Oppenheimer Christopher Nolan og leikarinn Cillian Murphy.
Oppenheimer Christopher Nolan og leikarinn Cillian Murphy. — AFP/Valerie Macon
Christopher Nolan sem leikstýrði Oppenheimer, Christopher Storer sem leikstýrði The Bear og Peter Hoar sem leikstýrði The Last of Us voru meðal helstu verðlaunahafa á hátíð samtaka kvikmynda- og sjónvarpsleikstjóra, Directors Guild of America eða…

Christopher Nolan sem leikstýrði Oppenheimer, Christopher Storer sem leikstýrði The Bear og Peter Hoar sem leikstýrði The Last of Us voru meðal helstu verðlaunahafa á hátíð samtaka kvikmynda- og sjónvarpsleikstjóra, Directors Guild of America eða DGA. Hátíðin var haldin í 78. sinn og fór fram í Hollywood um helgina.

Christopher Nolan var verðlaunaður fyrir bestu leikstjórn kvikmyndar en í frétt The Variety kemur fram að þetta geri Nolan sigurstranglegasta leikstjórann á Óskarsverðlaunahátíðinni sem haldin verður 10. mars. Celine Song var valin besti leikstjóri fyrstu kvikmyndar fyrir frumraun sína Past Lives.

Peter Hoar hlaut verðlaun fyrir bestu leikstjórn dramaþáttar fyrir þáttinn „Long, Long Time“ í þáttaröðinni The Last of Us en Christopher Storer var verðlaunaður fyrir bestu leikstjórn gamanþáttar fyrir þáttinn „Fishes“ í The Bear. Athygli vekur að Hoar hafi hlotið verðlaunin í flokki dramaþátta þar sem fjórir leikstjórar voru tilnefndir fyrir þætti í seríunni Succession.

Þá var leikstjóri Lessons in Chemistry, Sarah Adina Smith, og leikstjórar Saturday Night Live, Michael Mancini og Liz Patrick, einnig meðal verðlaunahafa. Í flokki heimildarmynda var Úkraínumaðurinn Mstyslav Chernov verðlaunaður fyrir 20 Days in Mariupol.

Leikstjórinn David Nutter var heiðraður með viðurkenningu fyrir afrek sín á sviði sjónvarpsleikstjórnar. Hann hefur m.a. leikstýrt The Game of Thrones og The X-Files.