Á Viðskiptaþingi í síðustu viku fjallaði forsætisráðherra um mikilvægi hins opinbera og hlutverk þess í að halda samfélaginu gangandi. Það sem við sjáum hins vegar helst er dauðaleit að nýjum sköttum, svifasein stjórnsýsla, flóknari reglur og fleiri stofnanir.

Sjávarútvegur

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Það er líklega ekkert sérstaklega auðvelt að reka hátt í 400 þúsund manna samfélag eins og við eigum hér á Íslandi. Við erum ólík, með ólíkar þarfir, væntingar og vonir. Það er sennilega borin von að við getum verið sammála um allar gjörðir okkar. En gæti mögulega verið hægt að finna einhverja leið til að við myndum í það minnsta stefna í sömu átt? Er ef til vill hægt að finna út hver sameiginleg markmið okkar eru og reyna að rata bestu leiðina að þeim?

Byrjum bara á því einfalda. Við þurfum að standa undir okkur. Við þurfum að eiga pening fyrir því sem við þurfum og viljum gera. Sá listi lengist með hverju árinu. Til þess þurfum við meðal annars að flytja út vörur og þjónustu og þannig skapa mikilvægar gjaldeyristekjur. Það hljóta allir að vera sammála um það.

En það er ekki nóg að einblína um of á útflutningstekjur. Við þurfum að framleiða og veita þjónustu með hagkvæmum hætti, því að það sem við framleiðum og flytjum út er í samkeppni við vörur frá öðrum þjóðum. Ef við getum ekki keppt við aðrar þjóðir þá segir það sig sjálft að okkur tekst ekki að selja vörurnar okkar og fáum því ekki tekjurnar sem við þörfnumst.

Hafi einhver gleymt því þá erum við pínulítil þjóð, lengst úti í hafi, og því mögulega aðeins út undan þegar kemur að alþjóðaviðskiptum. Við þurfum því líklega að hafa aðeins meira fyrir þessu en margar betur staðsettar þjóðir. Einmitt þess vegna er svo mikið atriði að við nýtum þau tækifæri sem við höfum til að skapa útflutningstekjur og sjá ört fjölgandi Íslendingum fyrir því sem þeir þurfa. En til þess að það gerist þurfum við að róa í sömu átt og sýna að það sé raunverulegur vilji til þess. Það hefur vantað nokkuð upp á það.

Síðustu vikur hefur verið mikil umræða um gullhúðun. Það er þegar lög og reglugerðir þyngjast í meðförum stjórnvalda og valda fyrirtækjum aukinni fyrirhöfn og að sjálfsögðu kostnaði. Það eru fjölmörg dæmi um þetta á sviðum sem tengjast sjávarútvegi.

Við þurfum varla að nefna ástandið í fiskimjölsframleiðslu. Fyrirtækin sýndu áræði og fyrirhyggju í umhverfismálum þegar þau lögðu mikla fjármuni í að rafvæða verksmiðjurnar. Síðustu ár hafa þessar sömu verksmiðjur ekki fengið rafmagn og þurft að keyra verksmiðjurnar á olíu. Um 15-25 milljón lítrar af olíu hafa því verið notaðir árlega á umliðnum árum, í stað þess að nota græna orku eins og til stóð.

Reyndar eru öll orkumálin á ákaflega undarlegum stað. Það er eins og flokkarnir í ríkisstjórn geti ekki einu sinni komið sér saman um hvort það sé til nóg af orku. Ef svo er væri þá ekki fínt að fara að reyna að koma henni til skila, þar sem hennar er þörf?

Annað dæmi, sem tengist orkumálum, er baráttan fyrir því að fá varastreng fyrir rafmagn til Grindavíkur. Fyrirtæki í Grindavík, sem hafa orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna jarðhræringanna, hafa nú mánuðum saman beðið eftir aðkomu stjórnvalda. Verkefnið er hvorki flókið né kostnaðarsamt, ef litið er til þess að umræddur strengur getur þjónað allri Grindavík ef út af bregður með rafmagn. En ekkert gerist. Við höfum gengið á milli fjögurra ráðuneyta. Allir virðast af vilja gerðir, allir gera sér grein fyrir því hve miklir hagsmunir eru í húfi og hve mikil verðmæti gætu tapast. Samt gerist ekkert.

Þetta eru bara nýleg dæmi um flækjustig sem trufla atvinnulífið í verðmætasköpun. Á Viðskiptaþingi í síðustu viku fjallaði forsætisráðherra um mikilvægi hins opinbera og hlutverk þess í að halda samfélaginu gangandi. Það sem við sjáum hins vegar helst er dauðaleit að nýjum sköttum, svifasein stjórnsýsla, flóknari reglur og fleiri stofnanir.

Væri til of mikils mælst að við myndum setjast aftur við árarnar og reyna að rifja upp hvert við ætluðum að fara?