Gunnar Magnússon fæddist 25. mars 1945 í Hafnarfirði. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi 10. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Guðrún Gunnarsdóttir, f. 23. ágúst 1906, d. 15. maí 1977, og Magnús Sigurður Haraldsson, f. 11. ágúst 1905, d. 27. feb. 1994.

Gunnar var þriðji í röð fjögurra systkina. Hin eru Sigríður, f. 25. ágúst 1939, Haraldur, f. 11. mars 1941, og Guðbjörg Áslaug, f. 21. okt. 1952.

Náin vinkona Gunnars til margra ára var Stefanía Þorgrímsdóttir, f. 11. apríl 1950, d. 30. sept. 2013.

Gunnar ólst upp í Hafnarfirði. Að loknu gagnfræðaprófi úr Flensborg hóf hann nám í Iðnskóla Hafnarfjarðar og lauk þaðan prófi í húsasmíði. Hann vann að iðn sinni í Hafnarfirði, við virkjanir á fjöllum og til fjölda ára vestur á Ísafirði. Um skeið dvaldi hann í Níkaragva, þar sem hann lagði hönd á plóginn við þróunarhjálp enda þótt þar geisaði ófriður.

Útför hans fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 14. febrúar 2024, klukkan 13.

Í dag er komið að kveðjustund, er við kveðjum hann Gunnar hennar mömmu (eins og við kölluðum hann) hinstu kveðju. Þegar sest er niður streyma minningar fram úr fylgsnum hugans og ekki verður öllu komið við í stuttri grein.

Þegar leiðir þeirra Gunnars og mömmu lágu saman sumarið 1995 má segja að það hafi verið lífsins lukka fyrir þau og ekki síður fyrir okkur börn hennar og barnabörn. Samband þeirra var einstaklega gott og hann sagði eitt sinn að þeim hefði aldrei orðið sundurorða allt þeirra samband. Þar má líklegast þakka það að Gunnar var einstaklega hæglátur maður, orðvar og aldrei heyrðum við hann tala illa um nokkurn mann. Hann gat jú alveg tjáð sig, enda ekki skoðanalaus maður en aldrei orðljótur, við systurnar og mamma gátum stundum gengið fram af honum í orðfari og gekk eitt sinn svo langt að hann bað okkur vinsamlegast að hætta okkar sjóbúðatali.

Eitt af því sem mamma kunni vel að meta var hvað hann var vel lesinn enda bækur okkur í blóð bornar og náðu þau þar góðri tengingu og áttu vel saman enda þótti henni fátt skemmtilegra en að ræða bókmenntir og líðandi stund en Gunnar var bæði greindur og yfirvegaður og gaman að skiptast á skoðunum við hann.

Þessi skemmtilega blanda af rólegu fasi og góðri kímnigáfu gaf svo gott mótvægi inn í okkar annars háværu fjölskyldu og líklegast eiga tengdabörnin honum ekki lítið að launa sem öruggs athvarfs þegar öll hersingin var samankomin og upplifunin eflaust verið yfirþyrmandi fyrir óreynda.

Gunnar hafði lúmskan húmor og vílaði til dæmis ekki fyrir sér að skella sér í jólasveinabúning og vart mátti sjá hvor skemmti sér betur, hann eða krakkarnir.

Hann var afar barngóður og þekktu börnin okkar hann aldrei öðruvísi en sem afa og fyrir mörg þeirra eini afinn sem þau nokkurn tímann kynntust. Gunnar var ávallt áhugasamur um hvað barnabörnin höfðu fyrir stafni og sýndi það bæði í verki sem orðum, hvort sem það var að sitja og leysa þrautir saman, fara í 17. júní-göngur eða mæta á sýningar eða annað slíkt sem börnunum var mikilvægt. Undanfarin ár fór þó heilsunni að hraka og hægðist á ferðum Gunnars en hann lét aldrei deigan síga. Hann tók heilsufarinu með sömu stóísku rónni og öðru og lundarfarið breyttist lítið, hann hélt áfram að lesa, grúska og fylgjast með líðandi stundu. Nú er vík á milli vina um hríð, við þökkum Gunnari fyrir allt og allt. Um leið vottum við systkinum Gunnars og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúð.

Ása, Starri, Guðrún og Vopni Stefaníubörn, makar og börn.

Gunnar frændi var lífsglaður maður og bjó í senn yfir kæti og rósemd sem smitaði út frá sér. Sömuleiðis var hann kraftmikill og framtakssamur og hafði frá mörgu að segja. Minnisstæðar eru sögurnar frá þeim tíma sem hann var á fraktara, þá kornungur. Siglt var um heimsins höf og viðdvöl höfð á stöðum eins og New York og Leníngrad þar sem hann var staddur þegar Kennedy var myrtur. Svo var stoppað í Hamborg og farið á klúbb þar sem ungir breskir piltar spiluðu rokk – líkast til þeir sem skömmu seinna slógu í gegn sem Bítlarnir.

Síðar á ævinni hélt Gunnar til Níkaragva til að sinna hjálparstörfum. Þar geisaði þá stríð og þurfti margt að vinna til að bæta lífsskilyrði fólks. Gunnar var húsasmiður að mennt og er ekki að efa að verklagni hans og dugnaður komu í góðar þarfir. Í þessari löngu ferð kom Gunnar á fleiri staði og dvaldist meðal annars á Kúbu um nokkurt skeið. Þá dokaði hann við í Berlín á leið sinni heim, en á þessum tíma skiptist borgin enn milli austurs og vesturs.

Ég man að þegar Gunnar sneri aftur var hann þvengmjór – enda bjó fólk í Níkaragva við þröngan kost og aðstæður allar erfiðar. Hins vegar lét Gunnar vel af ferðinni og þetta hefur verið mikil upplifun eins og berlega kom í ljós eitt kvöldið þegar hann rakti ferðasöguna og sýndi ljósmyndir frá dvöl sinni ytra.

Þá var sú yngri af systrum mínum, Ágústa, tiltölulega nýkomin í heiminn og gladdist Gunnar mjög við að sjá litlu frænku sína. Hann var líka barngóður og afskaplega ljúfur frændi sem hafði gaman af að verja tíma með sínu nánasta fólki.

Má þar nefna að um þetta leyti fór Gunnar oft með mömmu og pabba og okkur krökkunum á skíði og sýndi þar góða takta. Hann var enda mikill skíðamaður og hafði iðkað þá íþrótt af kappi þegar hann bjó á Ísafirði nokkru fyrr og stundaði þar iðn sína.

Sjálfsagt bera ýmis hús þar vestra handbragði hans fagurt vitni enda var hann fagmaður fram í fingurgóma. Það fékk ég einmitt að sjá þegar hann kenndi mér að skafa af spýtum og var allt í öllu við byggingu anddyrisins hjá okkur á Tjarnarbrautinni.

Um það leyti sem þær framkvæmdir stóðu yfir varð breyting á lífi Gunnars, en þá kynntist hann Stefaníu, sem varð lífsförunautur hans þar til hún féll frá fyrir um áratug. Hún var góð kona og skemmtileg, greind og kímin rétt eins og hann. Vafalaust hefur missirinn verið honum sár en hann hélt sínu striki og gaf engu minna af sér í samskiptum við systkini sín og ættfólk, gömlu vinina og fólkið hennar Stefaníu. Á meðan hann gat var hann líka mikið á ferðinni og fór til dæmis oft á Jómfrúna á sumrin til að hlýða á djass.

Nú undir það síðasta var heilsan þorrin en lífsneistinn lifði og alltaf var hann að gera sér eitthvað til dundurs – eins og að ráða krossgátur og rifja upp kynnin við meistara Þórberg. Og stundum lét hann senda sér mat af veitingastað og bauð fólki að snæða með sér.

En á endanum lauk jarðvist Gunnars og hann hvarf okkur sjónum. Minningarnar um góðan mann lifa hins vegar áfram og þær munum við orna okkur við.

Hvíl í friði, Gunnar.

Þórður Sveinsson.

Gunnar Magnússon, móðurbróðir minn, lést í síðasta mánuði eftir erfið veikindi. Frændi var því væntanlega hvíldinni feginn, enda maður sem áður fór allra sinna ferða gangandi eða hjólandi. Já, frændi átti aldrei bíl og kærði sig kollóttan. Hann tók bara strætó og fannst það ekkert mál.

Við vorum nafnar, en þegar ég kom til sögunnar þurfti að grípa til ráða svo forðast mætti rugling. Upp frá því var hann ávallt kallaður Gunnar stóri og hélt þeirri nafnbót hjá mörgum í fjölskyldunni til hinsta dags. Engu breytti þótt ég yrði jafnhár honum strax á unglingsárum og síðan fljótlega allnokkru hærri.

Fyrstu minningar mínar af frænda eru á heimili afa míns og ömmu í Hafnarfirði. Hann var næstyngstur barna þeirra. Elst er Sigríður, móðir mín, þá Haraldur og loks Ása Bagga. Þetta var einstaklega gott heimili og þangað sótti ég mikið á æskuárum mínum. Gunnar stóri bjó ennþá í foreldrahúsum á þeim tíma en hann var góður frændi að eiga, bæði þá og alla tíð. Hann var smiður og vann við það víða. Frændi þótti vandvirkur, en hann hjálpaði mér að setja upp baðinnréttingu þegar ég keypti mér mína fyrstu íbúð. Það þótti mér vænt um.

Gunnar stóri bjó í Englandi til skamms tíma og þá stóðum við í bréfaskriftum. Held samt að ég hafi verið miklu spenntari að fá bréf frá frænda en hann frá mér. Þetta voru skemmtileg bréf og Gunnar stóri var góður penni. Eitt bréfanna er eftirminnilegra en önnur og því hef ég aldrei gleymt. Það innihélt nefnilega líka ljósmyndir, en þá hafði hann farið á fótboltaleik í Manchester og tekið fjölda mynda. Fyrir mig var þetta algjör fjársjóður að fá, en annað liðanna sem frændi myndaði á vellinum var og hefur verið uppáhaldsliðið mitt í enska boltanum í meira en hálfa öld.

Seinna var ég námsmaður í London og þá heimsótti hann mig á heimleið eftir nokkurra mánaða mjög eftirminnilega dvöl í Suður-Ameríku. Í aðdragandanum hringdi Gunnar stóri í mig og sagðist ætla að bjóða mér á Shakespeare-sýningu í heimsborginni. Ég var ekki ýkja hrifinn af Shakespeare en lét á engu bera, kaus frekar að sjá eitthvert léttmeti. Við hittumst svo og áttum frábæran tíma saman í London, fórum m.a. út að borða og í leikhús. Sáum reyndar ekki Shakespeare, það hafði víst aldrei staðið til. Frændi var bara að stríða nafna sínum.

Þótt Gunnar stóri væri barnlaus átti hann stóra fjölskyldu og þótti mjög vænt um hana. Seinna á lífsleiðinni kynntist frændi Stefaníu Þorgrímsdóttur og áttu þau mörg góð ár saman, en Stefanía féll frá fyrir áratug eða svo. Við kynni þeirra stækkaði fjölskylda Gunnars stóra ennþá meira, en afkomendur hennar tóku honum mjög vel. Missir okkar allra er því mikill. Ég sagði hér áðan að Gunnar stóri hefði verið góður frændi og það voru orð að sönnu. Hann var líka afskaplega barngóður og mér er mjög minnisstætt þegar hann var fenginn til að leika jólasvein í jólaboði fjölskyldunnar, sem var haldið í Gúttó í Hafnarfirði eitt árið. Sjaldan hef ég séð frænda ljóma jafn mikið af gleði og einmitt þá.

Blessuð sé minning Gunnars stóra.

Gunnar Rúnar
Sveinbjörnsson.

Þá er komið að kveðjustund. Hann Gunnar móðurbróðir minn hefur kvatt þessa jarðvist eftir erfið veikindi. Hann Gunnar frændi, eins og ég kallaði hann jafnan, hefur verið stór partur af tilveru minni frá því ég man eftir mér og er tilhugsunin um lífið án hans tómleg. Því Gunnar var alveg einstakur frændi og manneskja.

Gunnar fór sínar eigin leiðir. Hann tók t.d. ekki bílpróf heldur fór sinna ferða á hjóli. Hann var víðförull heimsborgari og mér fannst alltaf einhver ævintýraljómi yfir honum. Hann vann um tíma við smíðar í hjálparstarfi í Níkaragva og ég man hvað ég var spennt þegar það komu póstkort frá honum. Hann sagði svo skemmtilega frá. Það er mjög minnisstætt þegar hann kom heim og sá Ágústu systur í fyrsta sinn.

Gunnar sýndi okkur systkinunum alltaf mikinn áhuga. Hann fagnaði með okkur þegar vel gekk og það var gott að eiga hann að þegar á móti blés. Það er dýrmætt að eiga slíkan stuðningsmann í lífinu. Hann horfði oft á mig spila fótbolta og svo var farið ítarlega yfir leikinn á eftir þar sem hann tók málstað minn að sjálfsögðu óspart. Þegar ég byrjaði að æfa með FH um 10 ára gömul fékk ég stundum skot frá Haukurunum í fjölskyldunni um að vera að svíkja lit. Ég lét þetta sem vind um eyru þjóta þegar Gunnar sagði mér að hann hefði æft með FH í gamla daga. Að sjálfsögðu var ég stoltur FH-ingur, eins og Gunnar frændi.

Gunnar brallaði margt með okkur fjölskyldunni. Hann fór oft með okkur á skíði og ég man hvað ég var dolfallin þegar ég sá hann í brekkunni í fyrsta sinn. Hann var hreinlega eins og atvinnumaður en hann hafði lært á skíði þegar hann vann við smíðar á Ísafirði. Gunnar var afbragðssmiður og alltaf boðinn og búinn að hjálpa til ef þess þurfti.

Gunnar var jafnan með okkur fjölskyldunni á jólum og öðrum hátíðisdögum og var oft með skemmtilegar og óvæntar uppákomur. Ég man enn þegar ég var lítil og úr jólapakkanum frá honum kom meðal annars stór dolla af uppáhaldinu mínu, fiskibollum í dós! Ég held ég hafi sjaldan verið jafnánægð með nokkra gjöf. Ein jólin klæddi hann sig upp í jólasveinabúning til þess að gleðja börnin mín. Gunnar var alveg einstaklega barngóður. Mér er mjög eftirminnilegt þegar hann bauð mér sem unglingi með sér í leikhús og út að borða á undan. Við skemmtum okkur svo vel. Eitt sinn gaf hann mér skartgripaskrín sem mér þykir mjög vænt um. Það bjó hann til úr vindlakassa sem hann skreytti með frímerkjum frá hinum ýmsu heimshornum. Ef vel er að gáð leynist mynd af Gunnari frænda inn á milli frímerkjanna.

Það er sannarlega margs að minnast. Það sem mér finnst standa upp úr er hve jákvæður Gunnar var alla tíð og leit á björtu hliðarnar í lífinu. Hann vildi öllum vel, var eldklár og það var gaman að ræða málin við hann. Hann hafði alltaf svo málefnalega og skynsama sýn á hlutina. Gunnar var lífskúnstner og kunni að njóta stundarinnar allt til hins síðasta. Hann gæddi líf mitt lit og gleði og er ég mjög þakklát fyrir að hafa átt hann að. Blessuð sé minning Gunnars frænda.

Guðrún.