Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Hermanir hafa verið gerðar fyrir Reykjanesskaga þar sem mögulegum sviðsmyndum hraunrennslis hefur verið varpað upp og þar miðað við hraunflæði frá þekktum sprungusvæðum í átt að raforkuinnviðum á svæðinu. Varnargarðar hafa verið hannaðir og einnig hækkanir á háspennumöstrum svo að hraun geti runnið undir háspennulínur. Þetta segir Halldór Halldórsson öryggisstjóri Landsnets í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður um hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar til að verja Suðurnesjalínu 1 sem flytur rafmagn sem framleitt er utan Reykjaness til svæðisins. Þá er lagning Suðurnesjalínu 2 í undirbúningi og taka framangreindar ráðstafanir einnig mið af þeirri línu. Ætlunin er að sú lína verði tekin í gagnið síðla næsta árs.
Halldór segir að farið hafi verið að huga að vörnum raforkumannvirkja strax árið 2020 sem og að gerð viðbragðsáætlunar um hvernig verja megi Suðurnesjalínu 1 og aðra raforkuinnviði á Reykjanesi. Var verkfræðistofan Verkís fengin til að gera tillögur að varnargörðum eins og þeim sem settir voru upp við orkuverið í Svartsengi, til að verja orkuinnviði fyrir mögulegu hraunrennsli frá öllum þekktum sprungum á Reykjanesi sem líkt var eftir í hraunflæðihermum. Á grundvelli þeirra hermana hafa verið gerðar viðbragðsáætlanir og settar inn í hönnunarforsendur fyrir innviðaframkvæmdir í framtíðinni.
„Þar sem raflína er eða raforkuinnviður og hraun getur runnið að, eru til hannaðar varnir,“ segir Halldór.
„Eins fengum við tillögur um rósettuvarnargarða sem settir eru utan um háspennumöstur, þetta er hringur utan um möstrin til að halda hrauninu frá, þannig að hvorki komist hraun að þeim né hiti inn að mastrinu,“ segir Halldór, en með rósettum er átt við varnarhringi utan um háspennumöstrin.
„Þegar fyrstu gosin urðu fjarri alfaraleið var tækifærið notað til að hanna varnargarðana, hvað mikinn massa þyrfti á móti hrauni, hvort hægt væri að stöðva það eða hvort unnt væri að leiða hraunið frá mannvirkjum. Þegar atburðarásin hófst í haust voru varnargarðarnir settir upp á þessum grundvelli, fyrst við orkuverið í Svartsengi og í framhaldinu ofan Grindavíkur. Einnig voru varnir settar utan um um möstrin í Svartsengislínu 1. Það hefur sýnt sig að þetta virkar mjög vel og þetta er það sem við notum sem forsendu til að verja Suðurnesjalínu 1 og Suðurnesjalínu 2,“ segir Halldór og bætir við að varnirnar fyrir Suðurnesjalínurnar báðar hafi verið hannaðar m.t.t. hraunflæðishermana.