Endurkoma Sveindís var að glíma við rifu í hnéskeljarsin og var frá í fjóra mánuði en hún er klár í slaginn fyrir umspilsleikina gegn Serbíu.
Endurkoma Sveindís var að glíma við rifu í hnéskeljarsin og var frá í fjóra mánuði en hún er klár í slaginn fyrir umspilsleikina gegn Serbíu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýskaland Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Knattspyrnukonan Sveindís Jane Jónsdóttir er mætt aftur á knattspyrnuvöllinn eftir langvarandi meiðsli en hún lék aðeins fyrsta leik félagsliðs síns, Wolfsburg, fyrir áramót á yfirstandandi tímabili.

Þýskaland

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Knattspyrnukonan Sveindís Jane Jónsdóttir er mætt aftur á knattspyrnuvöllinn eftir langvarandi meiðsli en hún lék aðeins fyrsta leik félagsliðs síns, Wolfsburg, fyrir áramót á yfirstandandi tímabili.

Sveindís, sem er 22 ára gömul, lék ekkert með íslenska landsliðinu í 3. riðli Þjóðadeildar UEFA vegna meiðsla en hún er í leikmannahópi íslenska liðsins fyrir umspilsleikina gegn Serbíu, dagana 23. og 27. febrúar, þar sem sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar og A-deild undankeppni EM 2025 er í húfi.

„Ég er byrjuð að æfa af fullum krafti og mér líður mjög vel í líkamanum þannig að ég myndi segja að ég væri orðin mjög góð af þessum meiðslum,“ sagði Sveindís í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta er í rauninni í fyrsta skiptið sem ég lendi í einhverjum alvarlegum meiðslum á mínum ferli og ég held að ég geti alveg fullyrt það að ég hef aldrei verið svona lengi frá áður vegna meiðsla. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá er þetta búið að vera alveg hundleiðinlegt. Ég hef ekkert getað æft en á sama tíma er ég búin að eyða mjög miklum tíma í lyftingasalnum og í ræktinni sem er ekkert frábært enda miklu skemmtilegra að vera úti á velli. Þetta var því tvöfalt áfall, getum við sagt, enginn fótbolti og mikið í ræktinni,“ sagði Sveindís og hló.

Gat ekki meira

Sveindís glímdi við meiðsli í hné þar sem hún var með rifu í hnéskeljarsin og héldu þau henni frá keppni í tæplega fjóra mánuði.

„Þetta var allt saman mjög spes og ég fékk í raun aldrei neina niðurstöðu almennilega, varðandi það hvað var að hrjá mig, fyrr en fyrir einhverjum tveimur mánuðum síðan. Ég veit heldur ekki alveg hvernig þetta gerðist en það má alveg flokka þetta sem álagsmeiðsli að einhverju leyti. Það kom í ljós fyrir tveimur mánuðum að sin í hnjáskeljarliðnum væri rifin.

Ég var búin að finna eitthvað fyrir þessu í einhvern tíma en gat samt hlaupið og æft. Á endanum varð sársaukinn það mikill að ég gat ekki meir. Ég fór þá í myndatöku og þá kom rifan í ljós og það var ekki langt í að hún myndi slitna alveg og hún hefði eflaust gert það ef ég hefði haldið áfram af fullum krafti. Ég átti að taka því rólega í átta vikur, sem urðu að lokum fjórir mánuðir þar sem þetta tók bara það langan tíma að gróa.“

Aldrei í jafn góðu formi

Þrátt fyrir að Sveindís hafi ekki getað spilað fótbolta var hún mjög dugleg að hlaupa og var samviskusöm á meðan hún var frá keppni vegna meiðsla.

„Ég byrjaði snemma að geta skokkað og ég er í rauninni bara búin að vera í einhverjum útihlaupum síðan í nóvember, sem minnir mann aðeins á gamla góða Ísland og undirbúningstímabilið heima. Ég gerði svo styrktaræfingar daglega og liðleikaæfingar líka og ég held satt best að segja að ég hafi aldrei verið í jafn góðu formi og ég er í núna.

Það má alveg segja sem svo að ég sé ný manneskja að einhverju leyti. Það er komið inn í daglegu rútínuna hjá mér núna að gera bæði styrktar- og liðleikaæfingar og ég finn að þetta er að hjálpa mér mjög mikið. Ég er byrjuð að hugsa miklu betur um mig en ég gerði þannig að það kom ýmislegt jákvætt út úr annars leiðinlegum meiðslum.“

Þungt yfir öllu liðinu

Eins og áður sagði lék Sveindís aðeins einn deildarleik með Wolfsburg fyrir áramót en hún hefur verið í lykilhlutverki hjá þýska stórliðinu undanfarin tvö tímabil.

„Það var mjög erfitt að fylgjast með Wolfsburg á hliðarlínunni, sérstaklega leikjunum í Meistaradeildinni. Við töpuðum auðvitað fyrir París FC í umspili um sæti í riðlakeppninni og það var erfitt að kyngja þeim úrslitum. Það var mjög þungt yfir liðinu eftir umspilsleikina en við komumst yfir það og liðið komst á gott skrið í deildinni.

Staðan er bara þannig núna að við þurfum að vinna þá leiki sem við eigum eftir, ef við ætlum okkur að verða Þýskalandsmeistarar, og það er að sjálfsögðu markmiðið. Við eigum ennþá eftir að mæta Bayern München á okkar heimavelli og það verður allt undir í þeim leik. Þó svo að við séum ekki í Meistaradeildinni þá er hellingur sem við höfum að keppa að og við ætlum að vinna þá bikara sem í boði eru.“

Gerir okkur að betra liði

Bayern München situr sem stendur á toppi þýsku 1. deildarinnar með 33 stig en Wolfsburg fylgir fast á hæla Þýskalandsmeisturunum og er með 32 stig. Þá er Wolfsburg einnig komið áfram í 8-liða úrslit þýsku bikarkeppninnar þar sem liðið mætir Hoffenheim.

„Ef við horfum á jákvæðu hliðarnar á þessu þá fáum við mun meiri tíma núna á milli leikja en ef við værum í Meistaradeildinni. Við eyðum þar af leiðandi meiri tíma á æfingasvæðinu þótt það sé auðvitað alltaf skemmtilegra að keppa en æfa en ég er að reyna að horfa á þessa jákvæðu punkta. Við getum lagt meiri áherslu á þá hluti sem við þurfum að laga og það gerir okkur að betra liði fyrir vikið.

Annars hefur endurkoman hjá mér gengið mjög vel finnst mér. Ég kom beint inn í þetta eftir vetrarfríið og er búin að ná að spila einhverja fjóra æfingaleiki sem var gott. Ég náði líka að skora sem er gott upp á sjálfstraustið að gera og ég hef svo spilað gegn Leverkusen og Eintracht Frankfurt þannig að ég er bara komin á fullt aftur, sem betur fer, ef svo má segja.“

Líður vel í Wolfsburg

Sveindís er á sínu þriðja tímabili með þýska stórliðinu en hún varð Þýskalandsmeistari með liðinu á sínu fyrsta tímabili, bikarmeistari í fyrra og þá lék hún til úrslita í Meistaradeildinni gegn Barcelona á síðustu leiktíð þar sem Wolfsburg tapaði naumlega fyrir Barcelona í úrslitaleik í Eindhoven í Hollandi, 3:2.

„Mér líður mjög vel hjá Wolfsburg og þetta er frábært félag í alla staði. Þjálfararnir hérna eru frábærir líka og þeir eru nokkuð léttir á því, þótt það sé auðvitað mikil alvara á æfingasvæðinu og í kringum leikina. Þeir eru samt mannlegir sem mér finnst skipta miklu máli og það er hægt að tala við þá um eitthvað annað en fótbolta.

Ég hélt að þetta yrði allt öðruvísi þegar ég kom hingað fyrst og að alvarleikinn yrði meiri. Mér líður líka mjög vel í bænum og hér er allt til alls, allavega fyrir mig. Ég er alveg viss um að ég myndi horfa jafn mikið á sjónvarpið þótt ég væri í Berlín eða einhverri annarri stórborg þannig að ég hef það mjög gott hérna og er ánægð með lífið.“

Spennt fyrir landsliðinu

Sveindís er mætt aftur í landsliðið eftir langa fjarveru en hún er lykilmaður í sóknarleik íslenska liðsins og á að baki 32 landsleiki þar sem hún hefur skorað átta mörk.

„Ég er mjög spennt að spila aftur fyrir landsliðið og ég hlakka mikið til að hitta stelpurnar aftur. Það eru tveir mjög mikilvægir leikir fram undan hjá okkur sem við ætlum okkur að sjálfsögðu að vinna til þess að halda sæti okkar í A-deildinni. Það var mjög erfitt að fylgjast með liðinu í sjónvarpinu og það var extra svekkjandi að spila ekki gegn Þýskalandi í Þjóðadeildinni enda margir liðsfélagar mínir í Wolfsburg í stórum hlutverkum hjá þýska liðinu.

Það hefur verið mikil stígandi í leik íslenska liðsins, að mínu mati, í undanförnum leikjum og það var frábært hjá þeim að vinna Danina á þeirra eigin heimavelli. Við munum að sjálfsögðu taka allt það jákvæða úr þeim leik með okkur inn í umspilsleikina gegn Serbíu en markmiðið núna er fyrst og fremst að halda sér heilli fyrir þessa Serbíuleiki og spila vel í umspilinu,“ sagði Sveindís í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason