Guðrún (Rúna) Valgeirsdóttir fæddist 25. júní 1946. Hún lést 24. janúar 2024. Útför Rúnu var 5. febrúar 2024.
Elsku yndislega Rúna frænka mín.
Mikið sakna ég þín. Þegar ég heyrði að þú værir farin trúði ég því ekki. Mér fannst svo erfitt að ímynda mér lífið án þín og var líklegast alltaf að vona að þú yrðir eilíf. En þannig er lífsins gangur víst ekki og ég er viss um að þú ert komin á yndislegan stað þar sem þér líður vel með öllum okkar ástkæru sem hafa kvatt þessa jarðvist.
Elsku frænka, þú varst svo góð í gegn, falleg að innan sem utan. Þér fannst svo gaman að vera til og varst svo dugleg að njóta lífsins. Þrátt fyrir mikil og erfið veikindi síðustu árin varstu samt svo jákvæð og lífsglöð.
Ég á svo margar fallegar minningar um þig og alltaf er Ásgeir „pabbi“ stór hluti af þeim. Minningar um notalegar heimsóknir í Fjarðarselið þar sem besta tekexið með smjöri og osti var í boði, Skorradalinn, ferðalög þar sem okkur systrum þótti toppurinn á tilverunni að fá far í Brúnku, húsbílnum ykkar. Ég óskaði þess stundum að mamma og pabbi smituðust af sumarbústaða- og húsbílabakteríunni og gengu jafnvel í Húsbílaklúbbinn en því miður varð raunin ekki sú. Þrátt fyrir það vorum við dugleg að ferðast með ykkur og staðir eins og Þórsmörk og Þýskaland koma upp í hugann. Göngutúrarnir með Gogga, Söru Klöru og Lilju Rós. Ég man svo vel eftir því hve hændir hundarnir okkar voru að ykkur Ásgeiri, enda ekki skrýtið, hundar eru einstakir mannþekkjarar.
Það var svo notalegt að spjalla við þig og þú hafðir einlægan áhuga á öllu sem ég hafði að segja. Ég vildi óska að ég hefði heimsótt þig oftar undanfarin ár en við Rán mín vorum svo heppnar að kíkja til ykkar Ásgeirs í Rjúpnasalina þegar hún var nokkurra mánaða og varð heimsóknin mun lengri en planað var. Það var bara svo gaman að spjalla við ykkur um allt milli himins og jarðar og smjatta á vöfflum sem Ásgeir bakaði fyrir okkur. Rán leið svo vel með ykkur og það endaði á því að hún tók lúrinn sinn í rúminu ykkar því við hreinlega tímdum ekki að fara heim! Ætlunin var að heimsækja ykkur aftur sem fyrst en tíminn líður allt of hratt.
Við systur vorum alltaf á leiðinni til þín. Við Sóley og Rán létum loks verða af því núna í janúar en Berglind komst því miður ekki með og þótti það ákaflega leitt, en hún hafði nælt sér í flensu. Þú varst svo ánægð að sjá okkur og spennt að heyra fréttir af öllum börnum okkar systra og vildir ólm skoða myndir af þeim. Við spjölluðum um heima og geima og Sóley smellti dýrmætri mynd af okkur Rán með þér. Ég hlakka til að heimsækja þig sem fyrst aftur. Svo bárust fréttirnar. Mikið er ég þakklát að hafa fengið tækifæri til að spjalla við þig, knúsa og kyssa.
Elsku Rúna frænka. Þakklæti er mér efst í huga fyrir allar stundirnar okkar saman. Minning þín mun lifa með okkur öllum og það verður svo gott að faðma þig aftur og kyssa þegar minn tími kemur.
Mínar innilegustu samúðarkveðjur til elsku Ásgeirs, barnanna ykkar, tengdabarna, barnabarna og barnabarnabarns.
Ég elska þig.
Meira á https://mbl.is/andlat
Þín
Auður Sif.