Guðlaugur Magnús Árnason Long fæddist í Reykjavík 26. október 1947. Hann lést á líknardeild Landspítalans 3. febrúar 2024.

Foreldrar Guðlaugs voru Guðlaug Steingrímsdóttir, húsfreyja og verslunarkona, f. 11.6. 1926, d. 13.10. 2021, og Árni Th. Jóhannesson Long, vélstjóri og verslunarmaður, f. 13.3. 1920, d. 4.10. 1979.

Systkini Guðlaugs eru Jóhannes Long, f. 9.10 .1945, Steingrímur Long, f. 5.6. 1950, Kristjana Ásta Long, f. 4.10. 1951, og Árni Long, f. 5.6. 1962.

Guðlaugur kvæntist 1. júní 1991 Önnu Ágústu Jónsdóttur, f. 28.12. 1948. Foreldrar hennar voru Jón S. Þorleifsson verkstjóri og Hulda Sæmundsdóttir.

Synir Guðlaugs og fyrri eiginkonu hans, Svanhildar Geirarðsdóttur, f. 13.3. 1949, eru: Geirarður Long, f. 16.12. 1966, söluráðgjafi, giftur Bóel Kristjánsdóttur bankastarfsmanni, f. 3. maí 1968. Börn þeirra eru Svandís Ösp Long, f. 29.10. 1992, og Stefán Óli Long, f. 23.12. 1994. Svandís er gift Auðuni Sigurðssyni og börn þeirra eru Steinar Leó og Eydís Lea.

Kjartan Long, f. 12.7. 1972, húsasmiður og sölustjóri, giftur Melkorku Jónsdóttur, verkefnastjóra f. 14.1. 1972. Dætur Kjartans og fyrri eiginkonu hans, Rósu Vigfúsdóttur, eru Bergþóra Long, f. 11.6. 1995, og Bjargey Long, f. 18.1. 1998. Sambýlismaður Bjargeyjar er Sverrir Steinn Stefánsson og eiga þau Sóllilju Örnu. Dóttir Melkorku er Elísa Guðrún Agnarsdóttir, f. 3.2. 1994.

Bjarki Long, f. 15.10. 1977, framreiðslumeistari og sölufulltrúi. Sonur hans er Gabríel Frosti Long, f. 26.7. 2005.

Börn Önnu Ágústu frá fyrra hjónabandi eru: Jón Örn Brynjarsson, f. 19.9. 1969, kona hans er Anna Jóhannsdóttir. Börn þeirra eru Valdís Huld, Jóhann Styrmir og Lilith.

Ólafur Már Brynjarsson, f. 27.3. 1974, kona hans er Eyrún Magnúsdóttir. Börn þeirra eru Kristín Anna, Brynjar Már og Alexander Már.

Pétur Orri Brynjarsson, f. 6.1. 1977, kona hans er Erla Agnes Álfhildardóttir. Börn þeirra eru Óðinn Orri, Brimir Þorri og Elfur Agnes.

Guðlaugur lauk sveinsprófi í húsasmíði 1968 og vann í áhaldahúsi Reykjavíkurborgar 1968-1972. Hann vann á trésmíðaverkstæði Hákonar og Kristjáns í Kópavogi 1972-1975 og við byggingu einingahúsa víða um land og á höfuðborgarsvæðinu. Hann starfaði einnig hjá Verki hf. og trésmiðju Húsasmiðjunnar á árunum 1975-1981.

Guðlaugur lauk prófi sem byggingameistari 1981 og vann sem slíkur í tvö ár.

Starfaði hjá Húsasmiðjunni sem ráðgjafi og sölumaður árin 1985-2000. Þaðan lá leiðin í Loftorku Borgarnesi sem sölustjóri til ársins 2009 og endaði loks starfsferillinn sem sölufulltrúi hjá Krumma.

Útför Guðlaugs fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 14. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi minn.

Takk fyrir vinskapinn og allt það sem þú gafst af þér öllum sem þér þótti vænt um.

Jákvæðnin, glaðværðin, fórnfýsin og væntumþykjan var ómetanleg.

Kveðja

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elska þig og minnist alla tíð.

Þinn sonur,

Geirarður Þórir.

Elsku pabbi hefur litið síðasta sólarlagið.

Pabbi var glaðlyndur og áhugasamur um fólkið sitt, vildi vita hvað við vorum að gera og hvernig okkur og öðrum liði. Þeir voru ófáir kaffibollarnir í vinnunni eða heima þar sem við ræddum málin og hvað væri fram undan næstu daga og vikur.

Pabbi var mikið snyrtimenni og kenndi okkur bræðrum snemma að snyrtimennska á verkstöðum væri mikilvæg. Sem dæmi var það regla á smíðaverkstæði og vinnustöðum okkar Geira að enda vikuna á því að taka til og koma að hreinu borði á mánudegi.

Nákvæmni og útsjónarsemi var pabba líka í blóð borin og lék smíðavinna í höndunum á honum. Þegar ég lærlingur og tók einn að mér að leggja fiskibeinamynstrað parket í fyrsta skipi var vinnan langt komin og allt af fara í klúður, þá hringdi ég í pabba sem kom um hæl. Undir hans leiðsögn tókst mér að klára lögnina með sóma. Pabbi var góður kennari, hann tók ekki fram fyrir hendur okkar, heldur leiðbeindi á uppbyggjandi hátt.

Átta ára hannaði pabbi og smíðaði skartgripi úr íbenholt- og púkenholtviði. Það var drýgindalegur svipur á honum þegar hann sýndi okkur bekkjarmynd úr Gaggó Mið þar sem sjá mátti bekkjarsystur hans með skartgripi sem hann hafði smíðað. Eftir hann liggja óteljandi hlutir. Sá síðasti sem hann gaf mér var forláta kross sem við Melkorka fengum í brúðargjöf.

Pabbi var hetja og var ég montinn af honum. Tveimur dögum eftir að gos hófst í Vestmannaeyjum fór pabbi út í eyju ásamt sjötíu félögum sínum í Trésmiðafélagi Reykjavíkur til að aðstoða við verðmætabjörgun í bænum. Það var unnið stanslaust í tvo sólarhringa með stuttum blundi og matarhléi í húsnæði Ísfélagsins. Sem gutti sýndi ég öllum sem komu heim hermannahjálm úr stáli sem pabbi var með við verðmætabjörgunina.

Snemma kenndi hann okkur að það var ekki magnið sem veiddist heldur samveran í veiðitúrunum sem skipti máli. Minnisstætt er þegar við lágum fyrir gæs undir heimatilbúnum teppum í pollagöllum og lopapeysum. Í frosti biðum við hreyfingarlausir eftir að komast í skotfæri. Loks urðum við varir og ætluðum að stökkva upp en algjörlega dofnir af kulda náðum við ekki einu sinni að grípa um byssurnar og hleypa af.

Veiðiferðirnar voru alltaf upplifun. Við vöknuðum fyrir allar aldir, stilltum heimasmíðuðum gervigæsum upp, fórum niður í skurð, drukkum kaffi, mauluðum flatkökur með hangiketi og biðum eftir fluginu, oftast með hrotur pabba sem undirleik. Eftir góðan morgun í skurðinum var tekið hús á bændum. Yfir kaffi og bakkelsi voru sagðar sögur um fólkið á næstu bæjum, heimtur úr smölun, heybirgðir og næstu framkvæmdir.

Ég mun minnast með hlýju vinnuferðanna á Skarðströnd, sem byrjuðu með að skellt var í kjötsúpu eða saltkjöt og baunir á fyrsta degi í Ögninni. Skammturinn dugði okkur næstu daga og bragðaðist hann alltaf betur og betur þegar á leið, með tilheyrandi vindgangi og hlátrasköllum í kjölfarið enda var líklega farið að slá í matinn þegar leið á vikuna.

Takk pabbi fyrir að vera meistarinn minn, leiðbeinandi, veiðifélagi, vinnufélagi, og góður vinur.

Þinn

Kjartan.

Gulli bróðir var mér afar kær. Við bárum gæfu til þess að alast upp saman ásamt þremur systkinum hjá foreldrum okkar á Vesturgötu 18, Reykjavík, en það fjölskylduhús var síðar flutt á Bókhlöðustíg. Við vorum elstir, hann tveimur árum yngri, þannig að það kom í minn hlut oft að bera ábyrgð á drengnum, sem ekki var alltaf auðvelt. Við Gulli deildum herbergjum fyrstu árin og slógumst hvenær sem tækifæri gafst og þurfti ekki stórar ástæður. Á unglingsárum fengum við hvor sitt herbergið og urðum perluvinir. Gulli og vinir hans, Hilli Björns, Dóri Björns, Þórir og Maggi Sverris, allir úr okkar hverfi, voru prakkarar miklir og fóru víða. Mjög uppátækjasamir, en drengir góðir. Í kjallaranum heima hafði pabbi lítið verkstæði fyrir tré og málma og þar blómstraði Gulli og var u.þ.b. 11 ára þegar hann byrjaði að framleiða skartgripi úr tré og leðri, sem hann seldi stúlkum og hafði snemma mikla kvenhylli. Kom fyrir að kvenhyllin varð honum um megn og talaði ég þá fyrir hann í símann – því við vorum með svipaða rödd. Hann stundaði handbolta í KR og sund, var nokkuð góður í þessum íþróttum. Gulli gekk í Miðbæjarskólann, Gaggó Vest og lærði trésmíði í Iðnskólanum og Áhaldahúsi Reykjavíkur og tók seinna meistarapróf, hann var feiknagóður smiður og mjög skipulagður. Útskurður og alls konar handverk voru áhugamál hans og má segja að þessi listaverk hans séu á flestum heimilum stórfjölskyldunnar. Gulli fór einnig til rjúpna og stundaði stangveiði.

21 árs kvæntist hann Svanhildi Geirarðsdóttur og eignuðust þau þrjá syni. Þau skildu og nokkrum árum síðar kvæntist hann Önnu Ágústu Jónsdóttur, sem einnig átti þrjá syni. Gulli bróðir minn byrjaði að missa heilsu alltof snemma og mátti þola marga erfiða sjúkdóma. Þegar ég hringdi í hann og spurði hvernig hann hefði það svaraði hann: „Ég hef það helvíti gott.“ Þannig var Gulli.

Við heilsumissi hætti Gulli að vinna sem húsasmiður og vann sem sölumaður fyrst hjá Húsasmiðjunni, Loftorku og síðustu árin hjá Krumma barnasmiðju. Gulli var frábær sölumaður, léttur í lund og vinmargur. Anna og Gulli stunduðu stangveiði og óku á milli heiðarvatna á sínum húsbíl. Við bræðurnir fjórir hittumst ásamt mökum í sumarhúsum okkar og héldum þannig einlægri vináttu. Það verða margir sem sakna Gulla Long.

Jóhannes.

Elskulegur vinur okkar, Guðlaugur Long, er látinn og kveðjum við hann með söknuði og virðingu. Við áttum góða vináttu í yfir 60 ár, sem aldrei féll skuggi á. Við hittumst fyrst í Miðbæjarbarnaskólanum í 10 ára bekk og síðan lá leiðin í Gaggó Vest.

Guðlaugur, Gulli Long, eins og hann var ávallt kallaður, var mjög vinmargur, hann átti einstaklega gott með sér vegna glaðværðar, góðmennsku og tryggðar og margra annarra kosta.

Að lokinni skólagöngu fórst þú í nám í húsasmíði og það gerðum við skólabræður þínir líka, Siggi, Gummi og Óli Guðna. Á þessum árum vorum við komnir með kærustur. Og giftum okkur á árunum 1967-1968. Þetta var einstaklega sterk og góð vinátta öll árin. Fjölskyldan stækkaði og eigið þið Svana þrjá yndislega syni, Geirarð, Kjartan og Bjarka. Á þessum árum var oft farið í ferðalög, tjaldað eða leigður bústaður og helst nálægt vatni þar sem hægt væri að renna fyrir silung. Og margt skemmtilegt og eftirminnilegt brasað.

Einnig farið til Gumma og Þuru Stínu í heimsókn til Vestmannaeyja, sem var okkur öllum eftirminnilegt.

Við vinahjónin ræktuðum vináttu okkar vel.

Það var ómissandi að fara í skötuhlaðborð á Þorláksmessu. Þú og Anna, við Kiddý og Óli og Thelma og höfum gert það í um 40 ár. Við fjögur fórum í skemmtilegar utanlandsferðir, m.a. til Litháens, Halifax og Egyptalands, sem voru afar skemmtilegar. Oft var farið í bústaðinn til ykkar í Villingadal, einnig til okkar og til Óla og Thelmu á Þingvöllum. Ávallt gaman saman.

Til margra ára var fastur liður að fara til veiða á gæs og rjúpu, fimm góðir vinir saman og sérlega gaman.

Kæri vinur, þú varst einstaklega góður og útsjónarsamur smiður, teiknaðir oft innréttingar og smíðaðir þær fyrir vini og kunningja. Mörg eru húsin sem þú hefur komið að, að reisa og innrétta, og ekki má gleyma handverki þínu, alls konar listaverk. M.a. útskorin mynd, hrútsmerkið, sem hangir uppi á vegg í bústaðnum. Þú gafst mér hana þegar ég varð fimmtugur. Það er sérlega fallega gerð mynd.

Við sendum Önnu og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning þín, kæri vinur.

Sigurður og Ágústa.

Jæja Gulli vinur, nú hefur þú kvatt okkur og haldið þína leið inn í sumarlandið. Þú færð örugglega notið þín þar með alla þína snilld í trésmíðinni og öllu sem þú tókst þér fyrir hendur og þína endalausu hjálpsemi, sem við þáðum frá þér í gegnum tíðina. Öll þessi ár hélst vináttan milli okkar og á allra síðustu árum varstu orðinn reglulegur kaffigestur hjá okkur með góðu spjalli, þegar þú komst úr sundinu eða varst á ferðinni. Söknuðurinn er endalaus, en við getum rifjað upp skemmtilegar minningar sem við eigum um þig.

Vertu blessaður kæri vinur og takk fyrir allt. Sendum samúðarkveðjur til allra þinna.

Hildur og Bjarni.

Guðlaugur Long vinur minn er genginn á vit feðra sinna og sendir ekki frá sér bros og hlýju meir í þessu lífi. Ég kynntist Gulla fyrir 50 árum þegar við unnum saman á trésmíðaverkstæði Hákonar og Kristjáns í Kópavogi. Guðlaugur var með afbrigðum vandvirkur og snjall innréttingasmiður, ef maður lenti í einhverju basli með eitthvað var bara að spyrja Gulla og lausnin kom á samri stundu. Ég var á þessum tíma að smíða innréttingar fyrir sjálfan mig og má segja að hann hafi verið hönnuður verksins og verkstjóri við smíðina. Með okkur tókst mikil og góð vinátta sem aldrei bar skugga á alla tíð síðan.

Margar ferðir fórum við saman á gæs og rjúpu, bæði sunnanlands og vestur á Skarðsströnd þar sem þau Anna byggðu sér notalegan bústað í Villingadal. Guðlaugur hvatti mig til að ganga til liðs við Oddfellowregluna fyrir 30 árum og var leiðtogi minn við inngönguna. Það var alltaf upplífgandi að hitta þau hjón Gulla og Önnu. Takk fyrir samfylgdina kæri vinur.

Elsku Anna og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur frá okkur.

Gunnar og Jóhanna.

Það var um miðjan níunda áratuginn að hópur ungra manna hóf störf hjá Húsasmiðjunni og í þeim hópi var Gulli Long. Fljótt kom í ljós að þessi hópur náði vel saman og fór að hittast utan vinnu til að skemmta sér ásamt mökum. Veiðihópur var stofnaður sem við nefndum „Síungir silungar“ og var farið í fjölda ára til veiða á Skagaheiðinni. Þar naut Gulli sín vel og var jafnan með flesta fiskana. Einnig var hann duglegur við að veiða í bjartri sumarnóttinni og fékk því nafnið Velvakandi. Þó að við hinir reyndum að tileinka okkur veiðiaðferðir Gulla, t.d. með tilliti til lengdar á taumi og hvernig hann beitti, komumst við ekki nálægt honum með fiskafjölda. Með árunum fór að fækka í hópnum sem hélt á heiðina af upprunalegum félögum, en kjarnahópur hélt sínu striki og fórum við einnig að hittast heima hjá hver öðrum og borða saman og skemmta okkur. Hópurinn fór svo að fara í borgarferðir og voru þær ávallt vel heppnaðar. Gulli var alltaf glaður og kátur og hrókur alls fagnaðar þá er við komum saman og eru minningarnar um hann sveipaðar birtu og hlýju. Það var líka ósjaldan er við vorum að rifja upp liðna atburði og var oft þáttur Gulla í þeim til þess að við skellihlógum. Þegar Gulli var sjötugur fékk hann þessa vísu:

Árin líða undra hratt,

okkur hverfa sjónum.

Alltaf er hjá Gulla glatt

og gaman með þeim hjónum.

(G.J.)

Þá er við setjum þessar minningar okkar um Gulla á blað er sem við heyrum rödd hans í fyrstu borgarferðinni okkar, sem var til Prag. Við vorum þá á gangi í töluverðum hita, þá heyrist Gulli segja: „Er ekki kominn tími á einn kaldan?“ Þannig minnti hann okkur á að það væri nauðsynlegt að njóta. Við vottum Önnu, Geira, Kjartani, Bjarka og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning félaga okkar og vinar Gulla Long.

Síungir silungar og makar,

Gísli G. Jóhannsson.

hinsta kveðja

Afi minn

Við getum talað um daginn út og inn,

því við erum bestu vinir elsku afi minn.

Alltaf með húmorinn á réttum stað,

mikið er gott að eiga þig að.

Þú ert með fallega nærveru sem að geislar frá þér,

ég vildi óska þess að þú gætir alltaf verið hjá mér.

Þú ert minn mesti gleðigjafi,

því þú ert með hjarta gert úr gulli elsku besti afi.

Kristín Anna Ólafsdóttir.