f. 24.9.1962, býr í Frankfurt, gift Robert Zijal. Sonur hennar er Arnór Óskarsson, f. 8.11. 1984; 5) Alexander Hrafnkelsson, f. 4. 4. 1966, býr í Kópavogi. Maki: Ólöf Guðmundsdóttir. Börn þeirra eru Lilja Ósk, f. 1991, og Auðunn Hrafn, f. 1996. Barnabörnin eru tvö; 6) stúlka Hrafnkelsdóttir, f. 25.4. 1968, d. 27.4. 1968.

Systkini Hrafnkels: Guðbjartur Alexandersson, f. 16.8. 1931, d. 18.7. 2021; Bjarni Alexandersson, f. 20.11. 1932. Guðrún Alexandersdóttir, f. 14.8. 1935; Auður Alexandersdóttir, f. 19.4. 1940; Þorbjörg Alexandersdóttir, f. 13.12. 1941; Magndís Alexandersdóttir, f. 24.3. 1945; Friðrik Alexandersson, f. 28.10. 1947, og Helga Alexandersdóttir, f. 3.7. 1952.

Foreldrar Hrafnkels voru hjónin Alexander Guðbjartsson, f. 5.3. 1906, d. 23.4. 1968, búfræðingur, bóndi, kennari og oddviti, og Kristjana Bjarnadóttir, f. 10.11. 1908, d. 25.11. 1982, húsfreyja og bóndakona. Þau bjuggu á Stakkhamri.