Markaskorarar Rasmus Höjlund og Scott McTominay skoruðu mörk United í gærdag en þeir fagna hér sigurmarki þess síðarnefnda gegn Aston Villa.
Markaskorarar Rasmus Höjlund og Scott McTominay skoruðu mörk United í gærdag en þeir fagna hér sigurmarki þess síðarnefnda gegn Aston Villa. — AFP/Paul Ellis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Scott McTominay reyndist hetja Manchester United þegar liðið heimsótti Aston Villa í 24. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Villa Park í Birmingham í gær. Leiknum lauk með naumum sigri United, 2:1, en McTominay skoraði sigurmark leiksins á 86

England

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Scott McTominay reyndist hetja Manchester United þegar liðið heimsótti Aston Villa í 24. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Villa Park í Birmingham í gær.

Leiknum lauk með naumum sigri United, 2:1, en McTominay skoraði sigurmark leiksins á 86. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður á 73. mínútu.

Áður hafði Rasmus Höjlund komið United yfir á 17. mínútu en Douglas Luiz jafnaði metin fyrir Aston Villa á 67. mínútu.

Þetta var þriðji sigurinn í röð hjá United í deildinni og hefur Höjlund nú skorað í fimm deildarleikjum í röð. Með sigrinum minnkaði United muninn á Aston Villa í einungis 5 stig, en liðin eru í fimmta og sjötta sæti deildarinnar.

Þá skoraði Bukayo Saka tvívegis fyrir Arsenal þegar liðið heimsótti West Ham á Ólympíuleikvanginn í Lundúnum.

Leiknum lauk með stórsigri Arsenal, 6:0, en Arsenal leiddi með fjórum mörkum gegn engu í hálfleik með mörkum frá þeim William Saliba, Saka, Gabriel og Leandro Trossard. Saka skoraði fimmta markið á 63. mínútu áður en Declan Rice bætti við sjötta markinu tveimur mínútum síðar og þar við sat.

Sigur Arsenal var lífsnauðsynlegur til þess að halda í við Liverpool og Manchester City á toppi deildarinnar og þá batnaði markatala liðsins mikið við sigurinn, en liðið er nú með 31 mark í plús, eins og Manchester City.

Liverpool með forskot

Á laugardaginn hafði Liverpool betur gegn nýliðum Burnley á Anfield í Liverpool en leiknum lauk með 3:1-sigri Liverpool.

Diogo Jota kom Liverpool yfir á 31. mínútu en Dara O‘Shea jafnaði metin fyrir Burnley undir lok fyrri hálfleiks.

Þeir Luis Díaz og Darwin Núnez skoruðu svo sitt markið hvor í síðari hálfleik og tryggðu Liverpool dýrmætan sigur. Liðið er með tveggja stiga forskot á toppi deildarinnar á bæði Manchester City og Arsenal en City á leik til góða á bæði lið.

Erling Haaland var svo í aðalhlutverki hjá Englandsmeisturum Manchester City þegar liðið hafði betur gegn Everton á heimavelli.

Leiknum lauk með sigri City, 2:0, en Haaland skoraði mörk City á 71. mínútu og svo 85. mínútu.

Þetta voru fyrstu mörk Haalands í deildinni síðan 25. nóvember, en hann lék ekkert með liðinu frá miðjum desember fram í miðjan janúar vegna meiðsla.

Pascal Gros kom Brighton yfir á 17. mínútu með marki úr vítaspyrnu en Pape Matar Sarr jafnaði metin fyrir Tottenham með marki á 61. mínútu.

Það var svo Brennan Johnson sem skoraði sigurmark leiksins og tryggði Tottenham sigur, 2:1, þegar sex mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma síðari hálfleiks.

Tottenham er með 47 stig í fjórða sætinu, fimm stigum minna en Arsenal og Manchester City, og sjö stigum minna en topplið Liverpool.

Höf.: Bjarni Helgason