Jón Karl Karlsson fæddist á Mýri í Bárðardal 11. maí 1937 og ólst þar upp. Hann lést á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki 1. febrúar 2024.
Foreldrar hans voru Karl Jónsson, bóndi á Mýri og verkamaður, og Björg Haraldsdóttir, húsfreyja og verkakona. Systur Jóns eru Sigríður f. 1933, d. 2022, Hildur Svava, f. 1942, og Aðalbjörg, f. 1943.
Eiginkona Jóns var Hólmfríður Friðriksdóttir, f. 3. júlí 1937, d. 2. febrúar 2013. Þau eignuðust þrjú börn; Brynhildi Björgu, f. 1959, maki Sigmundur Ámundason. Þau eiga þrjá syni, sjö barnabörn og eitt barnabarnabarn. Friðrik, f. 1960, maki Inga Dagný Eydal. Þau eiga þrjú börn og sjö barnabörn. Karl, f. 1969, maki Guðný Jóhannesdóttir. Þau eiga fimm börn og þrjú barnabörn.
Jón lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum 1956. Hann var verkamaður hjá Mjólkursamlagi Skagfirðinga 1958-68, fulltrúi Verðlagsstofnunar á Norðurlandi vestra 1968-73, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs stéttarfélaga í Skagafirði 1970-92 og umboðsmaður Brunabótafélags Íslands á Sauðárkróki 1974-88.
Jón sat í stjórn Verkamannafélagsins Fram (síðar Aldan stéttarfélag) frá 1966 og var formaður þess 1967-2004, formaður Alþýðusambands Norðurlands 1973-75, sat í sambandsstjórn ASÍ frá 1968 sem varamaður og síðan sem aðalmaður frá 1972 og í áratugi. Jón var fulltrúi á öllum þingum ASÍ frá 1968 og þingforseti 1984-2000, sat í framkvæmdastjórn VMSÍ 1981-97, var varaformaður þess frá 1991 og fulltrúi VMSÍ á aðalfundum Nordisk fabriksarb. federation frá 1982 og í ýmsum öðrum norrænum nefndum til 1997.
Jón var bæjarfulltrúi á Sauðárkróki 1974-82, forseti bæjarstjórnar 1974-78 og formaður bæjarráðs 1980-82. Hann sat í stjórn Fjórðungssambands Norðlendinga 1976-82, í stjórn Verkamannabústaða á Sauðárkróki og formaður húsnæðisnefndar. Einnig starfaði hann ötullega í Alþýðuflokknum á landsvísu, ekta krati af gamla skólanum.
Jón starfaði í Lionsklúbbi Sauðárkróks frá 1967, var formaður hans 1973-74 og 1999-2000, var umdæmisstjóri B-umdæmis Lions-hreyfingarinnar á Íslandi 1984-85, fjölumdæmisstjóri hreyfingarinnar á Íslandi 1985-86. Hann var formaður sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju 1987-93. Jón skrifaði margar greinar í blöð og tímarit um stjórnmál og verkalýðsmál. Hann var kjörinn Melvin Jones-félagi Lions-hreyfingarinnar 1988 og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2011 fyrir störf að verkalýðsmálum og réttindabaráttu.
Útför Jóns fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 12. febrúar 2024, kl. 14. Athöfninni verður streymt á FB-síðu Sauðárkrókskirkju. Slóð á streymið: https://mbl.is/go/zedah
Minningargrein á
https://mbl.is/andlát
Elsku pabbi sofnaði inn í sumarlandið 1. febrúar sl. eftir erfið veikindi síðustu mánaða. Hann var kominn í tímabundna dvöl á Dvalarheimilinu á Sauðárkróki og kannski táknrænt að þar átti hann sína síðustu stund. Kannski líka táknrænt að daginn eftir að hann dó voru 11 ár síðan elsku mamma dó einmitt á þessum sama stað þar sem hún var búin að berjast fyrir sínu lífi í tíu ár.
Sauðárkrókur var staðurinn þeirra og þar ólumst við systkinin upp. Síðan fórum við út um víðan völl eins og gengur og eftir að mamma dó flutti pabbi til Akureyrar.
Þar átti hann góða daga lengst af en dró sig samt í hlé frá ansi mörgu. Þar varð sjónvarpið hans besti vinur. Hann var mikill tónlistarunnandi og gat löngum stundum horft og hlustað á falleg tónlistaratriði. En hæst stóðu samt allar íþróttirnar, bæði frjálsar en þó sérstaklega allar boltaíþróttir. Hann var einlægur stuðningsmaður Tindastóls í körfunni og fylgdist þar með öllu, nánast fram á síðasta dag. En allra mest horfði hann á enska boltann. Þar þekkti hann alla og var með allt á hreinu um alla. Hann var einlægur Arsenal-maður og missti ekki úr leik. Ég sagði oft guði sé lof og dýrð fyrir Arsenal, svo mikill var áhuginn og ástríðan.
Það hallaði frekar hratt undan fæti hjá honum og síðustu mánuðir voru honum mjög erfiðir. Þeir voru líka erfiðir okkur systkinum því þá byrjaði baráttan við kerfið. Og þvílíkt að standa í því, það var ömurleg reynsla. Ég gæti skrifað svo margt um það. En að geta ekki búið okkar elsta fólki betri aðstæður er ótrúlega aumt. Að geta ekki búið þeim þannig aðstæður að allir njóti, bæði fjölskylda og viðkomandi sjálfur.
Síðustu mánuði stóðum við þétt saman systkinin og veitti ekki af. En allan tímann alveg frá því hann flutti til Akureyrar stóð Kalli bróðir fremstur. Skipulagður og ráðagóður. Ég er svo þakklát fyrir það búandi í burtu. Í öllu þessu átti pabbi líka sérstakt og þakklátt samband við Skírni son Kalla sem hjálpaði honum með svo margt.
En nú er komið að leiðarlokum og ég ætla að sjá þau fyrir mér, mömmu og pabba, saman.
Við Simmi, sem oft var kallaður uppáhaldstengdasonurinn þótt hann hafi verið sá eini, hugsum með þakklæti til þeirra beggja fyrir öll árin okkar og strákanna okkar saman.
Þín dóttir,
Björg.
Þann 1. febrúar síðastliðinn kvaddi afi minn eða afi Jón þessa jarðvist eftir mikil veikindi. Við ritun þessarar minningargreinar rifjast upp ansi margar minningar um það sem við gerðum saman frá því ég var smástrákur og nánast fram á síðasta dag. Ég fór mjög fljótt að fylgja honum á alls kyns fundi sem fram fóru hjá verkalýðshreyfingunni, alveg sama hvort fundirnir fóru fram á Króknum eða í Reykjavík. Var ég svo einstaklega heppinn að ná að kynnast gömlu hetjunum úr íslenskri verkalýðsbaráttu eins og t.d. Guðmundi Jaka og Þóri Daníelssyni framkvæmdastjóra Verkamannasambandsins og gerðist ég svo frægur að fá minn fyrsta skammt af íslensku neftóbaki 12 ára gamall hjá Gvendi jaka og þótti það ekkert tiltökumál.
Afi hætti í verkalýðsbaráttunni árið 2004 eftir tæplega 40 ára starf á þeim vettvangi til að sinna ömmu Lillu í alvarlegum veikindum og þá kom aðeins meiri tími til að sinna áhugamálum eins og enska boltanum og gengi Arsenal og íslenska körfuboltanum þar sem var vel fylgst með gengi Tindastóls og er ég afskaplega glaður og ánægður að afi náði að verða vitni að því þegar Stólarnir lyftu loksins Íslandsmeistarabikarnum síðastliðið vor eftir rúmlega 30 ára þrautagöngu. Ég og afi höfðum það fyrir reglu að hringjast alltaf á á leikdögum í körfuboltanum og heyrðum hvor í öðrum mjög reglulega til að fara yfir stöðuna og þess háttar. En því miður fækkaði símtölunum í kringum áramótin síðustu vegna veikinda hans.
Afi fylgdist vel með hvernig barnabörnunum gekk á íþróttasviðinu og þau amma náðu t.d. að verða vitni að því þegar við í 10. flokki Tindastóls urðum Íslandsmeistarar árið 1993 og var mjög gaman að sjá hversu stolt þau voru af þessum árangri. Berglind konan mín og afi náðu mjög vel saman og hann tók henni nánast eins og hún væri eitt af barnabörnunum hans og það var táknrænt að við skyldum ákveða að gifta okkur í sumarbústaðarferð á Illugastöðum með ömmu og afa sumarið 2002 þannig að hægt var að tilkynna þeim þetta fyrst áður en fréttirnar myndu berast. Þótt ég byggi á Suðurnesjunum og afi á Króknum og seinna Akureyri þá var atvinna mín þess eðlis að ég fór oft með sement á Krókinn eða til Akureyrar og þá gat ég oft gist hjá afa og eru það mér mjög dýrmætar stundir að hafa náð að hitta hann reglulega þótt langt væri á milli okkar.
Síðastliðið tæpt ár fór heilsu afa að hraka frekar hratt og fékk hann loks hvíldina sem hann var farinn að þrá svo mikið. Eftir standa góðar minningar um góðan afa sem vildi barnabörnum, barnabarnabörnum og barnabarnabarnabarni vel en fyrst og fremst hörkuduglegan mann sem sinnti starfi, félagsmálum og pólitík eins vel og hann gat.
Takk fyrir allt afi minn og við biðjum að heilsa ömmu Lillu.
Jón Brynjar Sigmundsson og Berglind Karlsdóttir.
Það fyrsta sem kom upp í hugann þegar Kalli minn færði mér fréttina af andláti föður síns var að þá væru þau bæði fallin frá heiðurshjónin á Hólavegi 31. Það eru ákveðin tímamót.
Um heimilið á Hólavegi 31 á Sauðárkróki hverfðist býsna margt í æsku okkar vinanna. Það má í raun segja að það hafi verið okkar annað heimili. Jón og Lilla leyfðu okkur nánast óheftan aðgang að heimilinu eða að minnsta kosti þoldu okkur þann aðgang. Þau hjónin ferðuðust mikið á tímabili og það hentaði okkur unglingspiltunum mjög vel. Og jafnvel þó að þau væru heima vorum við ávallt velkomnir. Jón átti það jafnvel til að sitja með okkur í „upphitun“ fyrir ball og þegar við fórum var erfitt að sjá hver var „heitastur“ fyrir skemmtuninni fram undan.
Jón var áberandi áhrifamaður í samfélaginu á Króknum. Við bárum virðingu fyrir því. Hann kom þó ávallt fram við mann eins og jafningja og fullorðna manneskju. Lét mann finna til ábyrgðar gagnvart sjálfum sér og ákvörðunum sem maður var að velta fyrir sér. Ég veit ekki hvernig þeim föður mínum heitnum datt í hug að samþykkja víxla fyrir hljóðfærakaupum okkar strákanna en það gerði hann nú samt – og þurfti ekkert að sjá eftir því jafnvel þótt víxlarnir færu á eitthvert flakk og lentu á endanum inni í Hafskipsmálinu svokallaða.
Ég man Jón sem glaðan mann og skemmtilegan; alltaf þegar ég hitti hann í seinni tíð var hann kátur og hress; spurði frétta af fjölskyldu og börnum og fylgdist með í gegn um samfélagsmiðla.
Ég kveð heiðursmanninn Jón Karlsson með hlýju og virðingu og votta Björgu, Friðriki og Kalla og fjölskyldum þeirra og afkomendum mína dýpstu samúð. Megi góður Guð blessa minningu Jóns Karlssonar.
Árni Þór.