Myndin sýnir stækkun hafnarinnar í Hanstholm, fyrir og eftir breytingu. Greinarhöfundur vill að sérfræðingar skoði Landeyjahöfn.
Myndin sýnir stækkun hafnarinnar í Hanstholm, fyrir og eftir breytingu. Greinarhöfundur vill að sérfræðingar skoði Landeyjahöfn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað er til ráða? Ekki færum við heila höfn sem er á röngum stað en kannski er hægt að lagfæra hana.

Halldór B.Nellett

Það heitir víst að bera í bakkafullan lækinn að fjalla enn og aftur um Landeyjahöfn. Mig langar þó aðeins að líta í baksýnisspegilinn og einnig horfa líka aðeins fram á veginn.

Ég ásamt mörgum öðrum hef gagnrýnt staðarval og hönnun Landeyjahafnar mörgum sinnum og ritaði m.a. grein sem birtist í Morgunblaðinu fljótlega eftir opnun hafnarinnar fyrir rúmum 13 árum sem bar heitið „Rangur staður og röng hönnun“.

Þar sagði m.a. að staðarval hefði verið alrangt, höfnin hefði átt að vera nokkru vestar og mér væri það hulin ráðgáta hvernig í veröldinni mönnum datt það í hug að byggja höfn yst á sandeyri þar sem landið hefði gengið fram um 400 metra á sl. 90 árum, örstutt frá ósum Markarfljóts. Á þeim stað hlyti að vera mikill sandburður.

Einnig var það mitt mat að hafnargarðar væru rangt hannaðir, ekki ætti að hafa hafnarmynnið opið mót suðri heldur sigla inn í höfnina úr vestri með því að lengja eystri garðinn.

Ef höfninni yrði ekki breytt yrði hún einungis sumarhöfn og varla það. Með því að breyta hafnarmynninu yrði oftar fært í höfnina og meiri kyrrð væri innan hennar í sunnanbrælum. Vandamálið er tvíþætt, sjógangur utan hafnarmynnis og sandburður vegna nálægðar við Markarfljót. Einnig væri mjög líklegt við breytta hafnargarða að sanddæluskip gætu betur athafnað sig við verri aðstæður en ella.

Þeir sem hönnuðu Landeyjahöfn skutu öll mín rök strax á bólakaf. Þeir sögðu að þar sem Landeyjahöfn hefði verið valinn staður í Bakkafjöru væri mesta skjólið og minnsti sandburðurinn! Verkefnið væri bara hálfnað, með nýjum og grunnristum Herjólfi myndi verkið klárast. Þó munu, samkvæmt frétt Stundarinnar frá árinu 2019, sænskir sérfræðingar frá háskólanum í Lundi hafa varað við núverandi staðsetningu Landeyjahafnar strax árið 2005 eða þegar rannsóknir stóðu yfir.

Einnig var því haldið fram að með lengingu eystri garðsins myndi hann virka sem sandgryfja. Þeir virðast enn ekki hafa áttað sig á því og geta viðurkennt að höfnin sjálf er algjör sandgryfja.

Sandi var mokað úr höfninni, bara á síðasta ári, fyrir rúmar 600 milljónir!

Þessi hugmynd með lengingu eystri garðsins út á meira dýpi gæti hugsanlega og vonandi leitt til þess að mesti sandburðurinn færi fram hjá höfninni og út á meira dýpi, allavega í þrálátum austanáttum eins og þarna eru oft.

Höfninni í Hanstholm breytt

Hafnarverkfræðingar við höfnina í Hanstholm á norðvesturströnd Danmerkur hafa breytt hafnarmynni þeirrar hafnar á svipaðan hátt og ég lagði til og gerðu það á árunum 2018-2020 að undangengnum rannsóknum. Ölduhæð þar getur orðið allt að 8 metrar. Sá hafnargarður mun hafa kostað um 6 milljarða að ég best veit. Fyrir breytingu var hafnarmynnið svipað og Landeyjahöfn.

Sandflutningar við Hanstholm eru eflaust eitthvað meiri í aðra áttina, eða í norðaustur, og því var gerlegt að breyta hafnargörðum svona. Dönsku hafnarverkfræðingarnir hönnuðu þennan nýja brimbrjót þannig að þeir kalla það „underwater breakwater“ en grjótið í garðinum var steypt í
sérstökum mótum og virkar þannig að það beinir straumnum í raun frá garðinum og hefur ekki enn þurft að dýpka í hafnarmynninu síðan smíði garðsins lauk fyrir rúmum þremur árum. Einnig er sigling mun auðveldari í höfnina í slæmu sjólagi.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að aðstæður séu ekki ósvipaðar undan Bakkafjöru þó „sérfræðingar“ haldi öðru fram. Þetta þyrfti að rannsaka miklu betur á staðnum með ítarlegum straummælingum, öldufarsrannsóknum og sandflutningum.

Vesturfallið verra en austurfallið

Ég ræddi við mann árið 2010 sem var mjög staðkunnugur á Bakkafjörusvæðinu, hafði búið þarna skammt frá alla sína ævi sem voru þá rúm 80 ár. Hann sagði vesturfallið alltaf vera mun sterkara en austurfallið. Ef skoðaðar eru loftmyndir af Landeyjahöfn sést þetta glögglega, allur aurburðurinn úr Markarfljóti fer vestur um að höfninni. Þetta sannreyndi ég, sennilega árið 2018 þegar við unnum við að endurnýja öldumælisdufl undan Bakkafjöru, þá lagði ég varðskipinu Þór við akkeri skammt suðaustur af Landeyjahöfn. Við lágum þar í blankalogni í rúman sólarhring og allan tímann snéri skipið stefni til austurs, þrátt fyrir venjuleg fallaskipti við flóð og fjöru. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá haga skip sér þannig að ef legið er við framakkeri snúa þau ávallt stefni upp í strauminn en ef fer að vinda breytist það vitanlega en svo var ekki þarna. Þessi akkerislega, þó stutt væri, var því prýðis straummælingarathugun.

Í raun hefur Vegagerðin viðurkennt að vesturfallið hefur mikil áhrif og talsmenn hennar sögðu nýlega að þeim hefði komið á óvart hversu hratt höfnin fylltist af sandi í austlægum áttum og að það gerðist mun hraðar en fólk hafði áður séð.

Alvarlegast fannst mér í svari þeirra sérfræðinga hafnarinnar við grein minni árið 2010 þegar þeir slógu því fram að með mínum hugmyndum um lengingu eystri hafnargarðsins myndi garðurinn kosta árið 2011 ekki undir 25 milljörðum. Ekki veit ég hvernig sérfræðingarnir fengu þessa upphæð án nokkurra rannsókna að ég best veit.

Ég get vel ímyndað mér að þáverandi handhafar fjárveitingavaldsins hafi sopið hveljur við að sjá þessa upphæð.

6 milljarða kostaði nýi brimbrjóturinn í Hanstholm árið 2020 og er svipaður að lengd þeim sem þyrfti til að skýla hafnarmynni í Landeyjahöfn.

Landeyjahöfn kostaði alls með báðum hafnargörðunum á sínum tíma rúma 3 milljarða!

Lokast oft í hafáttum

Sennilega hefur aldrei staðið til að gera frekari rannsóknir til að bæta höfnina, heldur treysta á að sandburður myndi minnka með goslokum í Eyjafjallajökli og nýr og grunnristur Herjólfur myndi bjarga öllu.

Nú er komið í ljós, því miður verð ég að segja, að ég hafði rétt fyrir mér. Höfnin er meira og minna lokuð þegar hann leggst í hafáttir og óheyrilegur kostnaður er í því að halda höfninni opinni með stanslausum sandmokstri.

Það er mín skoðun að hönnun og staðsetning Landeyjahafnar sé sennilega eitt mesta verkfræðislys seinni ára hér við Ísland.

Ríkisendurskoðun sagði í stjórnsýsluúttekt um framkvæmd Landeyjahafnar sem kom út í maí 2022 ljóst að allar áætlanir um rekstur Landeyjahafnar hefðu verið „mjög vanáætlaðar“.

Þar sagði m.a. að búið væri að verja meira fé í að dæla sandi úr Landeyjahöfn en kostaði að byggja hana og var dýpkunarkostnaður á árunum 2011-2020 fjórfaldur miðað við upphaflegar áætlanir, þ.e. á fyrstu tíu árum hafnarinnar er kostnaður vegna viðhaldsdýpkunar orðinn meiri en byggingarkostnaður hennar.

Stofnkostnaður við höfnina nam tæpum 3,33 milljörðum á meðan 3,66 milljörðum var varið í að dýpka höfnina frá því hún var tekin í notkun 2010 og þar til í lok árs 2020. Einnig var keyptur botndælubúnaður sem átti að setja út á hafnargarðana sem mun hafa kostað með öllu tæpar 900 milljónir og var aldrei notaður. Eitthvað var víst hægt að notast við þessa misheppnuðu tilraun eins og veglagningu út á garðana ef til óhapps kemur.

Nýjustu tölur um heildarkostnað við höfnina eru komnar í 8,2 milljarða. Á síðasta ári, þ.e. 2023, reyndist dýpkunarkostnaður vera rúmar 600 milljónir eins og áður sagði og var það dýrasta árið frá því að höfnin var byggð. Þetta er ótrúleg upphæð fyrir höfn sem kostaði á sínum tíma 3,3 milljarða. Nýr Herjólfur er ekki í þessari tölu en mun hafa kostað um 5,2 milljarða og alls er þetta því komið í 13 milljarða með smíði hans.

Notagildið minna en vænst var

Nú veit ég ekki hvaða fyrirmæli þeir höfðu sem tóku að sér að hanna og staðsetja þessa höfn en mig grunar að lagt hafi verið af stað með það viðhorf að þetta mætti alls ekki kosta of mikið, eins undarlegt og það er, hafandi í huga hvað Vestmannaeyjar leggja til þjóðarbúsins með sínum öfluga sjávarútvegi.

Kannski ætluðu sérfræðingarnir að vera „húsbóndahollir“ við yfirmenn sína og hanna og byggja höfn fyrir ótrúlega lítinn pening sem vissulega varð raunin en notagildið því miður miklu minna en upphaflega var áætlað svo ekki sé minnst á sandburðinn sem er alveg skelfilegur.

Úr varð lítil höfn þar sem varnargarðar hennar náðu ekki einu sinni út fyrir grunnbrotin! Þarna þurfti svo sannarlega að hugsa aðeins stærra.

Þegar ákveðið var í upphafi að staðsetja Landeyjahöfn þar sem hún er hefur mig alltaf grunað að rannsóknum á svæðinu hafi verið stórkostlega ábótavant og þeim gefinn alltof skammur tími og því fór sem fór. Þetta er grátleg staðreynd því það var hægt að gera miklu, miklu betur. Öldumælisdufl án straummælis var fyrst lagt út árið 2003 undan Bakkafjöru og höfnin tekin í notkun einungis sjö árum síðar! Þetta hlýtur að vera heimsmet í rannsóknum og byggingu hafnar á jafn erfiðum stað og Bakkafjara er. Ég kalla það ekki eiginlegar rannsóknir þó einhverjar dýpismælingar hafi verið gerðar áður. Það verður þó að viðurkennast að erfiðlega gekk í upphafi að gera straummælingar vegna ókyrrðar á svæðinu en í dag eru komin fullkomin öldumælisdufl sem mæla ölduhæð, strauma o.fl.

Hvað er til ráða? Ekki færum við heila höfn sem er á röngum stað en kannski er hægt að lagfæra hana.

Köllum til erlenda sérfræðinga

Löngu tímabært er að fá erlenda hafnarverkfræðinga með reynslu af svipuðum aðstæðum og eru í Landeyjahöfn, t.d. reynsluna af höfninni í Hanstholm eftir breytingu á hafnargörðum, og fá úr því skorið eins fljótt og mögulegt er hvort hægt sé að lagfæra höfnina sem hefur verið í notkun í 14 ár eða réttara sagt klára ófullgerða höfn. Það er óskiljanlegt að ekki skuli vera löngu búið að því.

Ég skora á Vegagerðina að viðurkenna vandann, höfnin sjálf, hönnun hennar og staðsetning er stærsta vandamálið. Reyna að finna lausnir en ekki bara moka sand endalaust.

Ef niðurstaða reyndra hafnarverkfræðinga verður sú að ekki sé hægt að lagfæra höfnina svo hún virki betur þurfa stjórnvöld að svara því hvort réttlætanlegt sé að eyða skattfé okkar í endalausan sandmokstur með stopulum ferðum eða þá hreinlega að afskrifa Landeyjahöfn algerlega.

Ef það verður niðurstaðan þarf þokkalega stórt og hraðskreitt skip sem sigldi á Þorlákshöfn á ekki meira en tveimur klukkustundum, ganghraði þarf þá að vera um 20 sjómílur á klst. og mögulegt að fara þrjár ferðir á dag. Í sjálfu sér ekki slæmur kostur, ferðatíminn yrði með því af Reykjavíkursvæðinu rúmlega tveir og hálfur tími eða svipað og akstur í Landeyjahöfn og sigling þaðan til Eyja. Myndi einnig létta á umferðarþunga á hringveginum á Suðurlandi.

Þá væri tækifæri til þess að hanna vistvænt skip sem gengi jafnvel fyrir rafmagni eða öðrum hagnýtum orkugjafa, tækninni fleygir fram í dag og rekstrarkostnaður er mun minni.

Og það sem mest er, hætt yrði að eyða peningum í stanslausan sandmokstur.

Síðan eru jarðgöng til athugunar og stutt í að nefnd skili skýrslu um það mál. Þó er nokkuð ljóst að jarðgöng muni kosta marga tugi milljarða ef jarðlög leyfa byggingu þeirra.

Höfundur er fyrrverandi skipherra og áhugamaður um bættar samgöngur milli lands og Eyja.