Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
„Við erum búin að vera með okkar góðu verktökum í að reyna að koma köldu vatni aftur á bæinn,“ segir Sigurður Rúnar Karlsson í samtali við Morgunblaðið, en hann er umsjónarmaður fasteigna Grindavíkurbæjar og yfirmaður þjónustumiðstöðvar, sér um allar veitur bæjarins, gatnagerð og fasteignir.
Stofnlögn Grindavíkur bráðnaði í sundur þegar hraun rann yfir hana í gosinu sem hófst 14. janúar og segir Sigurður nokkurt bras hafa verið að koma vatnslögnum suður eftir. „Við höfum fengið að vinna hér flesta daga, það er pínu erfitt að koma verktökum að en hefst nú alltaf fyrir rest,“ segir Sigurður, sem að sögn vildi helst geta unnið fullan vinnudag með starfsfólki sínu. Óvissustig hafi hins vegar ekki alltaf leyft það.
Segir hann þó leyfi alltaf hafa fengist til að vera við störf svo lengi sem hann og samstarfsfólk hans hafi getað fært rök fyrir því að viðveru sé þörf. „Við erum átta á starfsstöðinni en við erum bara tveir þessa dagana,“ segir hann, spurður út í mannaflann. Ferðaþjónusta fatlaðra í Grindavík heyrir einnig undir ábyrgðarsvið Sigurðar. „Hún hefur svo sem ekkert að gera í Grindavík akkúrat núna en þeir sinna öllum akstri, bara frá öðrum sveitarfélögum, þannig að þjónustan er enn til staðar,“ segir Sigurður.
Kveður hann vonir standa til þess að koma megi vatni á bæinn í lok þessarar viku eða byrjun þeirrar næstu. „Það á eftir að koma vatni á öll íbúðarhverfi og þarf aðeins að taka mið af því hvernig ástand húsa og inntaka er, þannig að það er verkefni sem við þurfum að vinna með almannavörnum. Við byrjum á hafnarsvæðinu,“ útskýrir hann.
Að loknu kaldavatnsverkefninu taki við áframhaldandi mat á stöðunni í bænum, svo sem því hvort sprunguverkefnið verði komið á það stig að hægt sé að fara að vinna í jarðlögum, gatnakerfum og fráveitu. „Og svo ástandsskoðun fasteigna þegar menn telja að það sé orðið öruggt að fara í framkvæmdir,“ segir Sigurður Rúnar Karlsson, umsjónarmaður fasteigna Grindavíkur.