Ferðamenn og fjölmiðlar um sund
Sundlaugamenningin á Íslandi reynist nýliðum gjarnan framandi. Þeir furða sig á tilburðum nakinna sundgesta sem sápa sig hlið við hlið, áður en þeir smeygja sér í sundfötin og vaða út í frost og snjó til að dýfa sér í heitt vatnið. Almenningslaugar og baðlón hafa verið áberandi í markaðsefni ferðaþjónustunnar síðustu ár, þar sem erlendir gestir eru kynntir fyrir undrum heita vatnsins á eldfjallaeyjunni og áhrifum þess á daglegt líf íbúanna, sem kristallast í sundlaugunum. Það er enda eitthvað sérstakt við það hvernig kalt loftið og heitt vatnið blandast saman við þessar aðstæður og skapa nokkurs konar griðastað, sama hvort farið er í fyrsta skipti eða það eittþúsundeitthundraðogfyrsta.
Áhugi erlendra fjölmiðla á náttúrulaugum, sundlaugum og laugamenningunni almennt hefur aukist mikið á undanförnum árum samhliða stóraukinni ferðamennsku. Ferðamenn hafa jafnframt á eigin vegum deilt reynslu sinni af laugunum á samfélagsmiðlum og ferðabloggsíðum í máli og myndum. Umræðan snýr þá t.d. að því hvernig eigi að bera sig að í íslenskum búningsklefa eða hvaða baðstaðir séu mest spennandi. Erlendir blaðamenn hafa gert grein fyrir einkennum sundlaugamenningarinnar og velt því upp hvort heitt vatnið í laugunum í köldu lofti og óblíðu veðri í bland við félagsskapinn sé lykillinn að hamingjunni á þessari norðlægu eyju.220 Að þeirri niðurstöðu komst til að mynda rithöfundurinn og blaðamaðurinn Dan Kois í New York Times Magazine árið 2016 í einhverri bestu grein sem skrifuð hefur verið um íslenska sundið:
„Því fleiri almenningslaugar sem ég heimsótti, því sannfærðari varð ég um að þessi ánægja sem er svo augljós hjá Íslendingum tengist upplifun þeirra af því að sleppa úr hrömmum frostloftsins um leið og þeir láta sig síga ofan í heitt vatn með samborgurum sínum. Laugarnar eru meira en bara fábrotin fjárfesting sveitarfélaga, meira en bara borgaraleg hlunnindi sem fengust vegna eldfjallavirkni Íslands. Þær virðast í raun vera lykillinn að íslenskri vellíðan.“
Þegar sundlaugum á Íslandi var lokað í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins í mars árið 2020 varð lokun þessara vinsælu samkomustaða á Íslandi að umfjöllunarefni erlendra miðla víða um heim. Þar voru áhrif sundlaugalokunar á daglegt líf Íslendinga rædd og í fyrirsögnum voru Íslendingar sagðir óhuggandi án lauganna. Rætt var við nokkra fastagesti lauganna sem sögðust sakna hvað sárast bæði félagsskaparins við aðra sundgesti og hreyfingarinnar í vatninu. BBC fjallaði í kjölfarið um sundið sem „íslenskan vellíðunarhelgisið“ og lýsti eftirvæntingunni þegar laugarnar voru opnaðar eftir langt hlé sem vitnisburði um þær tilfinningar sem heimsókn í laugina vekur hjá þorra þjóðarinnar.
Á ferðasíðunni Tripadvisor má finna álit ferðamanna á mörgum sundlaugum á Íslandi og þegar á heildina er litið virðist upplifun gesta af almenningslaugunum vera jákvæð. Á síðunni gefst fólki kostur á að skiptast á ráðum eða áliti á hinum og þessum stöðum sem það hefur heimsótt víðs vegar um heiminn. Þar nefna mörg að afdráttarlaus nekt í klefunum sé óþægileg og benda öðrum ferðamönnum á að vera viðbúnir því að sápuþvottur án sundfata sé skylda í laugunum, sem framfylgt sé af ströngum baðvörðum. Fólk nefnir einnig að í laugunum sé viðmót heimamanna til ferðafólks yfirleitt gott eða vinalegt og þeir séu bæði opnir fyrir samræðum og gefi góð ráð fyrir frekari ferðalög. Flest kunna að meta hversdagslegt yfirbragð sundlauganna og innsýn í mannlífið þó að sumum finnist þær skorta ævintýraljóma baðlónanna. Þrátt fyrir að nektin í klefunum sé víða nefnd og talin óþægileg, skynja gestir að hún er eðlilegur hluti af ferlinu. Heita vatnið, útilaugarnar og veðrið virðist vera það sem helst einkennir sundlaugamenningu á Íslandi í augum gesta og mótar upplifun erlendra ferðamanna af henni.
„Starfsfólkið var mjög vinalegt og ferlið í gegnum búningsklefana gekk vel fyrir sig (það er nóg af skiltum). Þú verður að fara nakin í sturtu áður en þú ferð í laugina sem er í góðu lagi því enginn horfir á aðra, en verandi Breti var mér brugðið við allt nakta fólkið sem var í sturtunum og á ferli um klefann! Ekki hætta við út af því, það er bara hluti af reynslunni.“
Gestur í Laugardalslaug 2015
„Ég var í sjokki þegar ég gekk inn með 6 ára barnið mitt og allir voru naktir. Ég myndi ráðleggja fjölskyldum að undirbúa þau stuttu. Upphaflega planið okkar var að fara eingöngu í Bláa lónið, en á síðustu stundu kom ég Don og dóttur okkar á óvart með því að fara með þau í almenningslaug. Maðurinn minn var miður sín eftir þessa upplifun úr sturtunum … lol … það var svolítið fyndið að sjá honum þröngvað svona út úr þægindarammanum.“
Gestur í Laugardalslaug 2014
„Kúl ekta íslensk reynsla. Við fórum í þessa sundlaug eftir að heimamaður mælti með henni. Það var mjög kúl reynsla … það var mjög kalt úti þannig að heitu pottarnir (af ólíkum hitastigum), gufan og sánan voru frábær. ... Börn eru velkomin … en varið ykkur ef þið eruð ekki vön þessari sundmenningu: það eru kvenna- og karlaklefar þar sem þið verðið að fara í sturtu nakin með öllum hinum áður en farið er út í laugina. Það er einn einkaklefi. Heimamenn eru mjög mikið fyrir þessa sundmenningu í almenningslaugunum … þetta er eins og allsherjar „happy hour“.“
Gestur í Sundhöll Reykjavíkur 2018