Sigríður María fæddist á heimili foreldra sinna, Sæbóli á Seyðisfirði, 21. júlí 1935. Hún lést 22. janúar 2024 í Reykjavík.

Foreldar Sigríðar Maríu voru Sigmar Friðriksson bakari á Seyðisfirði, f. 31.7. 1901, d. 5.5. 1981, og Svafa Sveinbjörnsdóttir húsmóðir, f. 25.10. 1908, d. 15.12. 1983.

Sigríður María ólst upp í stórum systkinahópi og eru þau í aldursröð: Helgi Friðrik, f. 7.5. 1929, d. 17.12. 1990, Jóhann Ingvi Ingimundur, f. 28.5. 1930, d. 17.2. 1962, drengur, f. 1931, d. 1931, Sveinfríður, f. 1.9. 1932, d. 20.3. 2020, Sveinn, f. 11.11. 1933, Hreiðar, f. 7.6. 1937, Gunnar Björgvin, f. 25.6. 1938, d. 5.12. 2012, Haraldur, f. 21.9. 1940, Alfreð, f. 30.7. 1946, d. 23.7. 2022, og Helga, f. 15.2. 1948, d. 14.10. 1978.

Sigríður María giftist Guðbirni Jónssyni 19.6.1955, hann var fæddur 19.3. 1921, d. 2. janúar 2007. Guðbjörn var yngsti sonur hjónanna í Stóra Skipholti á Bráðræðisholtinu í vesturbæ Reykjavíkur, en þau voru Jón Jónsson, f. 20.11. 1881, d. 10.4. 1963, sjómaður og síðar bensínafgreiðslumaður, og kona hans, Þórunn Helga Eyjólfsdóttir húsmóðir, f. 20.6. 1884, d. 12.12. 1954. Guðbjörn var klæðskerameistari, þjálfari, leikmaður og dómari í knattspyrnu í KR ásamt því að stunda ýmsar íþróttagreinar.

Börn Sigríðar Maríu og Guðbjörns eru í aldursröð: a) Sigmar, f. 9.11. 1955, kvæntur Jóhönnu Ástvaldsdóttur og eiga þau Sigríði Maríu, Anton Björn og tvö barnabörn. b) Þórunn Helga, f. 9.10. 1956, gift Kristni Svavarssyni og eru dætur þeirra Solveig María, Svava, Kristín og Agnes Helga og eru barnabörnin sjö. c) Björgvin, f. 10.9. 1959, kvæntur Kristínu Jónsdóttur og eiga þau Jón Kristin, Báru Kristínu og eitt barnabarn. d) Aðalheiður Ósk, f. 4.1. 1964, gift Erni Valdimarssyni og eru börn þeirra Guðbjörn, Ársól Clara, Friðrik Kári og Daníel Örn.

Sigríður María ólst upp á Seyðisfirði og bjó lengst af í Bláhúsinu við Hafnargötu. Sigríður María gekk í Barnaskóla Seyðisfjarðar en ekki varð skólagangan lengri þrátt fyrir námsáhuga hennar. Sextán ára fór hún í vist til Reykjavíkur og undi hag sínum vel í borginni. Líkt og svo margir á þessum árum fór hún þar sem helst vinnu var að fá, á vertíð til Vestmannaeyja og Keflavíkur og á Landspítalann. Stærsti hluti launanna var sendur heim til að styðja við stórt heimili fjölskyldunnar.

Sigríður María vann í m.a. í Sælgætisgerðinni Völu en lengst af í Ísbirninum og Granda. Þegar á efri árin kom hætti hún að vinna og fór að sinna áhugamálum í auknum mæli. Meðal annars lærði hún að mála og náði fljótt tölverðri leikni í málaralistinni og tók hún þátt í nokkrum samsýningum. Hannyrðir voru hennar helsta áhugamál framan af og eftir hana liggja ýmis falleg verk.

Útför Sigríðar Maríu fór fram frá Neskirkju 30. janúar 2024.

Elsku mamma er nú farin á vit nýrra ævintýra og það verður örugglega vel tekið á móti henni af ástvinum og samferðafólki. Við systkinin unnum svo sannarlega í „mömmu-lottóinu”. Mamma var falleg kona, með svart hár svo í ákveðinni birtu sló bláum bjarma á liðað hárið og augun fallega blá. Enn fallegri var hennar innri manneskja, ætíð boðin og búin að aðstoða, ekkert var of stórt eða smátt. Sýndi fólki skilning og var afar þakklát fyrir allt sem fyrir hana var gert.

Mamma fæddist á Seyðisfirði en flutti þaðan 16 ára gömul. Líkt og svo margt fólk af hennar kynslóð fór hún þar sem helst var vinnu að fá svo sem á vertíð og Landsspítalann. Hún gekk alltaf jákvæð og stolt til vinnu og vann lengst af hjá Ísbirninum og Granda.

Mamma og pabbi hittust á fyrsta dansleiknum sem haldinn var í KR-heimilinu og sagði pabbi alltaf að þetta hefði verið hans gæfa, þegar hann sá þessa ungu svarthærðu, glæsilegu konu ganga inn í salinn og örlögin voru ráðin. Örlögin réðu því sem sagt að hún giftist inn í KR-fjölskyldu og varð hún ein mikilvægasta tengingin milli fjölskyldunnar og KR því hún studdi ávallt við bakið á pabba þegar hann var í fótboltanum og að þjálfa. Heimilið var ætíð opið fyrir KR-ingum og dvöldu nokkrir sumarlangt á heimilinu svo þeir gætu stundað fótboltann í KR. Það munaði litlu um nokkra aukamunna að fæða, fannst henni. Líklega var hún þessi ósýnilegi sjálfboðaliði sem bætti samfélagið allt í kring og þurfti enga umbun fyrir. Með tíð og tíma varð mamma KR-ingur og í ljós kom að hún hafði mikið keppnisskap og fylgdist jafnt með fótboltanum og öðrum íþróttagreinum og gladdist á sigurstundum.

Mamma og pabbi áttu gott hjónaband, voru í senn samhent og samheldin. Mamma stjórnaði heimilinu með lagni og oftar en ekki hélt pabbi að hann hefði ákveðið eitt og annað þegar allt var í raun löngu ákveðið af mömmu. Og um þetta og svo margt annað ríkti virðing og sátt. Það eru til margar sögur af heimilinu sem við systkinin munum miðla til barna okkar og barnabarna, skemmtisögur og sögur þar sem tekist var á en allir fengu að segja sína skoðun í kvöldkaffinu á málefnum líðandi stundar. Á hverjum sunnudegi var stund fyrir fjölskylduna að hittast, þeir komu sem gátu og á boðstólum voru dýrindiskökur og tertur sem mamma bakaði enda hefur hún eflaust erft bakaragenið frá pabba sínum. Eftir því sem aldurinn færðist yfir tókum við systkinin yfir veitingarnar en samverustundin var á sínum stað, hjá mömmu. Ömmukaffi verður áfram í hávegum haft enda dýrmætur tími fjölskyldunnar.

Á síðustu árunum fór allur hennar fókus á stækkandi fjölskylduna og eru afkomendur hennar og pabba orðnir 26 talsins. Hún reyndi eftir fremsta megni að fylgjast vel með barnabörnunum og barnabarnabörnunum og stoltari ömmu og langömmu var vart hægt að finna.

Þórunn Helga og
Aðalheiður Ósk.

Elsku tengdamamma hefur yfirgefið þessa jarðvist, komin í sumarlandið, laus við verki og vanlíðan. Í gegnum hugann fara svo margar góðar minningar sem ég mun varðveita í hjarta mínu.

Við Sigga erum báðar ættaðar frá Seyðisfirði, hún var stoltur Seyðfirðingur, þegar við ræddum um fjörðinn fagra talaði hún alltaf um „heima“. Þótt Sigga hafi flutt ung að heiman voru ræturnar sterkar heim í fjörðinn. Ég á eftir að sakna þeirra stunda þegar við vorum að hjálpa hvor annarri að rifja upp nöfn á húsum og fólki, fjölskyldutengsl ásamt mörgum minningum okkar þaðan.

Þér var alltaf mjög umhugað um fjölskylduna, vildir fylgjast með öllum og vita hvað við værum að gera, þú varst límið sem hélt okkur saman. Ömmukaffi alla sunnudaga þar sem þú varst búin að baka pönnukökur, jólaköku og eplaköku svo eitthvað sé nefnt, Þegar heilsu þinni fór að hraka komu allir með eitthvað á kaffiborðið, ömmukaffi var orðið fastur liður sem við vildum ekki missa af. Þar voru heitar umræður um daginn og veginn, hlegið og haft gaman.

Á árum áður bauðst þú oft fjölskyldunni í kvöldmat, þá voru á boðstólum steiktar kjötbollur í brúnni sósu eða gúllas með kartöflumús, vinsælast var alltaf þegar kjötsúpan þín var í boði, sem ekki er á hvers manns færi að leika eftir. Ég get alls ekki eldað hana eins og þú, fæ alltaf að vita að hún sé bara fjarri því að vera eins og súpan hennar ömmu. Þú hafðir gaman af að baka, sagðir að sennilega hefðir þú þennan áhuga frá pabba þínum, Simma bakara. Það var alltaf til heimabakkelsi með kaffinu, fyrir jólin tókst þú þig til og bakaðir rúllutertur, fjórfalda brúna og ljósa með sultu, síðan dreifðir þú kökunum á fjölskyldurnar. Þú varst ekki í rónni fyrr en allir höfðu fengið sinn skammt, þá máttu jólin koma.

Siggu var margt til lista lagt, fyrir utan að reka heimili með miklum myndarbrag prjónaði hún ótal lopapeysur, saumaði myndir, á seinni árum byrjaði hún að mála akrýlmyndir, þetta var áhugamál sem við deildum og þurftum við stundum að ræða litasamsetningar, skuggamyndun og annað sem tengdist þessari list. Sigga málaði margar fallegar myndir af blómum, gömlu húsin og fjallahringurinn frá Seyðisfirði voru henni hjartfólgið myndefni.

Elsku Sigga, að fá að kynnast þér og eiga samleið með þér í 45 ár hefur gefið mér mikið í lífinu, hefði ekki getað átt betri tengdamömmu. Allar góðu minningarnar munu gefa styrk í sorginni. Guð geymi þig og varðveiti.

Jóhanna I. Ástvaldsdóttir.