Nýsveinahátíð Halldór Þ. Halldórsson, formaður Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, á Hótel Natura.
Nýsveinahátíð Halldór Þ. Halldórsson, formaður Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, á Hótel Natura. — Ljósmynd/Motiv – Jón Svavarsson
Árleg Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík vekur gjarnan athygli en á 157. afmælisdeginum 3. febrúar sl. fór hún fram í 17. sinn. Hátíðin var á Reykjavik Natura – Berjaya Iceland Hotels og voru 20 nýsveinar verðlaunaðir fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi í fyrra

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Árleg Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík vekur gjarnan athygli en á 157. afmælisdeginum 3. febrúar sl. fór hún fram í 17. sinn. Hátíðin var á Reykjavik Natura – Berjaya Iceland Hotels og voru 20 nýsveinar verðlaunaðir fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi í fyrra. „Markmið félagsins, sem var stofnað 1867, er að stuðla að menntun og námi iðnaðarmanna og við höfum heiðrað 370 nýsveina auk meistara þeirra frá fyrstu hátíðinni 2007,“ segir Halldór Þórður Halldórsson formaður IMFR. Á sama tíma hafa 17 manns verið útnefndir heiðursiðnaðarmenn.

Sveinsprófsnefndir fagfélaganna tilnefna einn eða tvo sveina, sem eru síðan heiðraðir með silfur- eða bronsverðlaunapeningi félagsins á hátíðinni. Heiðursiðnaðarmaður ársins fær gullpening fyrir afburða árangur í iðn sinni og framlag í fræðslu og framförum. Forseti Íslands er verndari hátíðarinnar og afhendir verðlaunin. Auk þess heiðra ráðherrar mennta og iðnaðar hverju sinni nýsveinana með nærveru sinni. „Þetta er mjög hátíðleg athöfn, vekur mikla athygli og auk verðlaunapeninganna færum við sveinunum smá gjöf að auki,“ segir Halldór.

Skiptir miklu máli

Í nýjasta verðlaunahópnum eru nýsveinar í blikksmíði, framreiðslu, gull- og silfursmíði, húsasmíði, ljósmyndun, matreiðslu, múraraiðn, prentsmíði, rafeindavirkjun, rafvirkjun, rennismíði og snyrtifræði. Við sama tækifæri verðlaunaði Nemastofa atvinnulífsins fjögur fyrirtæki – Bílaumboðið Öskju, Marel, Snyrtistofu Ágústu og Hasar ehf. – fyrir frábæran árangur í þjálfun og menntun iðnnema.

Viðurkenningin skiptir nýsveina mikilu máli. Halldór bendir á að hún sé skráð á ferilskrá þeirra og sé til vitnis um að þeir hafi verið heiðraðir fyrir vönduð vinnubrögð og gott nám. „Við höfum hvatt sveinana til þess að láta viðkomandi vita af þessum heiðri og fari þeir í frekara nám erlendis geta þeir sótt um styrk hjá okkur úr sérstökum sjóði.“

Fimm manns eru í stjórn IMFR og þrír í varastjórn. Auk þess eru fimm í viðburðanefnd. Halldór leggur áherslu á að þetta fólk og reyndar fleiri leggi mikið á sig í sjálfboðaliðastarfi fyrir félagið, en Nýsveinahátíðin sé helsta verkefni IMFR. „Við tökum þátt í norrænu samstarfi og sækjum samnorræna fundi um málefni sem snúa að iðnaðarmannafélögunum, og í júní á næsta ári er það hlutskipti okkar að halda slíkan fund,“ segir Halldór og bætir við að búast megi við 50 til 60 manns að utan á viðburðinn. „Undirbúningur er þegar hafinn,“ segir hann.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson