Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Áhorf á klám er á undanhaldi og meirihluta barna líður vel í skólanum. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Rannsókn og greining gerði síðasta haust meðal nemenda í efri bekkjum grunnskóla Reykjavíkur. Stærstur hluti barna í 8. til 10. bekk í Reykjavík reykir ekki né neytir maríjúana eða hefur orðið ölvaður síðasta mánuðinn, samkvæmt þessari könnun.
Varnir að bresta
Þrátt fyrir að margt jákvætt komi fram segir í frétt frá menntasviði Reykjavíkur að ástæða sé til að hafa áhyggjur af hópnum sem ekki svarar könnuninni. Mögulega séu í þeim hópi þau börn sem sýni helst áhættuhegðun. Sitthvað bendi til að vissar varnir séu að bresta. Færri börn nú en árið 2020 svari því til m.a. að foreldrar þeirra séu mjög eða algjörlega mótfallin því að þau myndu neyta áfengis.
Atriði sem vert er að hafa áhyggjur af, skv. niðurstöðum könnunarinnar, víkja að skjátíma, nætursvefni, samfélagsmiðlum, koffíndrykkjum og nikótínneyslu. Þetta er sagt sýna þörf á vinnu með foreldrum til að styrkja börn sín gegn markaðsöflunum til að draga úr neyslu orkudrykkja og nikótíns. Þarna er raunar bent á ákveðinn vítahring; börn sem segjast drekka orkudrykki daglega og eru mikið á samfélagsmiðlum eru líklegri til að sofa minna. Mikill meirihluti unglinga í Reykjavík segir í könnuninni gott félagslíf í nærumhverfi sínu, þar sem meira en helmingur segist vilja búa í framtíðinni.
Mörg í íþróttum og tónlist
Úr hópi barna í 5.-7. bekk kemur fram að 2/3 þeirra eiga marga vini í skólanum og jafn stór hópur segist oft eða stundum fá hrós frá kennaranum. Tæpur fjórðungur segir námið oft eða alltaf vera skemmtilegt. Börn í þessum sama aldurshópi, það er 10-12 ára, eru líka mikið á samfélagsmiðlum og um fimmtungur þeirra meira en þrjár klukkustundir á dag. Þá ver um fjórðungur barna í þessum hópi meira en þremur klukkustundum daglega í tölvuleikjaspil. Og svo nokkuð sem kannski skiptir mestu, 95% segjast eiga auðvelt með að fá hlýju og umhyggju frá foreldrum sínum og 98% líður oftast vel heima hjá sér. Þá æfir meira en helmingur íþróttir og um 30% eru í tónlistarnámi.
Stolt af staðreynd
„Við erum ákaflega stolt af þeirri staðreynd að flestum börnum og unglingum líður almennt vel í skólastarfi Reykjavíkurborgar,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður menntaráðs Reykjavíkur. „Forvarnastarf gagnvart þeim þáttum sem við vitum að hafa áhrif á líðan, eins og nægur svefn, góð næring, félagsleg samskipti og tengsl við vini og fjölskyldu, hefur verið að skila árangri. Líðan á heimilum hefur mest að segja um líðan barna og 98% þeirra segjast líða oftast vel heima hjá sér og 95% upplifa hlýju og umhyggju frá foreldrum sínum. Við vitum öll að það sem skiptir mestu máli til að við getum komist til manna og orðið góðir þjóðfélagsþegnar er að eiga umhyggjusama foreldra.“
Árelía Eydís segir svo að síðustu um fyrirliggjandi niðurstöður um líðan nemenda:
„Hvað skólann varðar erum við ákaflega stolt af minnkandi áhorfi á klám, en Vika sex hefur lyft grettistaki í kynheilbrigði, sem er ein af grunnstoðum heilbrigðis almennt. Börnin og unglingarnir eru almennt séð í heilbrigðu umhverfi en auðvitað þurfum við og tökum ábyrgð á þeim sem lenda utangátta í skólanum til að koma í veg fyrir að þau lendi utangátta í lífinu.“