Stíf Henry Cavill, Dua Lipa og John Cena sýna heldur lítil tilþrif í misheppnuðu hasargrínmyndinni Argylle.
Stíf Henry Cavill, Dua Lipa og John Cena sýna heldur lítil tilþrif í misheppnuðu hasargrínmyndinni Argylle.
Sambíóin, Smárabíó og Laugarásbíó Argylle ★★··· Leikstjórn: Matthew Vaughn. Handrit: Matthew Vaughn og Jason Fuchs. Aðalleikarar: Bryce Dallas Howard, Sam Rockwell, Henry Cavill, Bryan Cranston og Catherine O’Hara. Bretland og Bandaríkin, 2024. 139 mín.

kvikmyndir

Helgi Snær

Sigurðsson

Nýjasta kvikmynd leikstjórans Matthews Vaughns, Argylle, er stórfurðuleg og þá ekki á jákvæðan hátt. Maður veltir fyrir sér hvað hafi farið úrskeiðis í sköpunarferlinu og eftir því sem lengra líður á myndina verður hún ekki aðeins verri og leiðinlegri heldur líka skrítnari og ruglingslegri. Þetta á að heita gaman- og hasarmynd en gamanið er svo að segja ekkert en hasarinn vissulega nægur og eitt af því fáa jákvæða við myndina.

Argylle fjallar um samnefnda sögupersónu í njósnasögum rithöfundar nokkurs, Ellyar Conway (Bryce Dallas Howard). Hún hefur nýlokið við nýjustu bók sína um hinn svellkalda ofurnjósnara Argylle, sem leikinn er af Henry Cavill með einstaklega kjánalega klippingu og í forljótum flauelsjakkafötum með ógnarstórum herðapúðum. Elly er nýbyrjuð að fagna áfanganum þegar mamma hennar hringir, segist hafa lesið bókina og telur eitthvað vanta upp á endinn. Elly verður að hlýða mömmu sinni, leggur í ferðalag og lendir í stórfurðulegum og lífshættulegum uppákomum með kettinum sínum Alfie. Í lestarvagni hittir hún skrítinn náunga, Aiden (Sam Rockwell), sem reynist vera þrautþjálfaður njósnari. Aiden drepur mann og annan í lestinni og upplýsir svo furðulostna Elly um að hún sé í raun persóna í æsilegri spennusögu sem sé að raungerast með tilheyrandi njósnum, svikum og manndrápum. Enginn er sá sem hann segist vera og þá ekki heldur Aiden sjálfur. Eða hvað? Kannski, kannski ekki, það er erfitt að segja. Ekki bætir úr skák að Elly og Aiden þurfa að þvælast milli landa með kött í bakpoka sem er þó, sem betur fer, alltaf hinn rólegasti. Aiden er líka nokkur vorkunn því hann er með ofnæmi fyrir köttum.

Ekki treysti rýnir sér til að fara nánar út í söguþráðinn, til þess er hann hreinlega of skrítinn og á stundum torskilinn. Leikarar reyna að bjarga þessu sökkvandi skipi sem kvikmyndin er og Sam Rockwell sá sem best stendur sig í þeirri björgunaraðgerð, skemmtilegur að vanda. Bryce Dallas Howard gerir sitt besta sem er þó ekki nógu gott, í skrítnu hlutverki Ellyar sem er ýmist ráðvillt og skelkuð eða kaldrifjað skaðræðiskvendi.

Chip stendur sig vel

Einn besti leikari myndarinnar er kötturinn sem fer með hlutverk Alfie. Sá heitir Chip og mætti á frumsýningu myndarinnar á dögunum með eiganda sínum, fyrrverandi ofurfyrirætunni Claudiu Schiffer, en leikstjórinn Vaughn er eiginmaður hennar. Alfie er alltaf sultuslakur, í sérhönnuðum bakpoka með glugga og getur þannig fylgst með öllum hamaganginum og ofbeldinu í myndinni. Hafa dýraverndarsinnar nú látið í sér heyra og kvartað yfir illri meðferð á dýrinu, nema hvað, sem fylgt hefur Schiffer á hina ýmsu viðburði og frumsýningar. En það er önnur saga.

Henry Cavill er afar stirðbusalegur sem Argylle, í hlutverki sem hlýtur að bjóða upp á mun spaugilegri túlkun. Vöðvatröllið John Cena fær lítið að gera og Dua Lipa, poppsöngkonan kunna, kemur stutt við sögu sem skaðræðiskvendi og er leikur hennar stirður, líkt og svo margra annarra. Bryan Cranston er hins vegar fínn í hlutverki illmennis líkt og Catherine O’Hara.

Lýsingin hér að ofan bendir til þess að hér sé súrrealísk gamanmynd á ferð og það átti hún líklega að vera en er þó ekki. Hasaratriðin eru ýmist fáránlega súrrealísk eða frekar jarðbundin og ofbeldið mjög gróft. Vaughn virðist ekki geta hamið sig þegar kemur að subbulegum ofbeldisatriðum, eins og má t.d. sjá í kvikmynd hans The Kingsman. En flest eru þau þó ágætlega framkvæmd og jafnvel spaugileg og það fáa jákvæða við myndina. Undir lokin er gefið í skyn að framhald sé í bígerð sem er þó vonandi ekki raunin. Ein Argylle er nóg.