Svíþjóð Katla María Þórðardóttir á að baki 79 leiki í efstu deild með uppeldisfélagi sínu Keflavík, Fylki og Selfossi þar sem hún lék síðasta sumar.
Svíþjóð Katla María Þórðardóttir á að baki 79 leiki í efstu deild með uppeldisfélagi sínu Keflavík, Fylki og Selfossi þar sem hún lék síðasta sumar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Fyrstu dagarnir hérna úti hafa gengið mjög vel og ég var mjög fljót að aðlagast öllu enda er þetta ekkert ósvipað lífinu á Íslandi,“ sagði knattspyrnukonan Katla María Þórðardóttir í samtali við Morgunblaðið

Svíþjóð

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Fyrstu dagarnir hérna úti hafa gengið mjög vel og ég var mjög fljót að aðlagast öllu enda er þetta ekkert ósvipað lífinu á Íslandi,“ sagði knattspyrnukonan Katla María Þórðardóttir í samtali við Morgunblaðið.

Katla María, sem er 22 ára gömul, gekk í janúar til liðs við sænska úrvalsdeildarfélagið Örebro en hún skrifaði undir samning við félagið til ársloka 2025.

Hún er uppalin hjá Keflavík en hefur einnig leikið með Fylki og Selfossi hér á landi og á að baki 79 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað fjögur mörk. Þá á hún að baki einn A-landsleik.

„Þetta kom nokkuð óvænt upp ef ég á að vera alveg hreinskilin. Þjálfari liðsins, Rickard Johansson, heyrði í mér í lok desember og þetta vakti strax áhuga minn. Ég hef alltaf verið spennt fyrir því að taka skrefið út og mér fannst þetta góður tímapunktur. Það er samt mjög kalt hérna þessa dagana, eitthvað í kringum -20° myndi ég halda en við erum samt að æfa úti alla daga þannig að það var ákveðið sjokk til að byrja með. Þetta er samt ekkert mjög frábrugðið íslenska veðrinu og það hefur gengið ágætlega að aðlagast kuldanum,“ sagði Katla María í léttum tón.

Katla María á að baki 41 landsleik fyrir yngri landslið Íslands og þá var hún fyrirliði U-23 ára landsliðsins í tveimur leikjum gegn Danmörku á síðasta ári og spilaði þrjá af fjórum leikjum liðsins.

Einbeitir sér að fótboltanum

„Þetta voru ákveðin viðbrigði fyrst. Það var mikið um dauðan tíma en samt sem áður mæti ég á æfingar tvisvar á dag. Þetta er í raun eins og fullur vinnudagur og það er frábært að geta einbeitt sér algjörlega að fótboltanum.

Ég hafði alltaf sett stefnuna á atvinnumennsku á einhverjum tímapunkti og á milli æfinga reynir maður bara að hvíla sig og safna kröftum. Það er mikill áhugi á sænsku úrvalsdeildinni og það er góð mæting á alla leiki hérna. Þetta er frábær staður til þess að hefja atvinnumannsferilinn og svo þurfum við bara að bíða og sjá hvort þetta tekur mig eitthvað lengra.“

Hjá Örebro hittir hún fyrir þær Bergþóru Sól Ásmundsdóttur og Áslaugu Dóru Sigurbjörnsdóttur sem gengu til liðs við félagið á dögunum og þá léku þær Berglind Rós Ágústsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir einnig með Örebro fyrir nokkrum árum.

„Ég var í miklu sambandi við Áslaugu Dóru áður en ég ákvað að skrifa undir. Við spiluðum saman með Selfossi í tvö ár og hún fór út á undan mér. Hún talaði mjög vel um félagið og mælti mikið með því að ég tæki skrefið út.

Ég heyrði líka í Berglindi Rós og Cecilíu enda þekkjumst við vel eftir að hafa spilað saman hjá Fylki og þær töluðu mjög vel um félagið. Það eru margir nýir leikmenn núna en okkur hefur gengið vel að slípa okkur saman fyrir tímabilið sem hefst í apríl og ég er bjartsýn. Liðið endaði í 10. sæti á síðustu leiktíð og markmiðið er að gera betur í ár.“

Katla María hefur leikið allan sinn feril með tvíburasystur sinni Írisi Unu Þórðardóttur og viðurkennir að það hafi verið erfitt að skiljast að en Íris Una varð eftir heima á Íslandi og leikur í Bestu deildinni í sumar.

„Við systurnar höfum alltaf fylgst að og búið saman. Það var mjög erfitt að slíta naflastrenginn frá henni en á sama tíma var þetta þroskandi skref fyrir mig líka. Eftir síðasta tímabil með Selfossi, þar sem við bjuggum saman, vorum við báðar ákveðnar í að fara hvor í sína áttina.

Við erum samt duglegar að heyrast og ég tala við hana í símann í að minnsta kosti klukkutíma á dag þannig að við erum alltaf í góðu sambandi. Þegar allt kemur til alls held ég að þetta hafi verið gott skref og muni bara styrkja samband okkar ennþá frekar,“ bætti Katla María við í samtali við Morgunblaðið.