Stubb „Þetta er mesti heiður lífs míns,“ sagði Stubb við úrslitin.
Stubb „Þetta er mesti heiður lífs míns,“ sagði Stubb við úrslitin. — AFP/Emmi Korhonen
Alexander Stubb, fyrrverandi forsætisráðherra Íhaldsflokksins, var kosinn forseti Finnlands í gær. Ljóst var eftir að nærri öll atkvæði voru talin í gær að Stubb hefði unnið. Nálægt 4,3 milljónir kjósenda kusu á milli Stubb og Pekka Haavisto og…

Alexander Stubb, fyrrverandi forsætisráðherra Íhaldsflokksins, var kosinn forseti Finnlands í gær. Ljóst var eftir að nærri öll atkvæði voru talin í gær að Stubb hefði unnið. Nálægt 4,3 milljónir kjósenda kusu á milli Stubb og Pekka Haavisto og þegar 98 prósent atkvæða höfðu verið talin var Stubb með 51,7% atkvæða og úrslitin ljós.

Pekka Haavisto, keppinautur Stubb, óskaði honum til hamingju með sigurinn í gær. „Þetta er mesti heiður lífs míns,“ sagði Stubb þegar úrslitin voru ljós.

Áskorun fram undan

Það er þó ekki einföld staða sem bíður nýs forseta í Finnlandi, þrátt fyrir að ekki fylgi jafn mikil völd embættinu og forsætisráðherraembættinu.

Forsetinn markar utanríkisstefnu landsins með ríkisstjórninni og er þar að auki yfirmaður hers Finnlands.

Þá er nágranninn í austri ekki sá þægilegasti; samskipti milli Rússa og Finna versnuðu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu 2022, en ríkin deila 1.340 kílómetra landamærum.

Finnar ákváðu að láta af hlutleysi gegn stórveldum og ganga í Atlantshafsbandalagið í apríl 2023 og hótuðu Rússar strax mótvægisaðgerðum við þá ákvörðun.

Þessi breytta pólitíska staða Finnlands í alþjóðasamfélaginu mun að stórum hluta vera verkefni nýs forseta Finnlands að mati Theodoru Helimaki, doktors í stjórnmálafræðum við Helsinki-háskóla, en hún tjáði sig um málið við AFP-fréttastofuna. Hún sagði að líklega hefði pólitísk afstaða kjósenda helst ráðið valinu, því í stærstu málum hefði lítið borið á milli Stubb og Haavisto, þ.m.t. í viðhorfi til Rússlands.