„Já, það er rétt, við gerðum breytingu á stofnanasamningi, sem er ekki gert einhliða, þar sem samið er við viðkomandi stéttarfélög um að gera breytingu á stofnanasamningi,“ segir Snorri Olsen ríkisskattstjóri í samtali við ViðskiptaMoggann. Eins og greint var frá í fyrradag hefur Skatturinn afnumið viðbótarlaunarkerfi starfsmanna, sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu. Í tilkynningu á vef Skattsins kom fram að gagnrýni og umfjöllun um eðli og framkvæmd viðbótarlaunakerfisins hefði „miðað að því að draga úr trúverðugleika skattyfirvalda og varpa rýrð á störf þeirra“ eins og það var orðað.
Í fyrrnefndri tilkynningu kemur fram að Skatturinn hafi samið við aðildarfélög BHM um breytingu á kjarasamningi sem tekur gildi frá og með síðustu áramótum. Ekki er greint nánar frá innihaldi þess samnings en Snorri segist gera ráð fyrir að hann verði birtur á vef BHM. Að sögn Snorra mun nýi samningurinn ekki segja mikið annað en að bætt sé inn starfsaldursþrepum og umræddur kafli, sem finna mátti í fyrri stofnanasamningi og fjallaði um viðbótarlaunin, detti út. Aðspurður segir Snorri að Skatturinn sé að afnema kerfið vegna þess að umfjöllunin hafi verið neikvæð og starfsmenn embættisins hafi fengið hótanir. Hann vill þó ekki gefa upp hvers eðlis þær hótanir hafi verið.
Morgunblaðið hafði eftir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur fjármálaráðherra í lok janúar að hún teldi bónusgreiðslur til starfsmanna Skattsins óeðlilegar og myndi óska eftir frekari upplýsingum. Spurður um það segir Snorri að ráðuneytið hafi kallað eftir upplýsingum og að embættið hafi farið yfir málið á fundi í ráðuneytinu. Þá neitar Snorri því að fjárhæðarmarkmið séu sett á deildir Skattsins, sem stangast á við heimildir ViðskiptaMoggans, og kveðst algjörlega sannfærður um að ákvarðanir um endurálagningu eða rannsóknir mála hafi ekki ráðist af von um bónusgreiðslu.
Ekki nóg að afnema kerfið
Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður segir í samtali við ViðskiptaMoggann að ekki sé nóg að Skatturinn afnemi eingöngu viðbótarlaunakerfið.
„Í tilkynningunni felst ákveðin viðurkenning Skattsins á að þetta fyrirkomulag standist ekki skoðun og að fenginni þeirri niðurstöðu hljóti að vera rétt að endurupptaka þá mál sem þetta launafyrirkomulag snertir,“ segir Páll Rúnar.
„Ef dæmi fyrirfinnast þess að við endurákvörðun gjalda hafi einhvers konar bónusgreiðslur komið til þarf að endurupptaka þau mál. Ef fjármálaráðuneytið eða Skatturinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að viðbótarlaunakerfið rýri trúverðugleika stofnunarinnar hlýtur það að vera eðlilegt framhald að endurupptaka málin ef svo ber undir.“
Að hans mati er það óeðlilegt að Skatturinn setji sér fjárhæðarmarkmið eins og heimildir ViðskiptaMoggans herma að hann geri.
„Í fyrsta lagi setur það aðila með stórar fjárhæðir í mikla hættu á að verða fyrir röngum ákvörðunum. Í öðru lagi skapar það líka hættu á að þeir aðilar sem eru með lægri fjárhæðir, en fremja samt grófari brot, sleppi,“ segir Páll Rúnar.
„Þessu verkfyrirkomulagi virðist hafa verið haldið við sem hvatningu innan einstakra deilda til að ná ákveðnum markmiðum í endurálagningu. Það skekkir hlutleysisregluna sem eftirlitsstofnun verður að hafa. Það eitt og sér er algjörlega óviðunandi. Þegar við bætist að starfsmenn fá kaupauka fyrir að ná þessum markmiðum er það enn verra,“ segir Bjarnfreður Ólafsson, hæstaréttarlögmaður og meðeigandi Logos, í samtali við ViðskiptaMoggann, inntur eftir viðbrögðum við tilkynningu Skattsins um að afnema viðbótarlaun starfsmanna. Aðspurður segir Bjarnfreður að það hafi verið það eina í stöðunni fyrir stofnunina að afnema viðbótarlaunakerfið.
Ragnar Guðmundsson, lögmaður og sérfræðingur í skattarétti hjá ADVEL, kveðst sammála Bjarnfreði og segir að í almennum skilningi sé viðbótarlaunakerfi til þess fallið að draga úr trúverðugleika embættisins. Hann telur slíkt launafyrirkomulag fráleitt.
„Að mínu mati á markmið embættisins að vera að ná réttri skattlagningu á réttum lagagrunni. Það orkar tvímælis að vera einnig með fjárhæðamarkmið, og alveg sérstaklega þegar kemur að endurákvörðunum. Ég set stórt spurningarmerki við þá hugsun alla,“ segir Ragnar í samtali við ViðskiptaMoggann. Hann bætir því við að þrátt fyrir að stofnunin segist hafa afnumið viðbótarlaunakerfið hafi embættið ekki hafnað því að enn sé litið til fjárhæðarmarkmiða og væntanlega þá einnig varðandi mat á frammistöðu einstakra starfsmanna.
„Ásýndin hefur verið sú, vegna viðbótalaunakerfisins og fjárhæðamarkmiðanna, að einstakir starfsmenn embættisins virðast á undanförnum árum hafa getað haft fjárhagslega hagsmuni af því að úrskurða með tilteknum hætti í einstökum málum. Það vekur upp mjög stórar spurningar, svo ekki sé fastar að orði kveðið, út frá almennum hæfisreglum laga. Það skiptir í raun ekki máli lagalega hvort einstaklingar hafi hagnast á ákvörðunum sínum, það er að mínu mati nóg að sá möguleiki sé til staðar til að valda vanhæfi starfsmanns,“ segir Ragnar.
Sérstök frammistaða
Í ljósi þess að Skatturinn hefur ákveðið að afnema viðbótarlaunin, m.a. vegna umfjöllunar, er tilefni til að rifja upp umfjöllun ViðskiptaMoggans og Morgunblaðsins á viðbótarlaunum starfsmanna Skattsins og þeirri gagnrýni sem slíkt hvatakerfi fékk í kjölfar þeirrar umfjöllunar. Í janúar var greint frá því að starfsmenn Skattsins gætu unnið sér inn bónusgreiðslur sem gátu skipt hundruðum þúsunda, á grundvelli stofnanasamnings sem embættið gerði við Kjarafélag Viðskipta- og hagfræðinga (KVH) og fleiri stéttarfélög haustið 2021. Þeir sem þekkja til stofnanauppbyggingar töldu það orka tvímælis að tiltekið ákvæði samningsins verðlaunaði starfsmenn ef þeir sýndu sérstaka eða framúrskarandi frammistöðu í vinnu sinni. Með þessum hætti gætu starfsmenn Skattsins unnið sér inn sérstök viðbótarlaun eða bónusgreiðslur tvisvar á ári, ef þeir skiluðu sérstöku eða framúrskarandi vinnuframlagi í þágu embættisins á grundvelli áðurnefnds ákvæðis.
Einnig var fjallað um frásagnir um að Skatturinn setti sér markmið um endurálagningu sem stofnunin hefur ætlað sér að ná með eftirliti, og heimildir ViðskiptaMoggans herma að fjárhæðarmarkmið hafi verið hengd upp á vegg hjá einstökum deildum Skattsins. Ef starfsmaður næði endurákvörðun í einhverju máli sem væri til meðferðar hjá þeirri deild lækkaði viðkomandi fjárhæðina sem hefði náðst með því endurákvarða skatta hjá tilteknum aðila. Með því móti ynni starfsfólkið saman til þess að lækka töluna sem upphaflega hefði verið sett.
Viðmælendur töldu það valda áleitnum spurningum ef tenging væri á milli þess að hjá stofnuninni væru sett markmið um fjárhæðir á endurálagningu við að endurheimta þær fjárhæðir og hvort þær upphæðir hefðu áhrif á fyrrnefnda bónusa, þá sérstaklega ef bónusarnir væru tengdir saman við nýleg mál embættisins sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Þá var greint frá efasemdum um að eftirlitsstofnun eins og Skatturinn væri með innbyggt hvatakerfi til þess að ná fjármunum í ríkiskassann og í vasa starfsmanna, og slíkt kerfi væri ekki til þess fallið að mál leiddi til réttra skattskila. Viðmælendur blaðsins bentu á að ef rétt reyndist að tenging væri á milli hvatakerfisins og fjárhæðar markmiðsins sem skatturinn setur á sínar deildir væri það með öllu óeðlilegt og færi gegn markmiðum laga.
Í því sambandi var bent á að hægt væri að gefa sér að fyrir starfsmenn sem væru tiltölulega nýlega byrjaðir gætu slíkir bónusar skipt sköpum og verið til þess fallnir að hafa áhrif á dómgreind og ákvarðanatöku þeirra ef um háar fjárhæðir væri að ræða, þrátt fyrir að málatilbúnaðurinn kynni að vera á veikum grunni reistur.
Kappið beri starfsmenn ofurliði
Þeir sem þekkja vel til skattamála veltu því einnig fyrir sér hvort fjárhæðir í málum sem væru til meðferðar hjá Skattinum réðu meiru en rétt skattskil, sérstaklega út frá því hvernig málin væru meðhöndluð. Ef Skatturinn tæki til meðferðar mál þar sem háar fjárhæðir væru undir gengi stofnunin iðulega eins langt og hægt væri án þess að gæta meðalhófs eða taka tillit til fyrirliggjandi gagna sem væru fyrirtækjum og einstaklingum til hagsbóta.
Þá var bent á það að Skatturinn hefði að undanförnu verið að spila sóknarbolta sem margir ættu bágt með að skilja. Í framangreindu samhengi var vísað til þess að Skattinum ber sem stjórnvaldi samkvæmt meðalhófsreglunni að tryggja að rannsókn mála væri framkvæmd með það fyrir augum að horfa til sektar og sýknu. Þeirra reynsla segði að í málum þar sem háar fjárhæðir væru til skoðunar virtist embættið fremur kjósa að líta framhjá þeirri meginreglu og ganga eins langt og hægt væri. Af því leiddi að launabónusar gætu verið til þess fallnir að skapa hættu á að kappið bæri starfsmenn ofurliði, á kostnað þess að farið væri eftir settum lögum og reglum.
Í því sambandi var vísað í erindi Halldórs Halldórssonar, forstjóra Íslenska kalkþörungafélagsins, á Skattdeginum sem haldinn var í byrjun janúar, þar sem hann gagnrýndi harðlega framgöngu Skattsins gagnvart fyrirtækinu. Í erindi sínu og í samtali við Morgunblaðið sagði Halldór frá því þegar Skatturinn endurákvarðaði tekjuskattstofn félagsins með 50% álagi sem fyrirtækið sjálft lagði á kostnaðargrunn sinn auk þess að leggja 25% álag ofan á, sem næmi 2,4 milljörðum króna. Skatturinn ráðlagði félaginu í kjölfarið að leggja inn til embættisins beiðni um breytingu um hófsamari endurákvörðun, sem var einnig hafnað. Starfsmenn Skattsins viðurkenndu síðar á fundi að það væri of langt gengið í endurákvörðuninni. Haraldur Ingi Birgisson, lögmaður og meðeigandi Deloitte Legal, fjallaði einnig um sambærileg mál á skattadeginum.
ViðskiptaMogginn óskaði í kjölfarið eftir skýringum frá Skattinum um hvernig bónuskerfið væri útfært, hvernig viðbótarlaun væru reiknuð og hvort á þeim væri eitthvert hámark, en þeirri fyrirspurn svaraði Skatturinn ekki efnislega.
260 milljónir króna í bónusa
Stuttu seinna var óskað eftir að Skatturinn gerði grein fyrir því hversu margir starfsmenn hefðu unnið sér viðbótarlaun og um hversu háar fjárhæðir væri um ræða, hvort embættið hefði sett sér markmið um fjárhæð endurálagningar og hvort þau markmið hefðu áhrif á bónuslaun til starfsmanna.
Fram kom í skriflegu svari stofnunarinnar að starfsmenn hefðu fengið um 260 milljónir króna í bónusgreiðslur á liðnum fjórum árum í 535 tilvikum. Ekki fengust svör við því hversu margir starfsmenn hefðu fengið bónusgreiðslur. Þegar spurt var hvort stofnuninni hefðu verið sett eða hún sett sjálfri sér markmið um fjárhæðir endurálagningar sagði stofnunin að henni væri almennt sett það markmið að ná sem mestum árangri í störfum sínum, þar með talið í baráttunni við skattaundanskot bæði af hálfu löggjafans og ráðuneytisins. Með þessu viðurkenndi stofnunin tilvist fjárhæðarmarkmiða, sem byggðust samkvæmt svarinu á fjárlögum fyrir árið 2020, þegar ákveðið var að setja aukið fjármagn í skatteftirlit. Einnig var vísað til nefndarálits efnahags- og viðskiptanefndar, þar sem fram kom að raunhækkun framlaga til skattsins væri fjármögnuð með rekstrartekjum og hefði ekki áhrif á ríkissjóð. Á meðal hækkunartilefna voru 200 milljónir króna settar í eflingu skatteftirlits, m.a. með gjaldfærðum kostnaði fyrirtækja og bifreiðahlunnindum.
Þegar spurt var hvort endurálagning skatta, álagning sekta eða gerð sátta við einstaklinga eða fyrirtæki væru meðal þeirra þátta sem metnir væru við mat á bónusgreiðslum svaraði Skatturinn þeirri spurningu ekki beint, heldur vísaði embættið til stofnanasamningsins og ítrekaði að horft væri til nokkurra þátta. Þannig væri meðal annars horft til þess hvort viðkomandi starfsmaður hefði á matstímabilinu haft með höndum einhver viðbótarverkefni umfram það sem almennt væri, eða hefði borið ábyrgð á tímabundnum og tilfallandi verkefnum. Þá væri metið hvort starfsmaður hefði sinnt eða komið að fleiri en einu verkefni á sama tíma eða sinnt fjölbreyttum verkefnum sem krafist hefðu sérfræðiþekkingar viðkomandi. Frammistaða eða afköst væru metin m.a. út frá málafjölda sem viðkomandi sinnti að því marki sem það væri unnt, gæðum úrlausna, málsmeðferðartíma o.s.frv.
Þá kom fram í svörum Skattsins að starfsmenn hefðu ekki verið krafðir um endurgreiðslur viðbótarlauna eða kaupauka þegar endurálagningin hefði verið lægri en upphafleg markmið endurálagningar skattsins. Skatturinn hafnaði því að samsvörun væri milli fjárhæða gjaldbreytinga sem starfsmaður kæmi að og ákvörðunar viðbótargreiðslna. Þó kom fram í svörum Skattsins að viðbótargreiðslur væru ekki háðar því við hvað viðkomandi starfsmaður starfaði innan embættisins, t.d. hvort verið væri að vinna við álagningu, endurálagningu eða þjónustu við viðskiptavini.
Sem áður segir neitaði Skatturinn því að tenging væri á milli viðbótarlauna og endurákvarðana á skattmálum og í kjölfar þess sendi blaðið fyrirspurn til Skattsins og óskaði eftir upplýsingum um hvort starfsmenn á skattrannsóknarsviði hefðu fengið viðbótarlaun fyrir sín störf. Í skriflegu svari Skattsins kom fram að í 40 tilvikum hefðu starfsmenn fengið greitt 20 milljónir króna í bónusa milli áranna 2021 og 2023.
Telur bónusa valda vanhæfi
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA), sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa rekið upp stór augu við umfjöllun blaðsins og að hans mati væri það í hæsta máta óeðlilegt að greiðslur til starfsmanna væru árangurstengdar. Ólafur sagði einnig að FA hefði verið undrandi á sumum endurálagningarmálum Skattsins, ætti erfitt með að koma auga á sanngirnina í sumum málum og að Skatturinn hefði beinlínis komist að rangri niðurstöðu í sumum þeirra. Að mati Ólafs væri það alvarlegt ef eitthvað lægi að baki árangurstengdum greiðslum sem leitt gæti til ógildingar á ákvörðunum Skattsins. Undir þessi sjónarmið tók Páll Rúnar, sem vitnað er í hér fyrr í umfjölluninni, og bætti því við að þeir aðilar sem sætt hefðu ákvörðun um endurálagningu hlytu að vera að skoða rétt sinn.
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður sagði í samtali við ViðskiptaMoggann í síðustu viku að lítill fyrirsjáanleiki væri í ákvörðunum Skattsins. Hann hafði áður tjáð sig um málið á Facebook, þar sem hann sagði að í raun skipti ekki máli hvernig bónuskerfi skattsins væri uppbyggt, þar sem það væri á skjön við sannleiksregluna að starfsmenn hins opinbera, sem færu með opinbert rannsóknar- og ákvörðunarvald, hefðu beina hagsmuni af því að koma sök á einstaklinga eða lögaðila í þágu sjálfra sín.
Segir umfjöllun miða að því að draga
úr trúverðugleika skattayfirvalda
Í tilkynningu sem birt var á vef Skattsins í fyrradag kemur fram að töluverð gagnrýni hafi verið á þá staðreynd að viðbótarlaun séu hluti af launakerfi Skattsins.
„Hefur sú gagnrýni og umfjöllun um eðli og framkvæmd viðbótarlaunakerfis hjá stofnuninni m.a. miðað að því að draga úr trúverðugleika skattyfirvalda og varpa rýrð á störf þeirra,” segir í tilkynningunni. „Nú er svo komið að þó að Skatturinn og aðildarfélög í BHM telji umrætt viðbótarlaunakerfi vera nútímalegt og gott kerfi sem hafi reynst öllum samningsaðilum vel, þá verður ekki við það unað í ljósi þeirrar stefnu sem umræðan um það hefur tekið. Því hefur Skatturinn ákveðið að leggja af viðbótarlaunakerfið og samið við aðildarfélög BHM um slíka breytingu sem tekur gildi frá og með síðustu áramótum.“
Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans hefur umfjöllun um bónusgreiðslur til starfsmanna Skattsins þó vakið upp spurningar, bæði meðal lögmanna og fyrirtækjaeigenda sem átt hafa í deildum við Skattinn sem og stjórnmálamanna sem voru ekki meðvitaðir um að starfsmönnum Skattsins, þ.m.t. þeim sem sinna skattaeftirliti eða taka ákvarðanir um endurálagningu, stæðu slíka bónusgreiðslur til boða.
Skatturinn ítrekar þó í fyrrnefndri tilkynningu að greiðslur viðbótarlauna hafi byggst á heildstæðu mati tiltekinna þátta sem tilgreindir eru í stofnanasamningi og að embætti hafi fylgt handbók BHM og fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá nóvember 2015 og reglum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um greiðslu viðbótarlauna til almennra starfsmanna ríkisins. Í kjarasamningum aðildarfélaga í BHM og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. íslenska ríkisins frá árinu 2014 er að finna ákvæði um viðbótarlaunakerfi opinberra stofnana.