Átök Valsarinn Róbert Aron Hostert sækir að vörn Metaloplastika í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins á Hlíðarenda.
Átök Valsarinn Róbert Aron Hostert sækir að vörn Metaloplastika í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins á Hlíðarenda. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Valur er með eins marks forskot í einvíginu sínu gegn Metaloplastika Sabac frá Serbíu í 16-liða úrslitum Evrópubikars karla í handknattleik eftir nauman sigur í fyrri leik liðanna á Hlíðarenda í gær

Evrópubikarinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Valur er með eins marks forskot í einvíginu sínu gegn Metaloplastika Sabac frá Serbíu í 16-liða úrslitum Evrópubikars karla í handknattleik eftir nauman sigur í fyrri leik liðanna á Hlíðarenda í gær.

Leiknum lauk með 27:26-sigri Vals en Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur hjá Val með sex mörk, þar af tvö af vítalínunni.

Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en staðan var 4:4 eftir tíu mínútna leik. Metaloplastika náði tveggja marka forskoti eftir tuttugu mínútna leik, 7:5, og Serbarnir voru með yfirhöndina eftir þetta.

Brana Mirkovic kom svo Metaloplastika tveimur mörkum yfir á nýjan leik, 11:9, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en Robert Aron Hostert minnkaði muninn í eitt mark í næstu sókn.

Björgvin Páll Gústavsson varði svo vítakast þegar tæp mínúta var til leiksloka í stöðunni 11:10, Metaloplastika í vil, og Allan Norðberg jafnaði metin fyrir Valsmenn með lokaskoti fyrri hálfleiks og staðan því jöfn í hálfleik, 11:11.

Valsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og Úlfar Páll Monsi Þórðarson kom þeim tveimur mörkum yfir í fyrsta sinn í leiknum eftir þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Valsmenn voru með yfirhöndina í leiknum í síðari hálfleik og Benedikt Gunnar Óskarsson kom þeim þremur mörkum yfir, 17:14, eftir tíu mínútna leik.

Metaloplastika skoruðu næstu fjögur mörk leiksins og komast aftur yfir, 18:17, þegar tæplega tíu mínútur voru til leiksloka. Valsmönnum tókst að snúa leiknum aftur sér í vil og Benedikt Gunnar kom þeim þremur mörkum yfir á nýjan leik, 25:22, með marki úr vítakasti þegar fimm mínútur voru til leiksloka.

Metaloplastika skoraði hins vegar fjögur mörk á síðustu mínútum leiksins, gegn tveimur mörkum Vals, og Valsmenn fögnuðu naumum sigri í leikslok.

Björgvin Páll Gústavsson átti frábæran leik í marki Valsmanna og varði 17 skot, þar af þrjú vítaköst. Þá skoruðu þeir Magnús Óli Magnússon og Róbert Aron Hostert fjögur mörk hvor fyrir Valsmenn. Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði þrjú mörk. Alexander Petersson, Björgvin Páll, Tjörvi Týr Gíslason og Allan Norðber tvö mörk hver og þeir Ísak Gústafsson og Andri Finnsson eitt mark hvor.

Síðari leikur liðanna fer fram í Sabac í Serbíu, laugardaginn 17. febrúar, og dugar Valsmönnum jafntefli til þess að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum keppninnar. Valsmenn mega einnig tapa með einu marki, svo framarlega sem Metaloplastika skorar ekki 28 mörk eða meira.

Höf.: Bjarni Helgason