Guðshús Kirkjan í Borgarnesi gnæfir hátt og setur svip á byggðina.
Guðshús Kirkjan í Borgarnesi gnæfir hátt og setur svip á byggðina. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Minjastofnun hefur nú hafið undirbúning þess að friðlýsa Borgarneskirkju. Málið var til umfjöllunar í byggðarráði Borgarbyggðar á dögunum og fékk þar jákvæðar undirtektir. Umhverfisráðherra mun svo, ef allt gengur upp, staðfesta friðlýsinguna

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Minjastofnun hefur nú hafið undirbúning þess að friðlýsa Borgarneskirkju. Málið var til umfjöllunar í byggðarráði Borgarbyggðar á dögunum og fékk þar jákvæðar undirtektir. Umhverfisráðherra mun svo, ef allt gengur upp, staðfesta friðlýsinguna.

Borgarneskirkja var hönnuð og byggð á árunum 1942-1959 eftir teikningum Halldórs H. Jónssonar arkitekts. Hann var fæddur og uppalinn í Borgarnesi og þekkti vel til staðhátta. Kirkjunni var valinn staður þar sem arkitektinn óskaði og útkoman varð bygging sem frá vígsludegi fyrir 65 árum hefur verið eitt helsta kennileiti Borgarness.

Í umsögn Minjastofnunar segir að Borgarneskirkja sé við fyrstu sýn fremur hefðbundin í ytra útliti og stíl. Sérstaðan felist í innra rými; það er kirkjuskipi og kór. Langveggir og loft renni saman í oddbogalaga hvelfingu og í kórnum sé bogadreginn innveggur og þar einfaldur trékross. Allt hafi þetta við hönnun varðað veginn í átt að frjálsari formsköpun og persónulegri túlkun í kirkjubyggingarlist eftir­stríðsáranna. Kirkjan sé jafnframt verðugt dæmi um byggingarlist Halldórs H. Jónssonar.

„Friðlýsing Borgarneskirkju er góð hugmynd,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir, formaður sóknarnefndar í Borgarnesi, í samtali við Morgunblaðið. „Kirkjan er fallegt hús og merkilegt, teiknuð af arkitekt sem lét víða til sín taka. Ég sé fyrir mér að sá stimpill sem friðlýsing er skapi möguleika, til dæmis á því að fá ýmsa styrki sem annars ekki bjóðast til endurbóta og viðhalds kirkjunnar. Þetta er hús sem hlúa þarf vel að. Borgnesingum er annt um kirkjuna sína sem setur mjög sterkan svip á bæjarmyndina hér.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson