Á síðasta fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur var felld tillaga um uppbyggingu mannvirkja hjá Fjölni í Grafarvogi. Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, en þeir báru fram tillöguna

Á síðasta fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur var felld tillaga um uppbyggingu mannvirkja hjá Fjölni í Grafarvogi.

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, en þeir báru fram tillöguna. Fulltrúi Vinstri-grænna sat hjá við afgreiðslu málsins.

„Átalinn er sá tilefnislausi dráttur sem hefur orðið á afgreiðslu tillögunnar í ráðinu en nú eru liðnir rúmir sextán mánuðir frá framlagningu hennar,“ sagði í bókun sjálfstæðismanna eftir að tillagan hafði verið felld.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins segjast í bókuninni harma að fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarstjórn hafi fellt fyrirliggjandi tillögu um úrbætur í aðstöðumálum Ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi. Félagið sé stærsta íþróttafélag landsins með um 3.500 iðkendur.

Fjölnir sinni afar mikilvægu starfi í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs og sé jafnframt óaðskiljanlegur hluti af hverfisbrag í Grafarvogi. Ljóst sé að þær framkvæmdir sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til myndu bæta verulega aðstæður til íþróttaiðkunar í Grafarvogi og fullnægja kröfum KSÍ um leyfisveitingar vegna keppnisvalla í efstu deildum Íslandsmótsins í knattspyrnu.

„Núverandi keppnisvöllur Fjölnis stenst ekki þær kröfur, sem er óviðunandi og stendur félagið höllum fæti að þessu leyti í samanburði við önnur íþróttafélög í Reykjavík,“ segir í bókuninni.

Fram kom í tillögunni að hún væri byggð á hugmyndum frá Fjölni. Þá liggi fyrir álit skipulagsstjóra um að þessar hugmyndir gangi upp. sisi@mbl.is