Þórir S. Gröndal
Þórir S. Gröndal
… að eftir nokkur hundruð ár verði Ísland komið í spor Wales, Skotlands og Írlands, sem upprunalega áttu sín eigin tungumál en nota nú bara ensku.

Þórir S. Gröndal

Þá er eitt blessað árið liðið í aldanna skaut. Það er annars merkilegt hvað þau rúmast mörg í þessu skauti. Ein háöldruð nágrannakona hafði orð á því við mig að árin virtust líða miklu hraðar eftir að hún komst á gamals aldur. Ég stóðst eðlilega ekki mátið og dró fram minn gamla, slitna brandara: Ævin er eins og rúlla af klósettpappír. Eftir því sem færri blöð eru eftir á henni snýst hún hraðar.

Eins og margir landar úti í heimi reynum við að halda í íslenskar hefðir og venjur. Ein af mínum uppáhalds er að blóta heilagan Þorlák. Það gerum við dyggilega á Þorláksmessunni. Við söllum að okkur alls kyns góðgæti: þrenns konar síld frá IKEA, laxi, reyktum og gröfnum, sardínum, harðfiski, rækjum, laufabrauði, hráu tvíreyktu og þurrkuðu hangikjöti, flatkökum og mörgu öðru. Sumt höfðum við pantað í flugi frá Íslandi í netversluninni góðu, Nammi.is.

En það dugar ekki að blóta Þorlák nema hafa eitthvað til að væta kverkarnar. Danskt og norskt ákavíti fengum við hér í vínbúðinni, og svo var eftir hálfur peli af íslensku brennivíni frá því í fyrra. Allar þessar veigar höfðum við geymt í frystinum svo þær væru ískaldar. Og nóg var af öli, meðal annars íslenskur bjór frá Einstök Ölgerð, sem seldur er hér í áfengisbúðum.

Á hverju ári hefi ég gaman af að útskýra fyrir íslensku Ameríkönunum í fjölskyldunni hvers vegna danska Álaborgarákavítið er litlaust en norska Linje-ákavítið er ljósbrúnt. Það er vegna þess, segi ég þeim, að Danirnir þvo kartöflurnar! Það var skálað mikið fyrir Þorláki og rifjaðar upp sögur um hann úr bók Árna Björnssonar „Saga daganna“. Þegar leið á veisluna fór söngvatnið eðlilega að segja til sín. Eitt af mörgu sem fylgir því að verða hundgamall eins og ég er orðinn er að verða valtur á fótunum. Svo nokkur staup í viðbót og einn öl koma ekki til með að breyta neinu.

Eins og tíðkast um áramót er gott að líta til baka og rifja upp það helsta sem gerst hefir á liðnu ári. Að mínu mati var eitt það alvarlegasta að landinn virðist loks vera farinn að horfast í augu við það að ylhýra málið okkar er komið í hættu á að líða undir lok. Yngri kynslóðir sletta meira og meira enskum orðum og heyrst hefir að sumir unglingar séu farnir að tala saman á ensku.

Stór hluti þjóðarinnar dvelur langtímum í netheimum þar sem næstum engin íslenska er notuð. Það virðist vera orðið of seint að reyna að hreinsa tunguna okkar. Svo bætist við að útlendingum fjölgar stöðugt og ekki tala þeir íslensku. Það er sárt að þurfa að hugsa um þann möguleika að eftir nokkur hundruð ár verði Ísland komið í spor Wales, Skotlands og Írlands, sem upprunalega áttu sín eigin tungumál en tala og skrifa nú bara ensku.

Þótt það virðist vera lítið sem við getum gert til að bjarga íslenskunni er ýmislegt annað sem við getum lagað. Númer eitt eru skólamálin. Að mínu mati er það næstum þjóðarskömm hve illa íslensku nemendurnir stóðu sig á síðasta alþjóða PISA-prófinu. Það þarf stórt átak til að betrumbæta skólamálin í landinu. Skólayfirvöld hér í Atlanta hafa nýlega heimsótt Finnland og segjast geta lært þar margt í skólamálunum, sem þar séu til fyrirmyndar. Íslandsmenn ættu ekki að vera of stoltir til að leita ráða hjá nágrannaþjóðum sem standa betur að vígi í skólamálunum en þeir.

Á árum fyrr, þegar ég var ræðismaður Íslands í Flórída, voru tveir straumar oft áberandi í málflutningi íslenskra stjórnvalda: ferðamannastraumur og rafmagnsstraumur. Við vorum sem sagt með of fáa ferðamenn en of mikið af rafmagni. Það þurfti að auglýsa landið betur svo fleiri túristar kæmu í heimsókn. Svo þurfti að finna útlensk félög sem vildu reisa álver og aðrar verksmiðjur sem myndu kaupa allt þetta umframrafmagn úr öllum nýju virkjununum.

En nú er öldin önnur. Á síðustu áratugum hefir verið reistur fjöldinn allur af hótelum, veitingahúsum, náttúruböðum, útiklósettum og öðrum slíkum mannvirkjum. En engar nýjar virkjanir til rafmagnsframleiðslu hafa litið dagsins ljós. Við erum búin að fá ferðamannastrauminn svo um munar, en rafmagnsstraumurinn er allur uppseldur og meira en það.

Í lokin langar mig að minnast á óskyldan hlut. Ég sá á Moggavefnum í morgun að Matthías Frímannsson og kona hans hefðu bæði dáið í desember. Ég hafði örlítið kynnst Matta því hann var skólabróðir konu minnar úr Menntaskólanum í Reykjavík. En undanfarin ár höfum við skipst reglulega á tölvubréfum. Það byrjaði allt þegar Matti hafði eitthvað að athuga við eina af greinum mínum í Mogga.

Þegar ég las um fráfall hans athugaði ég hvenær síðasta bréf hans hefði borist. Það var 13. nóvember og bráðskemmtilegt að vanda. Hann endaði það með því að segja mér að hann hefði lesið góðan danskan brandara kvöldið áður. Maður nokkur hafði komið til heyrnarlæknis og tjáð honum að hann hefði ekki nema hálfa heyrn. Læknirinn skoðaði eyrun og sagðist ætla að hvísla að honum og hann ætti að endurtaka það sem hann heyrði. Svo hvíslaði hann 88 og sjúklingurinn svaraði 44!

Höfundur er fyrrverandi fisksali og ræðismaður í Ameríku.

Höf.: Þórir S. Gröndal