Vigdís Häsler
Vigdís Häsler
Virkni í samfélaginu getur skipt meira máli en hámörkun framlegðar í öllum smæstu kimum.

Vigdís Häsler

Tveir menn sátu á bar, báðir voru nemendur í meistaranámi í alþjóðalögum. Annar félaginn var orðinn heldur framlágur og ljóst var að nauðsyn væri á æðra inngripi. Þegar kumpáninn gerði sig líklegan til að panta annan drykk sagði félagi hans, líkt og stjórnmálamaður í fullkomlega óumbeðnum erindisrekstri og hugsanlega í félagslegri rangstöðu: „Ertu ekki búinn að fá nóg?“ Kumpáninn rétti sig skyndilega við, líkt og hann hefði verið allsgáður nær alla þá fjóra tíma sem þeir höfðu setið að sumbli, og hreytti út úr sér: „Þú ert að takmarka rétt minn til þróunar!“ Þess má geta að kumpáninn var ekki alveg búinn að tapa rökhugsun sinni, þrátt fyrir að kringumstæðurnar allar hafi gefið til kynna að þarna færi á ferð ungur maður sem þyrfti að leggjast á koddann hið snarasta. Kumpáninn var nefnilega að vísa til yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um réttinn til þróunar sem samþykkt var á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 4. desember 1986 (e. declaration on the right to development), sem telst til ófrávíkjanlegra mannréttinda í krafti þess að sérhver einstaklingur á rétt til þátttöku og að leggja sitt af mörkum svo hann fái notið efnahagslegrar, félagslegrar, menningarlegrar og pólitískrar þróunar í samfélagi þar sem öll mannréttindi og grundvallarfrelsi skulu uppfyllt.

En hvaða þýðingu hefur rétturinn til þróunar fyrir bændur á Íslandi? Bændur á Íslandi hafa leitt þróun í ýmsum verkefnum, sem m.a. tengjast umhverfis- og loftslagsmálum. Leitin að hagvexti er ekki endilega meginmarkmið yfirlýsingarinnar, heldur er um að ræða yfirgripsmikið ferli sem miðar að því að bæta velferð alls samfélagsins á grundvelli virkrar og frjálsrar þátttöku íbúanna. Þannig innifelur yfirlýsingin í sér viðurkenningu á réttinum til sjálfsákvörðunar og fullveldis yfir náttúru og auðlindum landsins og hefur m.a. hjálpað bændum í Mongólíu, á grundvelli þróunaráætlunar SÞ, að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika á tilteknum svæðum með því að heimila þeim að nýta óskipulögð landsvæði til landbúnaðar.

Landbúnaðurinn er innviður og sem slíkur þurfum við að sinna uppbyggingu þessarar atvinnugreinar eins og allra annarra innviða. Án bænda er fæðusjálfstæði þjóðar teflt í tvísýnu. Þegar við höfum bændur sem eru reiðubúnir að taka þátt í framleiðslu landbúnaðarvara verða stjórnvöld jafnframt að tryggja rétt þeirra til þróunar, að þeir geti notið góðs af náttúruauðlindum lands síns og tekið þátt í ákvarðanatöku sem hefur áhrif á líf þeirra, atvinnu og framleiðslu, sem síðan á endanum snertir okkur öll.

Innlend matargerð og innlend framleiðsla landbúnaðarafurða er hluti af samfélagi okkar. Kjötframleiðsla, mjólkurframleiðsla, skógrækt, kornrækt, ræktun íslenska hestsins, landeldi, íslenska geitin og svo mætti áfram telja. Öll vinnan við það að vera bóndi er hluti af menningarverðmætum íslensku þjóðarinnar, að nytja landið er hluti af því sem mótar okkur sem þjóð. Við þurfum sem þjóð að viðurkenna og sýna öllum störfum tiltekna og sómasamlega virðingu. Hafi áskoranir síðustu ára kennt okkur eitthvað er það einmitt að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Það vilja allir skipta máli í íslensku samfélagi, það vilja allir geta markað tilveru sína að vera einstaklingur, hlekkur í samfélagi, hluti af þróuninni. Virkni í samfélaginu getur skipt meira máli en hámörkun framlegðar í öllum smæstu kimum.

Fjölbreytnin er einn af stærstu styrkleikunum í íslenskum landbúnaði. Innan raða Bændasamtakanna hafa fjórtán atvinnugreinar í landbúnaði sameinað krafta sína. Þar liggur styrkurinn, allar eru greinarnar jafn mikilvægar fyrir okkur sem samfélag því hluti af verðmætunum er fjölbreytnin. Í öllum þessum atvinnugreinum felast tækifæri, þekking og hugmyndaauðgi og með aukinni vitund og aukinni samvinnu verða hugmyndir að veruleika og tækifærin raungerast.

Við erum á endanum öll í sama bátnum og getum dregið lærdóm af hvert öðru en það kallar þá á samstöðu þar sem leiðtogarnir stíga fram og fá hina með í stað þess að ala á sundrung. Bændur standa saman gegn regluverki sem ýtir undir kyrrstöðu og stuðlar jafnvel að stöðnun og afturför þegar við viljum búa við frelsi til athafna sem tryggir grósku og þróun atvinnugreinarinnar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Höf.: Vigdís Häsler