Ingólfur Ómar Ármannsson skrifar á Boðnarmjöð: „Gos er hafið enn á ný norðan Sýlingarfells og hraun er farið að renna yfir Grindarvíkurveg“: Foldin rifnar, funarjóð fjalls við rætur brennur

Ingólfur Ómar Ármannsson skrifar á Boðnarmjöð: „Gos er hafið enn á ný norðan Sýlingarfells og hraun er farið að renna yfir Grindarvíkurveg“:

Foldin rifnar, funarjóð

fjalls við rætur brennur.

Hraunsins elfur eldrauð glóð

yfir veginn rennur.

Ég hitti karlinn á Laugaveginum og spurði almennra tíðinda. Hann svaraði snöggur upp á lagið:

Ef þú spyrð er ekkert gott að frétta.

Í útvarpinu er rabb og raus.

Á Reykjanesi eldur laus.

Anton Helgi Jónsson skrifar á Boðnarmjöð: „Bækur eru ágætar en þegar kemur að því að dreifa ljóðum til landsmanna geta aðrir miðlar stundum náð betri árangri.

Margur fengi mettan kvið,

má því nærri geta,

yrði fólkið vanið við

vind og snjó að éta.

Í nokkur hundruð ár hefur þessi vísa eftir Jón Þorláksson á Bægisá verið til í bók uppi í hillu án þess að ég tæki eftir henni en í gær birtist hún mér óvænt á kartöflupoka sem ég keypti úti í búð. Ég varð svo glaður að ég ákvað að kaupa aldrei kartöflur frá neinum öðrum kartöflusala jafnvel þótt ég fyndi prentvillu og undarlega stafsetningu á umbúðunum. Nema hvað, kartöflurnar eru góðar og sagðar vera úr „Íslenzkri Móðurmold“ en sá frasi kallaði auðvitað á vísu.

Bjóðist íslenzk móðurmold

mettur ropar landinn

þó að gamalt hey sé hold

hress er andinn.“

Ingólfur Ómar Ármannsson kveður:

Að yrkja mér er ansi létt

orðum saman kuðla.

Bögur mínar bind ég þétt

bæði í rím og stuðla.

Helgi Jensson gefur það sem hann kallar „Kannski heilræði“:

Sum orð meiða satt er það

Sama hvað þú heldur.

Gæta þarftu þrotlaust að

því sem skaða veldur.

Hugsa skaltu hvaða orð

hæfa ræðu þinni,

svo orðin sem þú berð á borð

að bættri framtíð vinni.

Limra eftir Gunnar J. Straumland:

Fönnin nú hleðst upp í haugum,

helkaldur svartþröstur flaug um,

bölvaði í hljóði

og byrjaði á ljóði

en fraus þá og fór svo á taugum.