Hilmar Viggósson er fæddur 14. febrúar 1939 í Reykjavík og ólst upp í Hlíðunum. Hann gekk í Austurbæjarskólann og Gagnfræðaskóla Austurbæjar (Vörðuskóla).
Auk þess að stunda handbolta og fótbolta með Val eins og flestir drengir í hverfinu heillaðist Hilmar ungur af Charles Atlas, einum af upphafsmönnum nútíma heilsuræktar. Hilmar stundaði stífar æfingar með vini sínum og fylgdu þeir í hvívetna leiðbeiningum Atlas, sem byggðust á æfingakerfi og gormum. Eitt var hábölvað við þessar æfingar, því armbeygjur voru gerðar á stólum í stað þess að nota gólfið. Haldið var um setuna á meðan armbeygjurnar voru gerðar. Þetta hafði í för með sér skelfilegar afleiðingar fyrir borðstofustólana á æskuheimili hans að Mávahlíð 24. Þeir fóru allir á límingunum. Hilmar varð Íslandsmeistari með Val í þriðja flokki í handbolta.
Áhugann á skák fékk Hilmar í vöggugjöf því á æskuheimili hans var mikið teflt og leiddi sá áhugi hann í landsflokk um tíma. Hann tefldi í hinum ýmsu klúbbum og tók þátt í mörgum mótum. Með eftirminnilegri mótum má nefna Firmamót 1976 sem hann keppti í fyrir hönd Landsbanka Íslands og vann ásamt þremur starfsfélögum. Í kjölfarið skipulagði Landsbankinn keppni við helstu viðskiptabanka sína í London. Teflt var í City, sjö sinnum annað hvert ár, meðal annars við Lloyds, Barclays, National Westminster Bank og Midland Bank. Keppendurnir voru fjórir, einn varamaður auk fararstjóra og fengu þeir ávallt höfðinglegar móttökur þrátt fyrir sigur öll árin. Nú teflir Hilmar nær eingöngu á netinu (chess.com) og var með 2.215 stig síðast þegar þau voru skráð.
Hilmar kynntist sveitastörfum hjá frændfólki sínu að Hnausum í Húnaþingi, Ausu í Borgarfirði og í fjögur sumur gegndi hann því virðulega embætti að vera kúskur á Hvanneyri. Eins og títt var um unglinga vann Hilmar einnig almenna verkamannavinnu, bæði við uppskipun og í slippnum.
Árið 1964 kvæntist Hilmar Auði Guðmundsdóttur, glæsilegri og glaðværri konu. Saman héldu þau ógleymanlegar veislur í Austurbrún og áramótaveislur í Hraunbænum þar sem þau bjuggu fyrstu hjúskaparár sín. Þessar veislur einkenndust af gleði og fjöri hjá þessum flottu gestgjöfum sem voru höfðingjar heim að sækja. Lengst af bjuggu þau í Ásbúð og þar var oft mikið fjör og gleði með Bee Gees á fóninum, sungið og dansað við lagið Staying Alive um alla stofuna.
Eftir fráfall Auðar 2019, eiginkonu sinnar til 55 ára, flutti Hilmar í Gullsmára 9 þar sem honum líður vel innan um fjöldann allan af góðu fólki og vinkonu sína Mæzý.
Þökk sé góðri heilsu er Hilmar fær í flestan sjó, teflir daglega, stundar golf og líkamsrækt, syngur í kór og er áhugamaður um rétta öndun, jákvætt hugarfar og heimsmálin.
Fyrri störf
Hilmar lauk Samvinnuskólaprófi 1959 og var í verslunarnámi í Kaupmannahöfn 1959. Hilmar var í námi í Bankamannaskólanum 1961 og bankanámi í National Bank og Westminster í London 1973.
Hann var starfsmaður Landsbanka Íslands 1959-1970 og
skrifstofustjóri Árbæjarútibús Landsbanka íslands 1970-1978. Hilmar var forstöðumaður Landsbanka Íslands á Hellissandi 1978-1987 og útibússtjóri Landsbanka Íslands í Neskaupstað 1988-1993. Hann var framkvæmdastjóri Sambands íslenskra bankamanna 1974-1975, þá í leyfi frá Landsbankanum, og ritstjóri Bankablaðsins 1974-1977.
Hilmar tefldi í landsliðsflokki í skák 1963-1964 og var í aðalstjórn Taflfélags Reykjavíkur 1961-1964. Hann var í aðalstjórn Skáksambands Íslands 1969-1973 og gjaldkeri Skáksambandsins, m.a. við framkvæmd heimsmeistaraeinvígisins í skák í Reykjavík milli Spasskys og Fischers 1972. Árið 2023 var hann sæmdur gullmerki sambandsins í viðurkenningarskyni fyrir störf sín.
Fjölskylda
Hilmar kvæntist 13. júní 1964, Auði Guðmundsdóttur, f. 12.6. 1944, d. 15.1. 2019, skrifstofumanni. Foreldrar Auðar voru Unnur Jóna Kristjánsdóttir ljósmóðir og Guðmundur Guðmundsson stýrimaður en stjúpfaðir Auðar var Gísli Sveinsson, verslunarmaður í Kópavogi.
Sonur Hilmars og Auðar er Viggó Einar, f. 4.2. 1968, stjórnmálahagfræðingur frá University of Essex, starfandi stjórnarformaður byggingafyrirtækisins MótX ehf. og einn eigenda þess. Eiginkona hans er Elín Jóhannesdóttir, f. 29.10. 1971, alþjóðastjórnmálafræðingur frá Edinborgarháskóla. Börn þeirra eru Hilmar Óli, f. 16.12. 2007, Sigrún Anna, f. 10.2. 2010, og Valur Ari, f. 10.9. 2014.
Systkini Hilmars: Gísli, f. 3.5. 1943, verkfræðingur, kvæntur Kristínu Guðmundsdóttur; Björn, f. 29.7. 1946, rekstrartæknifræðingur, kvæntur Hallveigu Björnsdóttur, og Sigrún Vigdís, f. 2.10. 1948, d. 28.11. 2020, leikskólakennari.
Foreldrar Hilmars voru hjónin Viggó Einar Gíslason, 14.7. 1905, d. 21.3. 1985, vélstjóri í Reykjavík, og Ása Sigríður Björnsdóttir, f. 24.5. 1905, d. 17.2. 1951, húsfreyja í Reykjavík. Stjúpmóðir Hilmars var María Benediktsdóttir, f. 25.5. 1910, d. 3.5. 1999.