Fossvogsbrú Áætlaður kostnaður við byggingu Fossvogsbrúar hækkar sífellt og er nú talinn verða fjórfalt hærri en fyrir þremur árum.
Fossvogsbrú Áætlaður kostnaður við byggingu Fossvogsbrúar hækkar sífellt og er nú talinn verða fjórfalt hærri en fyrir þremur árum. — Teikning/Efla og BEAM
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Ákvörðun um framhald hönnunar Fossvogsbrúar á grundvelli þeirrar tillögu sem sigraði í hönnunarsamkeppni um brúna, sem nefnd hefur verið Alda, er alfarið á forræði stjórnar Betri samgangna sem ber eigendaábyrgð á verkefnum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem brúin er hluti af.

Baksvið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Ákvörðun um framhald hönnunar Fossvogsbrúar á grundvelli þeirrar tillögu sem sigraði í hönnunarsamkeppni um brúna, sem nefnd hefur verið Alda, er alfarið á forræði stjórnar Betri samgangna sem ber eigendaábyrgð á verkefnum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem brúin er hluti af.

Þetta kemur fram í minnisblaði Vegagerðarinnar sem lagt var fram á fundi í fjárlaganefnd sl. mánudag. Fulltrúar hennar voru kallaðir til fundarins til að varpa ljósi á stórkostlega hækkun á áætluðum kostnaði brúarinnar, sem hefur vaxið úr 2,2, milljörðum í 8,8 milljarða, sem er fjórföldun, á einungis þremur árum.

„Það kemur fram hjá Vegagerðinni að hún beri enga ábyrgð á verkefninu, þetta sé bara ákvörðun Betri samgangna og í framhaldi af því óskaði ég eftir að Betri samgöngur kæmu fyrir fjárlaganefnd til að fara í gegnum málið,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður og 1. varaformaður nefndarinnar, við Morgunblaðið. Hann óskaði eftir því að fulltrúar Vegagerðarinnar kæmu fyrir nefndina til að standa fyrir sínu máli, enda fyrirtækið framkvæmdaraðili verksins.

Áhyggjur af eftirliti

Njáll Trausti segir að í þessu sambandi beri að hafa í huga álit meirihluta fjárlaganefndar frá árinu 2019 þar sem m.a. er fjallað um aðkomu Alþingis að samgöngusáttmálanum og eftirlitshlutverk fjárlaganefndar varðandi verkefni sem að sáttmálanum snúa.

„Við höfðum áhyggjur af því hvernig eftirlitinu yrði háttað með verkefninu og þeim gífurlega háu fjárhæðum sem verja á til þess og að skýrt væri að fjárlaganefnd fyrir hönd þingsins fengi að fylgjast með því hvernig fjármunum yrði varið í tengslum við verkefnin. Með því að færa samgönguframkvæmdir inn í opinbert hlutafélag hefur Alþingi ekki sömu aðkomu að málum og ef um væri að ræða hefðbundnar samgönguframkvæmdir í umsjón Vegagerðarinnar og fjármagnaðar eru í samgönguáætlun,“ segir Njáll Trausti.

Hann bendir á að í tilviki Fossvogsbrúar komi sterklega í ljós að kostnaðarþátturinn sé mjög fljótandi og kostnaður hafi ekki verið mótaður þegar farið var af stað með hugmyndasamkeppni um brúna.

„Það er ekki nægjanlega vel utan um þetta haldið og það gengur ekki að svona sé farið með fjármagn ríkisins, við erum að reyna að reka hér ábyrg ríkisfjármál. Ríkið ber þetta verkefni uppi kostnaðarlega, sveitarfélögin greiða ekki stóran hluta af þessu,“ segir hann og nefnir að sér sýnist að þau hafi verið með opinn reikninginn varðandi það hvernig framkvæmdinni skuli háttað.

Áberandi kennileiti

Í minnisblaði Vegagerðarinnar er 10 ára saga Fossvogsbrúar rakin, þótt enn bóli ekki á henni. Vísað er til skýrslu frá 2013 þar sem fjallað er um mögulega útfærslu brúarinnar, en þá var 5,5 m breið brú fyrir strætó og hjólandi umferð til skoðunar, sem og 8 m breið fyrir gangandi, strætó og hjólandi umferð. Átti mjórri brúin að kosta 1,5 milljarða á verðlagi í janúar 2024, en hin 1,9 milljarða. Fram er tekið að hafa verði í huga að allt að 100% kostnaðaróvissa sé á verkefnum í frumdrögum.

Árið 2017 kom fram tillaga um að láta svokallaða borgarlínu aka yfir Fossvogsbrú og fór hún í tveggja þrepa hönnunarsamkeppni 2021. Rökin fyrir samkeppni voru þau, að því er í minnisblaði Vegagerðarinnar segir, að vilji Reykjavíkur og Kópavogs stæði til þess að brúin yrði áberandi kennileiti á höfuðborgarsvæðinu. Í síðara þrepinu voru tllögur metnar út frá umhverfi, tæknilegri útfærslu og áætlunum, þ.m.t. kostnaðarmati brúarinnar. Alda bar sigur úr býtum og var upphafleg kostnaðaráætlun rúmir fimm milljarðar á núvirði, með 100% óvissu um kostnað „vegna þroskastigs verkefnisins“, eins og komist er að orði.

Ljóst hefði verið að heildarkostnaður yrði hærri en áætlun á samkeppnisstigi gaf til kynna. Uppfærð áætlun var síðan kynnt haustið 2023 og var þá kostnaðurinn kominn upp í 7,5 milljarða vegna brúarinnar og landfyllinga, eða 7,7 milljarða á núvirði. Hálfu ári síðar, þ.e. í byrjun þessa mánaðar, var kostnaðaráætlunin enn uppfærð og stendur hún nú í 8,8 milljörðum með landfyllingum beggja vegna Fossvogs sem og fyllingu í Skerjafirði sem sögð er á ábyrgð Reykjavíkurborgar og ekki hluti af Fossvogsbrú sem slíkri. Koma þar 500 milljónir til lækkunar á kostnaðaráætlun.

Um breytingu á tölum á milli kostnaðaráætlana segir Vegagerðin að hana megi m.a. rekja til hækkandi kostnaðar vegna brúargerðarinnar sjálfrar, aukinnar styrkingar brúarstöpla, breytinga á lýsingu á brúnni og landfyllinga.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson