Kári Freyr Kristinsson
karifreyr@mbl.is
„Það er mikil óvissa og við tökum bara einn dag í einu,“ segir Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar ehf., spurður hvernig framhaldið verði hjá fyrirtækinu vegna heitavatnsleysis á Suðurnesjum.
Fyrirtækið er staðsett í Reykjanesbæ og greindi frá því í síðustu viku að það hefði virkjað neyðaráætlun vegna heitavatnsleysisins, en fyrirtækið þjónustar meðal annars mötuneyti í skólum á höfuðborgarsvæðinu. „Við í miðlæga eldhúsinu erum ágætlega sett með rafmagnshitun á því sem þarf og erum að finna aðstöðu á höfuðborgarsvæðinu fyrir uppvask,“ segir Jón. Í miðlæga eldhúsinu er maturinn undirbúinn og svo er hann eldaður í skólunum sjálfum.
Aðspurður segir Jón síðasta föstudag hafa gengið vel gagnvart viðskiptavinum. Fyrirtækið var búið að gefa út að mexíkósk súpa yrði á boðstólum á föstudag, sem stóðst. „Það var samt ýmislegt sem við þurftum að breyta í framleiðsluferlinu.“
Spurður hvernig vikan blasi við þeim endurtekur Jón að þau taki einn dag í einu. „Við getum afgreitt mat á morgun þar sem hægt er að elda í skólanum, síðan alls staðar á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðstaðan er í lagi erum við búin að leysa málin út vikuna.“ Spurður hvort ástandið sé merki um breytta tíma svarar Jón því neitandi. „Ég held að þetta sé bara einstakt. Svo bara tekur maður því sem höndum ber.“
Þrátt fyrir allt hafi fyrirtækinu tekist að standast kröfur heilbrigðiseftirlitsins.