Fulltrúar breiðfylkingar verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins, SA, eiga í óformlegum samskiptum sín á milli um gerð nýs kjarasamnings, eftir að upp úr…

Fulltrúar breiðfylkingar verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins, SA, eiga í óformlegum samskiptum sín á milli um gerð nýs kjarasamnings, eftir að upp úr slitnaði í samningaviðræðum fyrir helgi. Ekki hefur þó verið boðað til formlegs fundar í Karphúsinu.

„Það verður að koma í ljós, það er einlæg von mín að svo verði,“ sagði Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri SA, spurð hvort líkur væru á að aðilar yrðu boðaðir til fundar í vikunni.

Spurð um höfnun SA á forsenduákvæði um stýrivexti Seðlabankans, þ.e. að kjarasamningur væri uppsegjanlegur lækkuðu stýrivextir ekki um a.m.k. 2,5% á næstu 14 til 15 mánuðum, segir Sigríður Margrét ástæðu hennar þá að slíkt ákvæði gæti gengið gegn hagsmunum launafólks. „Værum við með ákvæði sem tengdist vaxtaákvörðunum bankans í kjarasamningi, t.d. að laun myndu hækka ef vextir myndu hækka, þá gæti það haft þau áhrif að bankinn þyrfti að gefa í í vaxtahækkunum. Ef stýrivextir eru samningsatriði í kjarasamningum þá gerir það bankanum erfiðara um vik en ella að tryggja kaupmátt launa.“