Eyjar Fram undan er deila um þjóðlendur á eyjaklasanum.
Eyjar Fram undan er deila um þjóðlendur á eyjaklasanum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is „Það er mjög langt seilst í kröfugerðinni að mínu mati gagnvart Heimaey,“ segir Ólafur Björnsson lögmaður um kröfur sem ríkið hefur afhent óbyggðanefnd um þjóðlendur á eyjum og skerjum, sem taka m.a. til Vestmannaeyja að stórum hluta.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

„Það er mjög langt seilst í kröfugerðinni að mínu mati gagnvart Heimaey,“ segir Ólafur Björnsson lögmaður um kröfur sem ríkið hefur afhent óbyggðanefnd um þjóðlendur á eyjum og skerjum, sem taka m.a. til Vestmannaeyja að stórum hluta.

Ólafur hefur langa reynslu af þjóðlendumálum og hefur unnið fyrir bændur og landeigendur að slíkum málum í aldarfjórðung. Ólafur segir kröfugerðina koma sér mjög á óvart „í ljósi þess hvar Vestmannaeyjar eru á kortinu. Þær eru ekki neinar óbyggðir eða hálendi, heldur eru þær syðstu jarðeignir Íslands,“ segir hann.

Búið að kanna eignarréttarlega stöðu á öllu landinu

Ólafur segir þjóðlendumálin hafa þróast mikið á löngum tíma. Í upphafi hafi verið rætt um að þau myndu beinast fyrst og fremst að hálendi Íslands þar sem eignarréttur væri óljós og lengi hefði verið um hann deilt. Síðar hafi þessi mál þróast lengra og farið að ná til landsvæða um allt land. „Í raun og veru er búið að taka allt Ísland til meðferðar af hálfu óbyggðanefndar og kanna eignarréttarlega stöðu lands á öllu Íslandi,“ segir hann.

Allar stærstu eyjar verið háðar beinum eignarrétti

Fyrir nokkrum árum var lagabreyting samþykkt á Alþingi sem fól í sér að eignarréttarleg staða eyja og skerja yrði könnuð svo unnt yrði að lýsa kröfum um þjóðlendur í eyjar og sker. Ólafur segir það liggja fyrir að langstærsti hluti stærri eyja við landið sé þinglýstar eignir, ýmist hluti af jörðum eða sjálfstæðar eignir.

Eignarlönd byggjast að meginreglu til á fastri búsetu, þar sem menn hafa verið með lögheimili og reist lögbýli, en það hefur verið álitamál hvort eignarréttur byggist á afnotarétti og svo hvort á einhverjum eyjum og skerjum sé um einhvers konar almannarétt til nýtingar að ræða. „En ég held að allar stærstu eyjar landsins hafi verið háðar beinum eignarrétti í gegnum tíðina.“

Kröfur ríkisins beinast eins og fram hefur komið að öllum úteyjum og skerjum Vestmannaeyja og að hluta til Heimaeyjar. „Það er langt seilst finnst mér í kröfugerðinni að kljúfa eignarrétt þar í sundur,“ segir Ólafur. Almennt hafi ekki verið viðurkennt að hafa tvískiptan eignarrétt að landi jarða, hvorki beinan né óbeinan. Í undantekningartilvikum megi finna dæmi um það þar sem um aðskilið land er að ræða, t.d. afréttarland sem er í fjarlægð frá jörð sem það tilheyrir. Þá hafi stundum verið fallist á tvískiptan eignarrétt á milli heimalands og afréttarlands, og hefur það einkum verið gert þegar um gamlar kirkjujarðir hefur verið að ræða. Í þessu tilviki sé langt seilst að ætla að kljúfa eignarrétt í sundur í Heimaey. Hvað úteyjarnar varðar segir Ólafur að þar skipti miklu máli hvernig eignarheimildum hafi verið háttað í gegnum aldirnar, hvernig eignarrétturinn hafi verið skráður og hver nýtingin hafi verið.

Seldar sem eignarlönd

Í yfirlýsingu sem bæjarstjórn Vestmannaeyja birti vegna krafna ríkisins er m.a. lýst undrun yfir að landsvæði sem ríkið vilji sölsa undir sig í Eyjum sé landsvæði sem ríkið afsalaði til Vestmannaeyjabæjar árið 1960 á grundvelli sérstakrar lagasetningar. Að sögn Ólafs hefur verið á það bent í umræðunni að Vestmannaeyjabær hafi réttmæta væntingu til þess að umrætt land sé eignarrétti háð fyrst bærinn fékk afsal fyrir því frá ríkinu á sínum tíma og ef litið hafi verið svo á af báðum aðilum þegar viðskiptin fóru fram.

„Það hefur almennt verið þannig að þegar jarðeignir hafa verið seldar af ríkinu þá hefur að meginstefnu til verið litið svo á að slíkar jarðir hafi verið seldar sem eignarlönd,“ segir hann. Þetta sé þó ekki alveg algilt samanber deilurnar á sínum tíma um eignarrétt yfir Eyvindarstaða- og Auðkúluheiði sem hreppar keyptu á sínum tíma af ríkinu en ekki var fallist á að væru háðar beinum eignarrétti.

Ólafur segir að fróðlegt verði að fylgjast með framgangi þessarar nýju kröfugerðar ríkisins varðandi þjóðlendur í Vestmannaeyjum. „Það eru fordæmi fyrir því að þegar eigendur hafa lagt fram eignarheimildir sínar hafi ríkið stundum fallið frá sínum kröfum, breytt kröfum og fallið frá þeim að hluta þegar frekari gögn hafa verið lögð fram. Menn mega ekki rugla saman kröfugerð og úrskurði. Það er ekki búið að úrskurða um málið en kröfugerðin kemur á óvart, það verð ég að segja alveg eins og er,“ segir hann.

Höf.: Ómar Friðriksson