Fyrirmynd Anna Fanney vill vera fyrirmynd fyrir þá sem feimnir eru.
Fyrirmynd Anna Fanney vill vera fyrirmynd fyrir þá sem feimnir eru.
Söngkonan Anna Fanney Kristinsdóttir er rétt komin niður af bleika skýinu en síðasta föstudagskvöld stóð hún uppi sem sigurvegari í íslenska Idol. Hún segist vera stolt af sjálfri sér fyrir að hafa ákveðið að taka þátt

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Söngkonan Anna Fanney Kristinsdóttir er rétt komin niður af bleika skýinu en síðasta föstudagskvöld stóð hún uppi sem sigurvegari í íslenska Idol. Hún segist vera stolt af sjálfri sér fyrir að hafa ákveðið að taka þátt. Stikla sem fór sem eldur í sinu um veraldarvefinn í upphafi þáttanna sýnir feimna stúlku með stórkostlega rödd sem vakti fljótt athygli fólks.

„Í fyrstu prufunni var ég með lokuð augu allan tímann því ég gat ekki horft á fólkið sem var að dæma mig,“ segir Anna Fanney og hlær. „En nú hefur það breyst.“

Anna Fanney var hrædd í fyrstu við að fara út í þetta en sér ekki eftir því í dag.

„Ég er mjög stolt af sjálfri mér og ánægð með að hafa tekið þátt. Þetta hefur hjálpað mér svo mikið hvað varðar sjálfsöryggi og ég er allt önnur núna en þegar ég sótti um.“ Hún segir þó engan hafa þurft að ýta henni út í þetta. „Ég ákvað þetta því mér finnst gaman að taka þátt í svona keppnum. Ég kunni ekki að semja eða gera neitt þannig en mér finnst gaman að syngja. Svo ég horfi á söngvakeppnir eins og tækifæri til að syngja meira og sama hversu feimin ég verð næ ég samt alltaf að syngja, þrátt fyrir feimnina.“

Hún segir ferlið hafa gert sér ótrúlega gott og að hún hafi brotist út úr skelinni. „Þegar ég er uppi á sviði núna reyni ég að vera með sjálfri mér meira og minna inni í höfðinu á mér. Það er eitthvað sem hefur breyst mikið. Þetta hefur líka hjálpað mér mjög mikið með það að hafa gaman af því að syngja með salnum, fólkinu sem er að horfa á mig.“

Krefjandi að vera persónuleg

Það skemmtilegasta við keppnina fannst Önnu Fanneyju vera allt fólkið sem hún eyddi tíma með, keppendur og aðrir. „Fólkið sem var að mæta á æfingar og topp átta hópurinn sem ég náði að kynnast ótrúlega vel, það var það skemmtilegasta. Það að hafa fullt af góðu fólki í kringum mig því það voru allir svo hjálpsamir og skemmtilegir. Svo auðvitað líka að syngja uppi á sviði,“ segir hún brosandi.

Persónulega nálgunin og viðtölin þóttu henni hvað mest krefjandi. „Það að reyna að vera opin baksviðs og allt það. Þetta snýst ekki bara um sönginn heldur líka það að sýna hver ég er og fá fólk til að líka vel við mig.“

Nú tekur við spennandi tími hjá Önnu Fanneyju en hún er komin með plötusamning. Hún horfir á tímann fram undan sem æfingu.

„Ég er að fara á fund í vikunni, þar skipuleggjum við tíma til að fara í stúdíó og svona. Það er æfing hjá mér að vinna í tónlist því ég hef ekki gert það sjálf, svo ég horfi á þetta sem gott tækifæri og mikla æfingu. Nú er ég að fá þessa hjálp sem ég virkilega þarfnaðist til að búa til tónlist.“

Hún segir rólega tónlist vera eitthvað sem hafi alltaf heillað hana en að hún sé sem stendur opin fyrir öllu. „Mig langar að gera svolítið alls konar, ég hef alltaf verið að taka rólegri lög, það er það sem ég hef verið að pæla í. En svo er ég líka til í að prófa lög sem hægt er að dansa við. Ef ég væri að gera allt sjálf yrðu sennilega róleg og sorgleg lög fyrir valinu,“ segir hún hlæjandi. „En ég er að fara að prófa alls konar og margt mismunandi.“

GDRN er frábær

En hver er draumalistamaðurinn til að vinna með? „GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir) er örugglega einhver sem ég myndi vilja vinna með, mér finnst hún frábær. Raddirnar okkar eru svipaðar og ég held að við gætum hljómað vel saman. Svo kannski Flóni, eða bara Herra Hnetusmjör,“ segir hún og brosir en Árni Páll Árnason, Herra Hnetusmjör, var einn dómara þáttanna.

Augnablikið sem stendur hvað mest upp úr fyrir Önnu Fanneyju var í fyrsta þættinum sem sýndur var í beinni útsendingu. „Þegar ég tók Stanslaust stuð. Það var mjög mikið út fyrir þægindarammann minn, að fara í fyrstu beinu útsendinguna með þetta lag og svo líka hreyfa mig uppi á sviði. Er mjög stolt af þeirri frammistöðu.“

Hún segist vona að hún geti verið fyrirmynd fyrir aðra sem vilja brjótast út úr skelinni. „Allt þetta ferli hjálpaði mér svo svakalega. Það er alltaf hægt að komast út úr þægindarammanum og skelinni sinni ef maður bara þorir.“

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir