„Við höldum okkar striki,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, um kjaraviðræður Fagfélaganna og Samtaka atvinnulífsins. Hann segir viðræðuslit milli breiðfylkingarinnar og SA ekki hafa áhrif á viðræður þeirra við SA með beinum hætti

„Við höldum okkar striki,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, um kjaraviðræður Fagfélaganna og Samtaka atvinnulífsins. Hann segir viðræðuslit milli breiðfylkingarinnar og SA ekki hafa áhrif á viðræður þeirra við SA með beinum hætti.

Haldinn var sáttafundur í deilu Fagfélaganna og SA í fyrradag, vinnufundir voru í gær og fyrirhugaður er formlegur sáttafundur hjá ríkissáttasemjara í dag.

Ágreiningur um forsenduákvæði samninga varð til þess að upp úr slitnaði á milli breiðfylkingarinnar og SA. Spurður hvort sambærilegar kröfur séu á borðinu í viðræðum Fagfélaganna segir Kristján að langtímakjarasamningar þurfi að innihalda forsenduákvæði til að tryggja hagsmuni félagsmanna og krafa um það sé í kröfugerðinni.

Skammtímasamningur ef ekki næst breið samstaða

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis, segir í grein í nýútkomnu tímariti félagsins að ef breið samstaða skapist á vinnumarkaðnum um sameiginlegar kröfur opnist möguleiki fyrir langtímasamninga. Til að svo megi verða sé nauðsynlegt að í samningum séu haldgóð forsenduákvæði (rauð strik) á tilgreindum tímasetningum. „Ef ekki næst breið samstaða aðila þá gerir Sameyki ráð fyrir að skammtímasamningar verði raunin,“ skrifar hann. Meðal þess sem krafist sé á hendur launagreiðendum séu breytingar á vinnutíma í vaktavinnu, stór skref varðandi jöfnun launa á milli markaða, launaskriðstrygging o.fl.

„Formlegar kjaraviðræður Visku eru ekki hafnar, enda renna samningar okkar við opinbera launagreiðendur ekki út fyrr en 31. mars næstkomandi. Undirbúningur kjaraviðræðnanna er þó langt á veg kominn hjá félaginu hvað varðar kröfugerð og fleira,“ segir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir formaður Visku. Formaður BHM hafi haft viðræðuumboð til að taka þátt í samtali um kröfur og áherslur í komandi kjarasamningum við önnur heildarsamtök, einstök stéttarfélög og launagreiðendur. Samningsumboð fyrir Visku liggi þó enn hjá félaginu sjálfu.
omfr@mbl.is