Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
„Það er gott að koma heim, minna drengina sína á að þeir eigi pabba og spila á heimavelli,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson sem er nýkominn heim úr rúmlega þriggja vikna ferðalagi um Bandaríkin og Kanada. Er það einn leggur tónleikaferðalags þar sem hann leikur Goldberg-tilbrigði Bachs sem finna má á nýrri plötu. Hann kemur fram á þrennum tónleikum í Eldborg í vikunni og fagnar með þeim fertugsafmæli sínu sem er í dag, 14. febrúar.
„Þetta var svolítið brjáluð hugmynd að bæta þessu ofan á afmælisdaginn sjálfan en að sama skapi kannski besta leiðin til að takast á við nýjan áratug og þá einkennilegu tilfinningu sem fylgir því að verða fertugur. Þetta verk breytist með manni frá tónleikum til tónleika, frá mánuði til mánaðar, frá árstíð til árstíðar. Maður er alltaf að gera tilbrigði við tilbrigðin með því að spila þau. Það er svo merkilegt að maður er alltaf að finna það upp á nýtt, bæði hvað mann sjálfan varðar og tónlistina en líka rýmið sem maður er í, flygilinn og áhorfendurna. Allt þetta er svo síbreytilegt,“ segir Víkingur.
Mikilfenglegasta tónverkið
„Þessi tilbrigði eru þannig að þau eru mikilfenglegasta hljómborðsverk sögunnar og í mínum skilningi mikilfenglegasta tónverkið af því að þau eru svo þversagnakennd. Þau eru mikilfenglegasti tónlistarstrúktúr sem ég hef séð. Bach skapar óendanlega mikið úr mjög takmörkuðum efnivið, bara nokkrum hljómum í þessari aríu. Hann skrifar eiginlega ekkert um það hvernig maður eigi að ljá þessum nótum líf þannig að það er alveg ótrúlega opið fyrir túlkandann. Þess vegna eru svo margir vegir færir og engin þörf á að endurtaka sig. Ég held ég sé kannski búinn að spila verkið fimmtíu og eitthvað sinnum, ég er eiginlega hættur að telja, en ég er mjög langt frá því að vera kominn með nóg af því. Ég finn alltaf eitthvað nýtt.“
Spurður hvort tilefni sé til þess að taka verkið upp aftur segir Víkingur: „Ég er að spá í það. Einar Falur [Ingólfsson] skrifaði einmitt voða fallega grein í Morgunblaðið um New York-ævintýrið mitt í síðustu viku. Hann sagði að ég yrði að hljóðrita verkið aftur og ég held ég verði að hlýða honum. Ég er alla vega mjög mikið að íhuga það.“
Flutningur Víkings hefur fengið afbragðsdóma, sem dæmi sagði gagnrýnandi The Spectator að Goldberg-krúnan væri komin á höfuð Víkings eftir að píanóstjarnan Glenn Gould hefði borið hana lengi vel. „Í hreinskilni sagt þá er ég hættur að lesa þessa dóma. Ég sá samt stóra dóminn sem var í New York Times því honum var póstað svo mikið svo ég komst ekki hjá því að lesa hann. Manni þykir svo vænt um þetta. Það að spila Bach er það persónulegasta sem þú getur gert í klassískri tónlist því þú kemur með svo mikið af sjálfum þér inn í túlkunina og ekki hægt að fela sig á bak við fyrirframgefna hefð.“ Góðar viðtökur segir hann því ekki sjálfgefnar og því hafi þetta komið honum „þægilega á óvart“.
Goldberg-túristar
„Það er fallegt hvað það er greinilegt að fólk þráir Bach í líf sitt, alls staðar í heiminum, og hvað tilbrigðin tala sterkt til áheyrenda. Það er eiginlega alls staðar uppselt. Það er gott að upplifa það því þegar Bach skrifar verkið þá er hann held ég afskaplega einmana í listinni. Hann er dottinn úr tísku og aðrir straumar hafa tekið yfir. Hann skrifar þetta mikilvægasta hljómborðsverk sögunnar fyrir sjálfan sig – og fyrir skúffuna liggur við. Ég hugsa mikið um það hvar Bach hefur verið staddur í lífi sínu og líðan sinni þegar hann skapar eitthvað á þessum kvarða sem átti ekkert erindi á hans tímum. En nú er árið 2024 og erindi Bachs hefur aldrei verið stærra.“
Víkingur segir marga hafa farið á fleiri en eina Goldberg-tónleika hjá honum. Hann nefnir sem dæmi mann sem hann hitti í Toronto og hafði farið á hvora tveggja tónleikana sem hann hélt þar í borg. „Svo sagði hann: „Við sjáumst svo í Carnegie Hall í næstu viku og í Eldborg í vikunni þar á eftir.“ Það hafa orðið til svona Goldberg-túristar. Fólk er farið að átta sig á því að verkið er aldrei eins, hvorki hvernig ég spila það né hvernig maður heyrir það sjálfur. Það hvernig maður upplifir það er alveg jafn frjótt og hvernig maður spilar það. Hlustunin er svo skapandi.“
Draumur rættist í New York
Í síðustu viku spilaði Víkingur í Carnegie Hall í New York. „Þetta var síðasta stóra sviðið sem ég átti eftir, síðasta debútið mitt. Ég var búinn að gera allt annað sem mig hefur dreymt um síðan ég var strákur. Svo það var ágætt að ná þessu áður en ég verð fertugur. Þetta hefur kannski sérstaka merkingu af því að ég var mikið þarna þegar ég var í námi. Þá var ég uppi á fjórðu svölum á einhverjum tíu dollara nemendamiðum og uppgötvaði svo margt í fyrsta sinn sem 18 og 19 ára krakki. En núna var ég í besta sætinu í salnum, við flygilinn. Það var einstaklega góð upplifun. Að einhverju leyti leið mér eins og þetta væri ekki alveg nýtt fyrir mér, svolítið eins og þetta væri heimili mitt.“
Víkingur segir fleiri hápunkta hafa verið á tónleikaferðalaginu, til dæmis tónleika í Fílharmóníunni í Berlín og Royal Festival Hall í London. „Það er margt sem maður getur verið þakklátur fyrir en samt held ég að Carnegie Hall hafi kannski einhvers konar vinning þegar ég horfi til baka.“
Tónleikarnir verða 95 alls og því nóg fram undan. Eftir svolitla hvíld á Íslandi er förinni heitið til Ástralíu og svo tekur við Suður-Ameríku, Kína, Mið-Austurlönd og vesturströnd Bandaríkjanna. „Þessu lýkur svo með tónleikum í Elbfílharmóníunni í Hamborg í júní. En nú er það Eldborg og nýi flygillinn sem ég grét út úr ríkisstjórn Íslands fyrir tveimur árum.“ Hann bætir við að tónleikarnir verði í beinni útsendingu í sjónvarpinu og segist þakklátur fyrir það. „Það er alltaf eitthvað einstakt að spila heima, fyrir svona marga Íslendinga. Það fylgir því alveg sérstök tilfinning.“