Það var um þetta leyti árs árið 2008 að uppi varð fótur á fit á Sofitel-hótelinu, skammt frá heimili mínu hér í Bangkok, þegar lögreglumenn streymdu þangað inn til að handtaka rússneska vopnasalann Viktor Bout. Þvert á vilja rússneskra stjórnvalda var hann framseldur til Bandaríkjanna og dæmdur til 25 ára fangelsisvistar fyrir að skaffa hryðjuverkahópum ógrynni vopna.
Bout fékk að dúsa í bandarísku fangelsi þar til í desember 2022 að hann var sendur aftur heim til Rússlands í skiptum fyrir íþróttakonuna Brittney Griner, en eins og lesendur muna var hún nöppuð á flugvellinum í Moskvu eftir að tollverðir fundu á henni smáræði af kannabis.
Í dag er Bout frjáls maður og fréttist síðast af honum á leið í framboð fyrir þjóðernisflokk Vladimírs Zhirinovskys heitins. Ef Bout er byrjaður að braska aftur með vopn virðist honum takast að fara leynt með það, en gömlu kúnnarnir í löndum á borð við Angóla, Rúanda, Líberíu og Afganistan eru hvort eð er meira eða minna horfnir af sjónarsviðinu.
Nicolas Cage á stórleik í kvikmyndinni Lord of War sem byggir í grófum dráttum á lífshlaupi Bout, en það er greinilegt af öllum lýsingum að vopnasalinn og ævintýramaðurinn dularfulli er fluggáfaður, býr yfir miklum persónutöfrum og eflaust væri ekki leiðinlegt að setjast niður með honum yfir kaffibolla.
Kvikmyndin skautar yfir það að þrátt fyrir að hafa valið sér starfsvettvang sem mörgum þætti ekki nema við hæfi ljótustu fauta og illmenna er Bout bæði grænkeri og mikill umhverfisverndarsinni, og hefur verulegar áhyggjur af framtíð regnskóga Afríku. Áður en hann gerðist einn umsvifamesti vopnasali heims hafði Viktor Bout látið sig dreyma um að gera náttúrulífsmyndir.
Svona geta örlög fólks og aðstæður beint þeim inn á undarlegar brautir í lífinu: Það sem við gerum til að draga björg í bú er ekki alltaf í samræmi við okkar dýpstu gildi, björtustu vonir og þrár.
Með sérhagsmuni við samningaborðið
Saga Bouts rifjaðist upp fyrir mér við lestur frétta um fjárhag leiðtoga Hamas-samtakanna. Topparnir hjá Hamas minna okkur á að það getur gefið afskaplega vel í aðra hönd að styðja vondan málstað og viðhalda vandamálunum frekar en að leysa þau.
Er leiðinlegt til þess að hugsa að fyrir aldarfjórðungi virtist vera að takast að stilla til friðar fyrir botni Miðjarðarhafs og sumir gengu svo langt að fullyrða að Gaza hefði alla burði til að verða eins og Singapúr. Gallinn var að það þjónaði stundarhagsmununum betur að smíða skotflaugar og grafa göng neðanjarðar en að byggja upp blómlegt hagkerfi ofanjarðar.
Til að skilja betur þá hvata sem koma við sögu í Gaza er áætlað að Hamas velti árlega meira en milljarði dala og að persónuleg auðæfi stjórnenda samtakanna hlaupi á mörgum milljörðum dala. Þeir sem tróna á toppi skipuritsins búa í góðu yfirlæti utan Gaza, á stöðum eins og Katar, og hagsmunir þeirra eru allt aðrir en hagsmunir vesalings fólksins sem núna þarf að þola sprengjuregn Ísraelshers. Reyndar á það við um alla sem fá sinn skerf af Hamas-kökunni, frá þeim lægsta til þess hæsta, að þeir vita það mætavel að ef tækist að koma á friðsamlegri sambúð með Ísrael myndu sjóðirnir tæmast. Að ala á spennu og átökum, og viðhalda eymd Gazabúa, þýðir að þeir sem eru á framfæri Hamas fá sitt – svo langt sem það nær.
Hinum megin borðsins má vitaskuld líka finna fólk sem stjórnast af þröngum eiginhagsmunum, og er enginn skortur á tækifærissinnum í ísraelskum stjórnmálum sem vilja ala á sundrungu og ofbeldi. Ariel Sharon vissi t.d. alveg hvað hann var að gera þegar hann arkaði upp á Musterishæðina í september 2000 til að ögra íbúum Palestínu. Það sauð strax upp úr og logaði í illdeilum í nokkur ár á eftir – en í kosningunum vorið 2001 rakaði Sharon til sín fylginu og ríghélt í forsætisráðherrastólinn allt þar til heilsan gaf sig fimm árum síðar.
Svona er mannlegt eðli einfaldlega, og leitun að þeirri manneskju sem væri fús að fórna sínum eiginhagsmunum – sem eru áþreifanlegir og greinilegir – fyrir óljósa hagsmuni heildarinnar. Þegar lífsviðurværið er í húfi er hætt við að göfugar hugsjónir fari út í veður og vind.
Ég býð ekki upp á neina lækningu við þessum breyskleika. Það eina sem hægt er að gera er að nálgast vandamál samfélagsins með augun opin fyrir því að sumir sem hlut eiga að máli hafa lítið á því að græða að leysa vandamálin eða einfaldlega ná umræðunni niður á jörðina.
Í þessu sambandi koma loftslagsiðnaðurinn, jafnréttisiðnaðurinn og flóttamannaiðnaðurinn upp í hugann. Skyldi t.d. enginn segja mér að COP-ráðstefnur Sameinuðu þjóðanna séu ekki fyrst og fremst viðskiptaviðburðir.
Svona er þetta bara: Visa-reikningurinn og fasteignalánin borga sig ekki sjálf, og það geta ekki allir látið það eftir sér að gera náttúrulífsmyndir.